Hver eru fasteignagjöldin í mínu sveitarfélagi?

Fasteignamat allra mannvirkja á landinu er uppfært árlega af Þjóðskrá Íslands, (áður Fasteignamati ríkisins). Fasteignamatinu er ætlað að endurspegla markaðsvirði fasteigna enda tekur Þjóðskrá Íslands mið af markaðsvirði sambærilegra fasteigna á sama markaðssvæði við ákvörðun sína. Þjóðskrá tilkynnir fasteignaeigendum um fyrirhugað mat næsta árs í júní á hverju ári, þó það taki síðan ekki gildi fyrr en næstkomandi áramót.

Sveitarstjórn hvers og eins sveitarfélags nýtir fasteignamat Þjóðskrár við ákvörðun sína um álagningu fasteignagjalda hjá sínu sveitarfélagi en fasteignagjöld er ákveðið hlutfall (prósenta) af fasteignamatinu. Sveitarstjórn ákvarðar hlutfallstölu fasteignagjalda næstkomandi árs í tengslum við fjárhagsáætlanagerð næsta árs á hverju hausti en er þó bundið af rammanum sem lög um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 setur þeim. Samkvæmt lögunum eru fasteignir flokkaðar í þrjá flokka, A, B og C, þar sem þak er sett á hlutfallið sem innheimta má af fasteignamati.

Hér fyrir neðan eru krækjur inn á vefsíður aðildarsveitarfélaga UTU bs. þar sem finna má upplýsingar um álagningu fasteignagjalda hvers og eins sveitarfélags. Á heimasíðum sveitarfélaganna má jafnframt finna gjaldskrár þjónustugjalda vegna þeirrar þjónustu sem sveitarfélögin veita.

Ásahreppur

Bláskógabyggð

Grímsnes og Grafningshreppur

Flóahreppur

Hrunamannahreppur

Skeiða- og Gnúpverjahreppur

Mikilvægt er að eigendur gangi úr skugga um að upplýsingar um fasteignir þeirra séu rétt skráðar. Ef upplýsingarnar eru ekki réttar skal koma athugasemdum á framfæri við byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags. Umhverfis- og tæknisvið Uppsveita bs. sér um skráningu fasteigna fyrir ofangreind sveitarfélög.  Fasteignaeigendur þessara sveitarfélaga geta komið leiðréttingum eða ábendingum á framfæri með því að hringja í síma 480-5550 eða sent tölvupóst á netfangið utu@utu.is

Síða uppfærð: 20.05.2022

Hvert er hlutverk byggingarfulltrúa?

Byggingarfulltrúi starfar í umboði sveitarstjórnar. Eftir að sveitarstjórn hefur samþykkt skipulag, s.s. aðalskipulag og/eða deiliskipulag hefur verið mörkuð stefnan um hvers konar mannvirki megi vera á viðkomandi svæði. Hlutverk byggingarfulltrúans er því fyrst og fremst að gæta þess að framkvæmdir séu í takt við gildandi skipulag á hverju svæði fyrir sig og að byggt sé eftir þeim kröfum um fagmennsku og efnisval sem settar eru fram í lögum og byggingareglugerðum.

Eftir að byggingarleyfi hefur verið gefið út fer byggingarfulltrúi á byggingarstað og mælir nákvæmlega staðsetningu hússins á byggingarreit. Á framkvæmdatíma er síðan hlutverk byggingarfulltrúa að fylgjast með framkvæmdunum í samstarfi við byggingarstjóra framkvæmdarinnar og uppfæra byggingarstig hennar jafnt og þétt. Að framkvæmdum loknum fer byggingarfulltrúi síðan í lokaúttekt á mannvirkinu ásamt fagaðila frá brunavörnum og gefur út lokaúttektarvottorð ef framkvæmdin uppfyllir öll skilyrði um eldvarnir og önnur atriði sem gátlisti lokaúttektar ber með sér. Þar með er hlutverki byggingarfulltrúa vegna þessarar tilteknu framkvæmdar lokið.

Það er einnig hlutverk byggingarfulltrúa að gefa umsögn um rekstrarleyfi sem sýslumaður veitir, s.s. vegna gisti- og veitingastaða og vínveitingarleyfa.

Byggingarfulltrúi Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. (UTU) er Davíð Sigurðsson, netfang: david@utu.is og starfar hann í umboði eftirtalinna sveitarstjórna:

 • Ásahrepps
 • Bláskógabyggðar
 • Flóahrepps
 • Grímsnes- og Grafningshrepps
 • Hrunamannahrepps
 • Skeiða- og Gnúpverjahrepps

 

Síða uppfærð: 23.05.2022

Hver er munurinn á byggingarheimild og byggingarleyfi?

