Hvert er hlutverk skipulagsfulltrúa?

Skipulagsfulltrúi starfar í umboði sveitarstjórnar. Hans hlutverk er afar umfangsmikið en meginhlutverkið er að hafa umsjón með skipulagsgerð innan marka sveitarfélagsins og hafa eftirlit með leyfisskyldum framkvæmdum. Í því skyni ber honum gæta þess að framkvæmdir séu í samræmi við gildandi skipulag hvers svæðis um sig en að öðrum kosti að móttaka og koma í skipulagsferli beiðnum um breytingar á gildandi skipulagi.

Stór hluti af starfi skipulagsfulltrúa er að veita leiðbeiningar og svara fyrirspurnum íbúa, sveitarstjórnarmanna, hönnuða og verktaka um ýmis mál er varða skipulagsmál, framkvæmdaleyfi og lóða- og landamerkjamál.

Skipulagsfulltrúi er jafnframt faglegur ráðgjafi skipulagsnefndar og situr fundi hennar með málfrelsi og tillögurétt. Skipulagsnefnd Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. (UTU) fundar reglulega 2. og 4. miðvikudag í mánuði nema í júlí vegna sumarleyfa.

Skipulagsfulltrúi Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. (UTU) er Vigfús Þór Hróbjartsson, netfang: vigfus@utu.is og starfar hann í  umboði eftirtalinna sveitarstjórna:

 • Ásahrepps
 • Bláskógabyggðar
 • Flóahrepps
 • Grímsnes- og Grafningshrepps
 • Hrunamannahrepps
 • Skeiða- og Gnúpverjahrepps

Til hvers eru skipulagsáætlanir?

Í skipulagsáætlunum er mörkuð stefna um landnotkun og byggðaþróun. Þar eru sett fram stefnumið um eintaka þætti varðandi íbúðarbyggð, frístundabyggð, atvinnusvæði, landbúnað, náttúruvernd og vatnsvernd svo eitthvað sé nefnt. Þar er einnig reynt að taka tillit til landslagsins og mögulegrar náttúruvár sem kann að vera fyrir hendi á ákveðnum svæðum.

Skipulagsáætlunum er skipt í flokka eftir umfangi:

 • Landsskipulag;  Gerð, umsjón og eftirlit er í höndum Skipulagsstofnunar. Landsskipulagsstefna felur í sér stefnu ríkisins í skipulagsmálum og almenn sjónarmið til leiðbeiningar við skipulagsgerð sveitarfélaga. Henni er ætlað að tryggja heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana sveitarfélaga og stuðla að sjálfbærri þróun. Einnig á landsskipulagsstefna að stuðla að samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga um þróun byggðar og landnýtingu. Sjá nánar á landsskipulag.is
 • Svæðisskipulag; Gerð, umsjón og eftirlit er í höndum svæðisskipulagsnefndar sem skipuð er fulltrúum þeirra sveitarfélaga standa að skipulaginu. Svæðisskipulag er samræmd stefna tveggja eða fleiri sveitarfélaga um sameiginleg hagsmunamál s.s. byggðaþróun, samgöngur og vatnsvernd. Lögbundið er að svæðisskipulag skuli vinna af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu en hjá öðrum sveitarfélögunum er það valkvætt.
 • Aðalskipulag; Gerð, umsjón og eftirlit er í höndum hvers og eins sveitarfélags. Í aðalskipulagi kemur fram stefna hvers og eins sveitarfélags um landnotkun, náttúruvernd og þróun byggðar í öllu sveitarfélaginu.
 • Deiliskipulag;  Gerð umsjón og eftirlit er í höndum sveitarfélaganna. Landeigendur og framkvæmdaaðilar geta samt sem áður unnið tillögur að deiliskipulagi á eigin kostnað – að fenginni heimild sveitarstjórnar. Deiliskipulag nær yfir afmarkað svæði, t.d. einstök hverfi, götureiti eða frístundabyggðir svo eitthvað sé nefnt. Í deiliskipulagi eru sérstakir skipulagsskilmálar um byggðamynstur, einstakar lóðir og byggingar o.fl.

Skipulagsáætlanir þurfa að vera í innbyrðis samræmi. Svæðisskipulag er rétthærra en aðalskipulag og aðalskipulag er rétthærra en deiliskipulag. Við gerð skipulagsáætlana sveitarfélaga skal taka mið af gildandi landsskipulagsstefnu.

Við gerð skipulagsáætlana skal samkvæmt skipulagslögum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa, viðkomandi stjórnvalda og annarra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta við mörkun þeirrar stefnu sem sett er fram í skipulagsáætlunum. Skipulag á að tryggja að landið sé nýtt á sem hagkvæmastan hátt og sérstaklega er tilgreint í skipulagslögum að hafa skuli sjálfbæra þróun að leiðarljósi við gerð skipulagsáætlana. Í því skyni er gerð krafa um mat á umhverfisáhrifum þegar fyrirhugaðar framkvæmdir fara yfir ákveðna stærðargráðu eða eru taldar breyta ásýnd lands það mikið að gæta beri sérstakrar varúðar.

Allt er þetta gert til að þeir kjörnu fulltrúar sem að lokum taka ákvörðun um hvort að ákveðið skipulag skuli taka gildi eða ekki taki vel upplýstar ákvarðanir.

Skipulagsáætlanir - hverjir gera hvað?

Sveitarfélög vinna og samþykkja svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulög. Þau veita líka byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi og hafa eftirlit með framkvæmdum. Umhverfis- og tæknisvið Uppsveita bs. sinnir þessum málum fyrir og í umboði þeirra sex sveitarfélaga sem standa að embættinu, þ.e. Ásahrepps í Rangárvallasýslu og Flóahrepps, Grímsnes- og Grafningshrepps, Bláskógabyggðar, Hrunamannahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps í Árnessýslu.

