Stofnun lóða

Stofnun lóða er ferli sem umsækjandi þarf að átta sig á strax í upphafi að mun taka allnokkurn tíma.  Ferlið er nokkuð flókið og getur verið nokkuð mismunandi frá einu til annars og flækjustigin eru mörg. Umsækjandi sækir um lóðastofnun hjá UTU bs. sem tryggir rétta málsmeðferð í gegnum stjórnsýsluna en síðar í ferlinu koma að málum fasteignaskrá HMS (Húsnæðis- og mannvirkjaskrá) og sýslumannsembættið.

Ferlið er mismunandi eftir því hvort lóð sé stofnuð á svæði þar sem í gildi er samþykkt deiliskipulag sem gerir ráð fyrir slíkum lóðastofnunum (einfaldari leiðin) eða hvort sótt sé um stofnun lóðar þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir.

Ekki er hægt að stofna lóðir á grundvelli deiliskipulags fyrr en það hefur tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Athugið að deiliskipulag getur aðeins gefið heimild til stofnunar lóða – en er ekki lóðastofnun í sjálfu sér. Lóðastofnun er alltaf sjálfstætt ferli – sem hægt er að framkvæma í kjölfar deiliskipulags sem gerir ráð fyrir slíku.

Í þeim tilvikum sem deiliskipulag liggur ekki fyrir er sótt um stofnun lóðar á grundvelli 48. greinar skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem segir:

Skipting landa og lóða

  • Óheimilt er að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til.
  • Sérhver afmörkuð landareign skal hafa vísun í a.m.k. eitt staðfang í samræmi við 12. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001.
  • Sveitarstjórn getur krafist þess af eigendum landa og jarða að gerður sé fullnægjandi hnitsettur uppdráttur af nýjum landamerkjum eða lóðamörkum til afnota fyrir landeignaskrá og þinglýsingarstjóra.

Þegar sótt er um stofnun lóða/r á grundvelli 48. greinar skipulagslaga þarf alltaf að að grenndarkynna slíka beiðni fyrir mögulegum hagsmunaðilum, s.s. aðliggjandi landeigendum ef um slíkt er að ræða.

 

Hvort sem stofna á lóð á grundvelli deiliskipulags eða skv. 48. gr. skipulagslaga er upphafsferli lóðastofnunar alltaf eins. Umsækjandi um stofnun lóðar hefur samband við mælinga- eða kortagerðarmann sem hefur þekkingu og búnað til að hnitsetja væntanlega lóð eða landareign sem óskað er eftir að verði aðskilin öðru landi. Slíkan fagaðila má t.d. finna hjá verkfræðistofum, teiknistofum eða sem sjálfstætt starfandi.

Þegar hnitsetning lóðarinnar/lóðanna liggur fyrir þarf að teikna lóðina/lóðirnar upp á kort eða loftmynd sem sýnir nákvæmlega legu lóðarinnar/lóðanna innan stærri landareignar og er slík teikning kölluð lóðablað eða mæliblað. Að auki þarf að útbúa yfirlýsingu eða greinargerð þar sem gjörningurinn er settur fram í orðum. Sé fagmaður fenginn til verksins vinnur hann alla jafna slíka greinargerð samhliða hnitsetningunni og mæliblaðinu.

Umsækjandi um stofnun lóðar þarf að gera eftirfarandi:

  • Sækja rafrænt um stofnun lóðar í gegnum Þjónustugátt UTU  -> Umsóknir > 07 Skipulags- og lóðamál > Umsókn um stofnun lóðar. Innskráning á Þjónustugáttina krefst rafrænna skilríkja eða Íslykils.
  • Í viðhengi með rafrænu umsókninni (Uppdrættir/teikningar) skal setja hnitsett lóðablað sem sýnir afmörkun og stærð lóðar
  • Í viðhengi með rafrænu umsókninni (Greinargerð) skal setja yfirlýsingu eða greinargerð þar sem gjörningurinn er settur fram í orðum
  • Í viðhengi með rafrænu umsókninni (Útfyllt eyðublað HMS F-550) skal fylgja með útfyllt umsóknareyðublað HMS – F-550 Umsókn um stofnun fasteigna í fasteignaskrá. Eyðublaðið er hægt að fylla út á heimasíðu HMS en það þarf (enn sem komið er a.m.k.) að prenta það út og allir eigendur upprunalandsins sem stofna á lóðina úr þurfa að undirrita eyðublaðið með eigin hendi til að sýna fram á að þeir séu allir upplýstir og samþykkir þessum gjörningi. Þetta eyðublað er síðan skannað inn og sent sem pdf. skjal í viðhengi með rafrænu umsókninni til UTU.
  • Í viðhengi með rafrænu umsókninni (Samþykki/umboð meðeiganda) má setja samþykki/umboð meðeiganda upprunalandsins sem á að stofna lóðina úr ef það á við. Athugið þó að undirritun allra meðeigenda upprunalandsins á eyðublað F-550 telst vera ígildi samþykkis meðeigenda og frekara umboð óþarft.

 

Upplýsingar um gjaldtöku vegna lóðamála er að finna í 9. grein gjaldskrár UTU bs. vegna skipulagsmála, lóðamála og framkvæmdaleyfa. Jafnframt innheimtir HMS umsækjanda beint samkvæmt sinni gjaldskrá að þeim hluta sem að HMS snýr – sjá kafla 12 – Fasteignaskrá, fasteignamat og brunabótamat > Gjald fyrir stofnun fasteignar 

 

Síða uppfærð: 14.12.2022