Byggingarheimild er nýtt hugtak sem varð til við breytingu á byggingarreglugerð 123/2010 í árslok 2021 (nr. 1321/2021).

Breyting byggingarreglugerðarinnar fólst fyrst og fremst í því að byggingarframkvæmdum var skipt upp í 3 flokka eftir umfangi þeirra, í þeim tilgangi að skýra stjórnsýslu í mannvirkjamálum og gera umsóknarferlið skilvirkara. Markmið breytinganna var að aðlaga kröfur um efni og form umsókna að hverjum flokki og gera eftirlit með hönnun og framkvæmdum markvissara. Kröfur um hönnun og byggingareftirlit eru þær sömu hvort sem um er að ræða byggingarheimild eða byggingarleyfi. Kröfur um yfirferð séruppdrátta og skil á þeim áður en viðkomandi verkþáttur er unnin er þó rýmri á málum sem fá byggingarheimild miðað við mál sem þurfa byggingarleyfi. Á málum sem fá byggingarheimild er auk þess ekki skylda að skrá iðnmeistara verksins hjá byggingarfulltrúa – en þó er skylda að byggingarstjóri verksins haldi utan um þær upplýsingar í sínu gæðakerfi.

Umsókn og veiting byggingarheimildar á við um þau mannvirki sem falla í umfangsflokk 1 skv. byggingarreglugerð. Í þessum umfangsflokki eru „minni mannvirkjagerð þar sem lítil hætta er á manntjóni, efnahagslegar og samfélagslegar afleiðingar mögulegs tjóns á mannvirki eru litlar og umhverfisáhrif eru takmörkuð“ – eins og segir í grein 1.3.2 byggingarreglugerðarinnar. Haft er til viðmiðunar að í þessum umfangsflokki séu mannvirki þar sem ekki safnast saman mikill fjöldi fólks og fólk hefur ekki fasta búsetu. Í umfangsflokk 1 falla t.d. eftirtaldar byggingarframkvæmdir:

 • Geymsluhúsnæði
 • Landbúnaðarbyggingar
 • Frístundahús (sumarhús)
 • Sæluhús
 • Stakstæðir bílskúrar
 • Gestahús
 • Skálar og viðbyggingar við þegar byggð mannvirki.
 • Niðurrif mannvirkja (að hámarki 4 hæðir og/eða minna en 2.000 fermetrar)

Byggingarleyfi á við um umfangsflokka 2 og 3.

Undir umfangsflokk 2 falla mannvirki sem eru „meðalstór þar sem ekki er mikil hætta á manntjóni, efnahagslegar, samfélagslegar og umhverfislegar afleiðingar tjóns á mannvirki  eru viðunandi“. Í umfangsflokki 2 eru mannvirki þar sem miðað er við að fólk geti haft fasta búsetu, án þess endilega að þekkja flóttaleiðir  – en geti þó bjargað sér sjálft út úr mannvirkinu. Í þennan flokk falla m.a. eftirfarandi mannvirki:

 • Íbúðarhúsnæði
 • Gistiheimili
 • Atvinnuhúsnæði
 • Iðnaðarhúsnæði
 • Bílastæðahús
 • Sé mannvirki hærra en 8 hæðir og stærra en 10.000 fermetrar flokkast það almennt í umfangsflokk 3.

Í umfangsflokk 3 falla „mannvirki þar sem gert ráð fyrir að mikill fjöldi fólks geti safnast saman eða að notkun þeirra sé þannig að fólk geti ekki bjargað sér sjálft úr mannvirkinu“.

Séu mannvirki ekki hærri en fjórar hæðir og ekki stærri en 2.000 fm er heimilt að fella þau undir umfangsflokk 2 ef flækjustig hönnunarinnar er ekki því meira. Í umfangsflokk 3 falla eftirtalin mannvirki:

 • Verslunarmiðstöðvar
 • Skólar
 • Íþrótta- og menningarmannvirki
 • Stærri veitur og virkjanir
 • Lokaðar stofnanir, s.s. sjúkrahús, dvalar- og hjúkrunarheimili, lögreglustöðvar og fangelsi.

Í reynd þarf umsækjandi ekki mikið að velta því fyrir sér hvort hann eigi að sækja um byggingarheimild eða byggingarleyfi.  Sótt er um leyfisskyldar framkvæmdir á sama eyðublaðinu inni á Þjónustugátt UTU bs. á heimasíðu embættisins, www.utu.is 

Sjá nánar í:

Byggingarreglugerð 112/2012

Síða uppfærð: 20.05.2022

Hvað má ég byggja stóran kofa án byggingarheimildar?

