Uppmæling landamerkja

Í okkar samfélagi verða skýr landamörk eða eignamörk sífellt mikilvægari. Eins undarlega og það kann að hljóma eru eignamörk víða í ólestri og nágrannar ekki á eitt sáttir um hvar eignamörk milli landa þeirra liggja. Af því hafa því miður allt of oft skapast nágrannaerjur. Deilur af þessu tagi skapast mjög oft af því að menn leggja mismunandi skilning í gömul landamerkjabréf sem kveða á um „stóra steininn í hlíðinni“ eða „sjónhendingu í vörðuna“ eða önnur kennileiti sem eðlilega breytast eða hverfa með tímanum.

Með nútímatækni er auðvelt að hnitsetja nákvæma staðsetningu landamerkja, teikna legu landamarka og reikna út stærð landeigna.

Í dag er gerð krafa um GPS hnitsetningu á öllum landamerkjum þegar nýjar landeignir eru stofnaðar, auk framsetningar á korti (mæliblaði). Fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjaskrár (HMS) færir afmörkun allra nýrra landeigna inn í  landupplýsingakerfi sitt og hægt en örugglega byggist upp áreiðanleg Landeignaskrá (Cadastre), þar sem réttindi eru ekki aðeins tengd fasteignanúmeri, heldur einnig hnitsettri afmörkun sem kalla má fram á korti um ókomin ár.

Aðeins lítill hluti jarða hefur verið mældur upp með þessum hætti og því er ekki mikið um að nákvæmar landstærðir jarða liggi fyrir. Hafa ber í huga að landstærð er ekki það sama og stærð ræktaðs lands. Þeim tölum má aldrei rugla saman – slíkt gefur afar skakka mynd af raunveruleikanum.

Fasteignaskrá HMS (áður Þjóðskrá Íslands) heldur utan um gagnagrunn sem unninn var fyrir allnokkrum árum og kenndur er við Nytjaland. Þar er að finna línur sem dregnar voru upp með misnákvæmum aðferðum til að afmarka bújarðir, í þeim tilgangi að reikna út gæði jarða með tilliti til gróðurlendis og gera samanburð milli landssvæða. Þrátt fyrir góða og þarfa vinnu eiga þær línur sem dregnar voru upp í þessu verkefni ekki  endilega stoð í nákvæmum mælingum og þess var ekki gætt að landeigendur beggja vegna marka staðfestu legu þeirra. Um áætluð mörk er því að ræða og hafa gögnin ekkert gildi hvað afmörkun eignarhalds snertir og hafa enga lagalega þýðingu.

Í vefsjá landeigna má skoða þær landeignir sem þegar hafa hnitsetta afmörkun í landeignaskrá. Einnig er þar að finna sjálfstætt lag með gögnum Nytjalands frá 2006 (hakað við efst í hægra horni).

Hafa ber í huga að nauðsynlegt er að skoða þinglýst skjöl (s.s. landskiptagjörðir, stofnskjöl o.fl.) samhliða landamerkjalýsingum og gróflega uppdregnum línum, þar sem seinni tíma afmarkanir og breytingar á eignarhaldi koma aðeins fram þar. Þinglýst skjöl má nálgast hjá viðkomandi sýslumanni.

 

Sjá leiðbeiningar Þjóðskrár Íslands fyrir landeigendur sem hyggja á uppmælingu landamerkja eða eignamarka.

 

Síða uppfærð: 14.12.2022