Stutta svarið við þessari spurningu er 15 fermetrar og fellur kofinn þá undir skilgreiningu smáhýsis.

Athugið þó að gildandi deiliskipulag á hverju svæði fyrir sig getur sett fram sérstök skilyrði um leyfilega stærð smáhýsa, bæði til stækkunar eða minnkunar. Deiliskipulagið getur jafnvel bannað slík smáhýsi með öllu. Hægt er að kanna hvort deiliskipulag sé til fyrir þitt svæði á kortasjánni www.map.is/sudurland.

Deiliskipulag er alltaf rétthærra en almenn ákvæði byggingarreglugerðar.

Smáhýsið þarf að sjálfsögðu að byggja innan lóðamarka en má byggja utan skilgreinds byggingareits. Frumskilyrði þess að smáhýsið þurfi ekki byggingarheimild er að það sé ekki íverustaður manna til gistingar heldur er hér einkum átt við að smáhýsið gegni hlutverki geymslu fyrir garðáhöld og þess háttar.

Önnur skilyrði eru:

 • Hæð þaks á smáhýsi má mest vera 2,5 metrar, (hæsti punktur) mælt frá yfirborði jarðvegs
 • Veggur smáhýsis sem snýr að lóðarmörkum og er nær lóðarmörkum en 3,0 metrar skal vera glugga- og hurðalaus
 • Ef smáhýsi er nær lóðarmörkum en 3,0 metrar skal liggja fyrir skriflegt samþykki lóðarhafa þeirrar nágrannalóðar og skal það lagt fram hjá byggingarfulltrúa.
 • Fjarlægð milli smáhýsa innbyrðis, frá glugga eða hurð húss og frá útvegg timburhúss þarf að vera að lágmarki 3,0 metrar – nema sýnt sé fram á að brunamótstaða veggja smáhýsisins og aðliggjandi húss sé þannig að fullnægjandi brunahólfun náist á milli húsanna.

Sjá nánar grein 2.3.5 í byggingarreglugerð 112/2012 með síðari breytingum

Síða uppfærð: 20.05.2022

Hver er munurinn á tilkynningarskyldri framkvæmd og framkvæmd háð byggingarheimild / byggingarleyfi?

Stærsti munurinn er sá að tilkynningarskyld framkvæmd er alfarið gerð á ábyrgð eiganda og hönnuðar. Ekki er gerð krafa um byggingarstjóra fyrir framkvæmdina eða að iðnmeistarar staðfesti ábyrgð sína gagnvart byggingaryfirvöldum. Engar úttektir fara fram af hálfu byggingaryfirvalda, hvorki áfanga-, stöðu-, öryggis- eða lokaúttektir.

Hinsvegar verður framkvæmdin að vera í samræmi við deiliskipulag svæðisins og önnur ákvæði byggingarreglugerðar eins og við á hverju sinni.

Þó aðeins sé um tilkynningarskylda framkvæmd að ræða verður eigandi að ráða til sín löggildan hönnuð sem útbýr aðaluppdrætti og greinargerð vegna  tilkynningarskyldra framkvæmda. Þau gögn skulu fylgja umsókn um tilkynningarskylda framkvæmd á rafrænni þjónustugátt embættisins.  Í greinargerð hönnuðarins verður að koma fram rökstuðningur fyrir því að fyrirhuguð framkvæmd sé innan þeirra marka sem tilgreind eru í grein 2.3.6 í byggingarreglugerð og að hún samræmist skipulagsáætlunum þess svæðis þar sem framkvæmdin mun eiga sér stað.

Þar sem eigandi ber svo ríka ábyrgð á framkvæmdinni er honum eindregið ráðlagt að ráða fagmenn til verksins sem hjálpa honum að tryggja að fylgt sé kröfum laga og reglugerða um byggingarframkvæmdir og þeim hönnunargögnum sem afhent voru byggingaryfirvöldum vegna tilkynningarinnar.

 

Óheimilt er að hefja tilkynningarskylda framkvæmd fyrr en byggingarfulltrúi hefur formlega samþykkt að hann fallist á þau rök að framkvæmdin samræmist skipulagsáætlunum og sé innan þeirra marka sem tilgreind er í grein 2.3.6 í byggingarreglugerð sem veita undanþágu frá byggingarheimild.

 

Sjá ítarlegri upplýsingar hér annars staðar á síðunni um tilkynningarskyldar framkvæmdir og hvaða framkvæmdir falla þar undir.

Síða uppfærð: 20.05.2022

Hvar finn ég teikningar (uppdrætti) af húsinu mínu?

Teikningar af mannvirkjum, þ.e. aðaluppdrætti og séruppdrætti, má í langflestum tilvikum finna á kortasjá embættisins, www.map.is/sudurland.  Haka þarf við „Teikningar af byggingum“ á hægri spalta og þysja sig inn á loftmyndinni þar til húsið finnst sem óskað er eftir teikningum af. Með því að smella á appelsínugulan punkt yfir húsinu birtist tafla yfir teikningar (uppdrætti) viðkomandi byggingar.

Ef teikningar finnast ekki á kortasjá er ykkur velkomið að hafa samband við embætti byggingarfulltrúa í síma 480-5550 í símatíma milli kl. 09.00 – 12.00 alla virka daga nema miðvikudaga. Einnig er hægt að senda tölvupóst með fyrirspurnum á netfangið utu@utu.is

Síða uppfærð: 20.05.2022

Hvernig er verkferill byggingarmáls hjá byggingarfulltrúa?

Ferli umsóknar um byggingarheimild / byggingarleyfi skiptist í tvo meginþætti:

1. Samþykkt byggingaráforma

2. Útgáfa byggingarheimildar / byggingarleyfis

 

1. Samþykkt byggingaráforma:

 • Öll byggingarmál byrja þannig að umsækjandi óskar eftir byggingarheimild / byggingarleyfi með því að sækja um í gegnum rafræna þjónustugátt embættisins sem finna má á síðunni www.utu.is.
 • Mikilvægt er að samþykki allra eigenda byggingarlóðarinnar liggi fyrir eða séu skráðir umsækjendur um byggingarheimildina /byggingarleyfið
 • Með umsókninni þurfa að fylgja eftirfarandi gögn:
  • Tilkynning um hver sé hönnunarstjóri mannvirkisins ásamt staðfestingu hans á verkið í gegnum þjónustugátt
  • Aðaluppdrættir sem gerðir eru af hönnuði sem hefur til þess löggilt réttindi, s.s. arkitekt, byggingafræðingi, tæknifræðingi eða verkfræðingi.
  • Útfylltur gátlisti hönnuða vegna aðaluppdrátta
  • Skráningartafla á rafrænu formi (excel)

Ef öll gögn fylgja með umsókn og eru fullnægjandi er málið sent fyrir afgreiðslufund byggingarfulltrúa UTU sem haldinn er 1. og 3. miðvikudag í mánuði. Á afgreiðslufundi fer byggingarfulltrúi yfir umsóknina og gætir að því hvort framlögð gögn sýni fram á að umsóknin sé í samræmi við gildandi skipulag á því svæði sem byggingarlóðin er á.

 • Ef umsókn er ekki í samræmi við gildandi skipulag -> máli hafnað eða sent áfram á skipulagsfulltrúa
 • Ef umsókn er í samræmi við gildandi skipulag og uppfyllir kröfur byggingareglugerðar -> Samþykkt byggingaráform

Eftir afgreiðslufund er umsækjandi/umsækjendur upplýstur/upplýstir um það formlega með birtingu afgreiðslubréfs í í pósthólfi viðkomandi á www.island.is, (mínar síður) hver niðurstaða afgreiðslufundar byggingarfulltrúa sé. Afgreiðslubréfið er jafnframt sent umsækjanda/umsækjendum í tölvupósti – eða í einstaka tilvikum bréflega.

Samþykkt byggingaráform jafngildir ekki byggingarheimild / byggingarleyfi heldur gefur aðeins til kynna að byggingaráformin séu í samræmi við skipulag og að senda megi inn frekari gögn og upplýsingar til að fá byggingarheimild / byggingarleyfi.

2. Byggingarheimild / byggingarleyfi

Ekki er gefin út formleg byggingarheimild eða byggingarleyfi fyrr en eftirfarandi atriði hafa verið uppfyllt:

 • Skil á fullnægjandi teikningum, þ.e. aðaluppdráttum af fyrirhugaðri framkvæmd
 • Skil á skráningartöflu mannvirkisins
 • Skil á upplýsingum um byggingarstjóra
 • Skil á upplýsingum um iðnmeistara
 • Byggingarleyfisgjöld hafa verið greidd

Ef séruppdráttum af burðarvirki, pípulögnum og raflögnum er ekki jafnframt skilað samhliða aðaluppdráttum skal þeim skilað til byggingarfulltrúa áður en viðkomandi verkþáttur hefst.

Þegar byggingarheimild hefur verið veitt / byggingarleyfi hefur verið gefið út – má fyrst hefja framkvæmdir

Síða uppfærð: 20.05.2022

HVAR GET ÉG FUNDIÐ UPPLÝSINGAR UM ÞAÐ HVORT ÍBÚÐIN SEM ÉG ER AÐ ÍHUGA AÐ KAUPA SÉ „SAMÞYKKT“?

Embætti byggingarfulltrúa veitir upplýsingar um það hvort íbúðir séu „samþykktar“.

Hafðu samband í síma 480-5550 eða sendu fyrirspurn á netfangið: utu@utu.is

Hvað er mannvirki?

Spurningin kann að virðast kjánaleg en kemur þó upp öðru hvoru í tengslum við skilgreiningar á því hvenær sækja þarf um leyfi fyrir framkvæmdum hjá byggingarfulltrúa.

Í skilgreiningu á hugtakinu „Mannvirki“ í byggingarreglugerð 112/2012 segir svo:

„Mannvirki: Hvers konar jarðföst, manngerð smíð, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, umferðar- og göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautir til fólksflutninga. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar. Mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast einnig til mannvirkja samkvæmt reglugerð þessari“.

Síða uppfærð: 23.05.2022

Hvað þarf að gera ef ætlunin er að flytja eldra, þegar byggt hús, á byggingarlóð?

Leyfi byggingarfulltrúa fyrir flutningi á þegar byggðu húsi er háð því að húsið falli að því skipulagi sem gildir um það svæði sem byggingarlóðin er á. Í upphafi ætti umsækjandi því að athuga hvort deiliskipulag sé í gildi yfir þá byggingarlóð þar sem hann hyggst staðsetja húsið og velta fyrir sér hvort húsið falli að því skipulagi. Einfaldast er að kanna þetta með því að fara inn á Kortasjá (www.map.is/sudurland), þysja sig inn á svæðið á loftmyndinni þar sem byggingarlóðin er, sprengja út „Skipulag“ með því að ýta á + og haka síðan við „Deiliskipulag“.

 

Að því loknu þarf að sækja um byggingarleyfi inn á rafrænni Þjónustugátt UTU bs. og láta eftirfarandi gögn fylgja með umsókninni:

 • Fullunnir aðaluppdráttir ásamt afstöðumynd af staðsetningu húss með byggingarlýsingu sem skýrir hvað er verið að gera
 • Ástandsmati á húsinu sem unnin er af fagmanni s.s. húsasmíðameistara eða hönnuði
 • Skráningartöflu hússins sem segir til um allar mælistærðir hússins
 • Núverandi eigandi þarf að skila inn veðbókarvottorði sem staðfesti að engin veðbönd hvíli á húsinu.

Þessi upptalning ber með sér að eigandinn sem hyggst flytja húsið verður að hafa með í ráðum hönnuð með löggildingu Mannvirkjastofnunar sem hefur leyfi til að skila inn þeim gögnum sem gerð er krafa um.

Síða uppfærð: 16.06.2022

Hvaða framkvæmdir eru leyfðar án byggingarheimildar eða byggingarleyfis?

Deiliskipulag svæðis, t.d. í þéttbýli eða í frístundabyggð, getur sett fram sérstök skilyrði um ýmis atriði s.s. varðandi leyfilega stærð smáhýsa o.s.frv. Kanna má hvort deiliskipulag sé til fyrir þitt svæði á Kortasjánni www.map.is/sudurland   Deiliskipulag er alltaf rétthærra en almenn ákvæði byggingarreglugerðar.

 

Þegar deiliskipulag liggur fyrir gildir grein 2.3.5 í byggingarreglugerð 112/2012 – með síðari breytingum – sem segir að eftirfarandi framkvæmdir og breytingar séu undanþegnar byggingarheimild og byggingarleyfi og séu ekki tilkynningarskyldar til byggingarfulltrúa:

a. Allt viðhald innanhúss og utan, þ.m.t. endurnýjun léttra innveggja. 
Allt eðlilegt viðhald innanhúss í íbúðarhúsnæði, s.s. endurnýjun innréttinga og breytingar eða endurnýjun á léttum innveggjum.

b. Móttökudiskar og loftnet.
Uppsetning móttökudisks, allt að 1,2 m að þvermáli, vegna móttöku útsendinga útvarps eða sjónvarps eða móttökuloftnets, að því tilskildu að slíkt sé ekki óheimilt samkvæmt skilmálum deiliskipulags.

c. Framkvæmdir á lóð.
Allt viðhald lóðar, girðinga, bílastæða og innkeyrslu.

d. Pallar við jarðvegsyfirborð.
Gerð palla og annar frágangur á eða við jarðvegsyfirborð, enda rísi pallur ekki hærra en 0,3 m frá því yfirborði sem fyrir var. Pallur úr brennanlegu efni má þó ekki vera nær lóðarmörkum aðliggjandi lóðar en 1,0 m. Ekki er heimilt að breyta hæð lóðar á lóðarmörkum án samþykkis leyfisveitanda og samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Þá er ekki heimilt að breyta hæð lóðar innan hennar þannig að það valdi skaða á lóðum nágranna eða skerði aðra hagsmuni nágranna, t.d. vegna útsýnis.

e. Skjólveggir og girðingar á lóð.
Skjólveggir og girðingar sem eru allt að 1,8 m að hæð og eru ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m. Ennfremur girðingar eða skjólveggir sem eru nær lóðarmörkum en 1,8 m og eru ekki hærri en sem nemur fjarlægðinni að lóðarmörkum. Einnig allt að 2,0 m langir og 2,5 m háir skjólveggir sem eru áfastir við hús og í a.m.k. 1,8 m fjarlægð frá lóðarmörkum. Lóðarhöfum samliggjandi lóða er heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingu eða skjólvegg allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum, enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina. Miðað skal við jarðvegshæð lóðar sem hærri er ef hæðarmunur er á milli lóða á lóðamörkum.

f. Smáhýsi á lóð.
Smáhýsi úr léttum byggingarefnum til geymslu garðáhalda o.þ.h. á lóð utan byggingarreits þegar eftirfarandi kröfur eru uppfylltar, enda sé slík bygging ekki óheimil samkvæmt gildandi deiliskipulagi:

 1. Flatarmál smáhýsis er að hámarki 15 m².
 2. Mesta hæð þaks á smáhýsi er 2,5 m mælt frá yfirborði jarðvegs.
 3. Sé smáhýsið minna en 3,0 metra frá aðliggjandi lóð þarf samþykki eiganda aðliggjandi lóðar og skal leggja það fram hjá byggingarfulltrúa.
 4. Slík smáhýsi eru ekki ætluð til gistingar eða búsetu.

Sjá: Byggingarreglugerð 112/2012 með síðari breytingum

Síða uppfærð 23.05.2022

FRÁ HVERJUM ÞARF ÉG LEYFI TIL AÐ SETJA SKJÓLVEGG Á LÓÐARMÖRK?

Sækja þarf um byggingarleyfi hjá embætti byggingarfulltrúa fyrir skjólveggjum og  girðingum lóða sem ekki falla undir undanþáguákvæði byggingarreglugerðar.

Til undantekningar teljast:

 • Skjólveggir og girðingar sem eru allt að 1,8 m að hæð og eru ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m.
 • Girðingar eða skjólveggir sem eru nær lóðarmörkum en 1,8 m og eru ekki hærri en sem nemur fjarlægðinni að lóðarmörkum.
 • Allt að 2,0 m langir og 2,5 m háir  skjólveggir sem eru áfastir við hús og í a.m.k. 1,8 m fjarlægð frá lóðarmörkum.

Lóðarhöfum samliggjandi lóða er heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingu eða skjólvegg allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum, enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda  (byggingarfulltrúa) undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina. Miðað skal við jarðvegshæð lóðar sem hærri er ef hæðarmunur er á milli lóða á lóðamörkum.

Síða uppfærð: 23.05.2022

Eru skilti byggingarleyfisskyld?

Hvers konar skilti sem eru yfir 1,5 fermeter að flatarmáli eru byggingarleyfisskyld, hvort sem um er að ræða frístandandi skilti eða skilti á byggingum. Undantekning frá kröfu um byggingarleyfi eru þó tímabundin skilti undir 2,0 fermetrar að stærð sem ætlað er að standa skemur en tvær vikur. Umferðarskilti og þess háttar skilti eru ekki byggingarleyfisskyld.

Sækja skal um byggingarleyfi fyrir varanlegum skiltum sem eru stærri en 1,5 fermeter að stærð í gegnum Þjónustugátt UTU bs. Umsókn skulu fylgja gögn sem sýna útlit, fyrirkomulag og öryggi skiltanna.

Fjallað er um skilti í kafla 2.5 í byggingarreglugerð og þar er sérstaklega áréttað í kafla 2.5.2 að tryggja verði við gerð og uppsetningu skiltanna að þau valdi ekki hættu gagnvart almenningi eða öðrum eignum og torveldi ekki aðkomu slökkviliðs og annarra viðbragðsaðila.

Eigandi skiltisins er ábyrgur fyrir því að ekki skapist hætta vegna þess.

Síða uppfærð: 20.05.2022

HVERNIG ERU BYGGINGARSTJÓRI OG IÐNMEISTARAR SKRÁÐIR Á VERK?

Eigandi þeirrar eignar þar sem byggingarframkvæmdir standa til skráir nafn og kennitölu byggingarstjóra verksins í umsóknarforminu um byggingarleyfi í rafrænni þjónustugátt UTU bs. Þegar embætti byggingarfulltrúa hefur samþykkt byggingarstjórann, þá ber byggingarstjórinn í framhaldinu ábyrgð á því að leggja fyrir byggingarfulltrúa lista yfir þá iðnmeistara sem hann hyggst ráða til verksins. Byggingarstjóri og iðnmeistarar undirrita staðfestingu sína á tiltekin verk með rafrænum hætti í gegnum þjónustugátt UTU bs.

Ef byggingarstjóri hættir á meðan á framkvæmdum stendur ber eigandi ábyrgð á því að nýr byggingarstjóri taki við störfum án tafar og á að tilkynna breytinguna til embættis byggingarfulltrúa í gegnum þjónustugátt UTU bs.

Hætti iðnmeistari umsjón með framkvæmdum áður en verki er lokið sér byggingarstjóri um að nýr iðnmeistari taki til starfa án tafar og að tilkynna breytinguna til embættis byggingarfulltrúa í gegnum þjónustugátt UTU bs.

Síða uppfærð: 23.05.2022

Hvert er hlutverk hönnunarstjóra?

Strax í upphafi þegar sótt er um byggingarheimild eða byggingarleyfi í Þjónustugátt UTU bs. skal eigandi tilnefna hönnunarstjóra sem skal hafa yfirumsjón með og bera ábyrgð á því að samræming hönnunargagna, þ.e. aðaluppdrátta, séruppdrátta og annarra hönnunargagna fari fram.

Hönnunarstjóra er heimilt að sækja um byggingarheimild/byggingarleyfi fyrir hönd eiganda um leið og hann leggur fram hönnunargögn málsins og tilgreinir hann þá sjálfan sig sem hönnunarstjóra viðkomandi framkvæmda.

Hönnunarstjóri skal vera löggiltur hönnuður og hafa löggildingu eða sambærileg réttindi til að leggja fram uppdrætti.

Hönnunarstjóri má vera einn af hönnuðum mannvirkisins, t.d. hönnuður aðaluppdrátta, en það er þó ekki skilyrði. Hönnunarstjóri skal hafa gæðastjórnunarkerfi og skal áður en byggingarleyfi er gefið út leggja fram yfirlit um innra eftirlit um hönnunarstörf.

Áður en byggingarleyfi er gefið út skal hönnunarstjóri jafnframt leggja fram yfirlit um ábyrgðarsvið einstakra hönnuða og árita það til staðfestingar á að samræming hafi farið fram.

Upplýsingar um hlutverk hönnunarstjóra koma fram í kafla 4.2 í byggingarreglugerð.

Listi HMS yfir hönnuði með löggildingu

Síða uppfærð: 23.05.2022

Hvert er hlutverk byggingarstjóra?

Byggingastjóra þarf eigandi að ráða strax í upphafi verksins og er ráðning hans ein af forsendum þess að byggingarfulltrúi gefi út byggingarheimild / byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum.

Byggingarstjóri er faglegur fulltrúi eiganda við mannvirkjagerð og starfar í umboði hans samkvæmt skriflegum ráðningar- eða verksamningi við eiganda. Byggingarstjóri skal gæta réttmætra hagsmuna eiganda gagnvart byggingaryfirvöldum, hönnuðum, iðnmeisturum og öðrum sem að mannvirkjagerðinni koma. Byggingarstjóri skal því bera hagsmuni eiganda framkvæmdanna fyrir brjósti og annast innra eftirlit eiganda allt frá því að byggingarheimild eða byggingarleyfi er gefið út og þar til lokaúttektarvottorð vegna mannvirkisins í heild sinni hefur verið gefið út.

Byggingarstjóri ræður iðnmeistara í upphafi verks með samþykki eiganda – eða samþykkir ráðningu þeirra – og gerir við þá skriflegan samning í umboði eiganda um hvaða verkþátt hver og einn iðnmeistari ber ábyrgð á. Með hliðsjón af ríkri ábyrgð byggingarstjóra er eðilegt að hann hafi talsvert um það að segja hvaða iðnmeistarar séu ráðnir til verksins. Byggingarstjóri skal tilkynna útgefanda byggingarleyfisins um þá iðnmeistara sem tekið hafa að sér að bera ábyrgð á einstökum verkþáttum framkvæmdarinnar. Það gerir hann með rafrænum hætti í gegnum Þjónustugátt UTU bs.

Byggingarstjóri sér jafnframt um áfangaúttektir einstakra verkþátta sem iðnmeistararnir framkvæma og tilkynnir þær til útgefanda byggingarleyfisins með rafrænum hætti í gegnum úttektarapp

Við stjórn byggingarframkvæmda hvers leyfisskylds mannvirkis skal á hverjum tíma vera einn byggingarstjóri, sbr. 27. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Byggingarstjóri skal hafa starfsleyfi Mannvirkjastofnunar, sbr. 1. mgr. 28. gr. sömu laga, hafa gilt gæðastjórnunarkerfi í samræmi við kröfur 4.8.1 gr. byggingarreglugerðar og framvísa starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra til útgefanda byggingarleyfisins. Heimilt er að fela lögaðila (fyrirtæki eða stofnun) að bera ábyrgð sem byggingarstjóri, enda starfi einstaklingur hjá lögaðilanum  sem er með starfsleyfi samanber gr. 4.7.6 í byggingarreglugerð.

Í lögum um mannvirki 160/2010 og í kafla 4.7 í byggingarreglugerð má sjá ítarleg ákvæði um hlutverk, skyldur og ábyrgð byggingarstjóra . Sjá einnig leiðbeiningar 4.9.1 sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur gefið út.

Listi HMS yfir byggingarstjóra með gild starfsleyfi

Síða uppfærð: 23.05.2022

HVERJIR GETA ÓSKAÐ EFTIR ÖRYGGIS- OG LOKAÚTTEKTUM OG HVERJIR SKULU VERA VIÐSTADDIR ÞÆR?

Byggingarstjóri skal óska eftir öryggis- og lokaúttekt fyrir hönd eiganda við verklok. Einnig getur eigandi sjálfur óskað eftir að þær séu gerðar. Ef vanrækt er að óska eftir öryggis- eða lokaúttekt getur byggingarfulltrúi sem leyfisveitandi, boðað til slíkra úttekta að eigin frumkvæði.

Viðstaddir öryggis- og lokaúttekt þurfa alltaf að vera úttektarmaður byggingarfulltrúa, fulltrúi brunavarna og byggingarstjóri framkvæmdanna. Að auki skal gefa iðnmeisturum verksins og hönnuðum kost á að vera viðstaddir – en lokaúttekt getur farið fram þó þeir kjósi að mæta ekki.

Upplýsingar um öryggis- og lokaúttektir koma fram í köflum 3.8 og 3.9 í byggingarreglugerð

Síða uppfærð: 16.06.2022

HVAÐ ER ÖRYGGISÚTTEKT?

Þegar mannvirki er tekið í notkun áður en því er að fullu lokið skal óska eftir öryggisúttekt. Öryggisúttekt snýst um að gera úttekt á öryggi húsnæðisins í samræmi við ákvæði skoðunarhandbókar og skoðunarlista varðandi eldvarnir og hollustuhætti.

Óheimilt er að flytja inn í mannvirki eða taka það í notkun nema öryggisúttekt hafi farið fram og leyfisveitandi byggingarleyfis hafi gefið út vottorð um öryggisúttekt.

Eigandi mannvirkisins, eða byggingarstjóri fyrir hönd eiganda, skal óska eftir öryggisúttekt áður en það er tekið í notkun. Hafi byggingarstjóri vanrækt að óska eftir öryggisúttekt áður en mannvirki er tekið í notkun skal leyfisveitandi boða til slíkrar úttektar þegar honum er kunnugt um að notkun sé hafin. Skal leyfisveitandi tilkynna vanræksluna til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og getur slík vanræksla leitt til áminningar eða í versta falli leitt til sviptingar starfsleyfis eða löggildingar eftir því sem við á.

Upplýsingar um hvaða gögn þurfi að fylgja með beiðni um öryggisúttekt má finna í grein 3.8.2 í byggingarreglugerð

Lokaúttekt á mannvirki skal fara fram eigi síðar en þremur árum eftir að öryggisúttekt hefur farið fram. Heimilt er að öryggis- og lokaúttekt fari fram samtímis.

Síða uppfærð: 23.05.2022

Ertu að spá í að fá þér smáhýsi?

HMS hefur gefið út leiðbeiningablað- sjá HÉR

Spurt og svarað um heimagistingu

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman svör við algengustu spurningum varðandi heimagistingu – sjá HÉR

 

Hér eru fleiri algengar spurningar og svör um byggingarreglugerð á síðu HMS