Landeigendur og framkvæmdaraðilar geta unnið tillögur að deiliskipulagi að fenginni heimild viðkomandi sveitarstjórnar. Tillögurnar eru þá unnar á kostnað þess sem óskar eftir deiliskipulagi eða breytingu á gildandi deiliskipulagi. Ef slík deiliskipulagstillaga fær samþykkt skipulagsnefndar og sveitarstjórnar öðlast þær gildi.

Ýmsar opinberar stofnanir veita umsagnir um tiltekna þætti við gerð skipulags. Til dæmis veitir Umhverfisstofnun umsagnir um náttúruvernd og mengunarmál og Minjastofnun Íslands um fornleifar og húsavernd.

Almenningur getur komið að vinnu við gerð skipulagsáætlana í gegnum íbúafundi eða annað samráð sem sveitarfélagið stendur fyrir. Við formlega kynningu lýsingar skipulagsverkefnis og endanlegrar skipulagstillögu getur almenningur gert skriflegar athugasemdir til sveitarstjórnar sem metur hvort taka skuli þær til greina í því skyni að bæta hina endanlegu skipulagstillögu.

Skipulagsstofnun hefur eftirlit með framkvæmd skipulagslaga og skipulagsreglugerðar sem felst meðal annars í að:

 • Veita leiðbeiningar um skipulagsmál.
 • Fara yfir skipulagstillögur sveitarfélaga, þ.e. aðalskipulag, deiliskipulag og svæðisskipulag.
 • Staðfesta aðal- og svæðisskipulag.
 • Varðveita og miðla upplýsingum um gildandi skipulagsáætlanir.

HVAÐ ER GRENNDARKYNNING?

Skipulagsnefnd tekur ákvörðun um hvort erindi séu send í grenndarkynningu þegar um er að ræða minniháttar breytingar á deiliskipulagi eða þegar um er að ræða viðbyggingar þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir.

Grenndarkynning felst í því að kynna nágrönnum, og mögulega fleiri hagsmunaaðilum, þær breytingar og/eða framkvæmdir sem umsækjandi hugsar sér að ráðast í. Þeir aðilar sem fá grenndarkynninguna er veittur ákveðinn frestur, að lágmarki 4 vikur, til að kynna sér málið og senda inn athugasemdir ef einhverjar eru.

Að frestinum loknum tekur skipulagsnefnd málið aftur til afgreiðslu ef einhverjar athugasemdir vegna málsins hafa borist.

Grenndarkynningargögn ásamt kynningarbréfi eru send mögulegum hagsmunaaðilum á pósthólf þeirra á island.is (mínar síður). Samkvæmt lögum um Stafrænt pósthólf nr. 105/2021. teljast gögn birt viðtakanda þegar gögnin eru aðgengileg á pósthólfi hans og á ábyrgð viðtakanda að fylgjast með því hvort þeir eigi skjöl frá hinu opinbera í pósthólfi sínu. Forsvarsmenn fyrirtækja eru sérstaklega hvattir til að fylgjast með pósthólfi fyrirtækja sinna.

 

Síða uppfærð: 10.09.2022

Til hvers þarf framkvæmdaleyfi?

Framkvæmdaleyfi er leyfi sveitarstjórnar til meiriháttar framkvæmda sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku sem og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum.

Framkvæmdaleyfi er aðeins gefið út ef það er í samræmi við skipulag. Unnt er að veita framkvæmdaleyfi á grundvelli aðalskipulags án deiliskipulagsgerðar eða grenndarkynningar, ef gerð er grein fyrir framkvæmdinni og fjallað ítarlega um hana í aðalskipulagi sveitarfélagsins. Að öðrum kosti kallar veiting framkvæmdaleyfis á að jafnframt liggi fyrir deiliskipulag af viðkomandi svæði. Í þeim tilvikum sem veiting framkvæmdaleyfis kallar á gerð deiliskipulags getur sveitarstjórn þó veitt framkvæmdaleyfi án deiliskipulagsgerðar að undangenginni grenndarkynningu sé framkvæmdin í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

Sótt er um framkvæmdaleyfi hjá skipulagsfulltrúa viðkomandi sveitarfélags. Innan eftirfarandi sveitarfélaga skal sækja um framkvæmdaleyfi hjá skipulagsfulltrúa Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. (UTU), Vigfúsi Þór Hróbjartssyni. Það er einfaldast að gera með því að fylla út „Umsókn um framkvæmdaleyfi“ á rafrænni Þjónustugátt UTU – sjá flokkinn „Skipulags- og lóðamál“. Til innskráningar inn á Þjónustugáttina þarf umsækjandi að hafa rafræn skilríki eða Íslykil. Þeir sem ekki hafa slíkt undir höndum geta sótt um með gamla laginu – sjá eyðublöð skipulagsfulltrúa

 • Ásahrepp
 • Bláskógabyggð
 • Flóahrepp
 • Grímsnes- og Grafningshrepp
 • Hrunamannahrepp
 • Skeiða- og Gnúpverjahrepp

Um gögn vegna framkvæmdaleyfisumsóknar, sjá 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi.

Gildistími framkvæmdaleyfa er 12 mánuðir frá samþykki sveitarstjórnar.

Frekari upplýsingar

HVAÐ ER STAÐFANG LANDEIGNAR?

Staðfang landeignar er heiti landeignarinnar og aðrir þættir sem skilgreina hana frá öðrum landeignum. Staðfang er því meira en bara heimilisfang því það inniheldur upplýsingar um nákvæma staðsetningu mannvirkja og annarra áfangastaða, s.s. heimila, fyrirtækja, frístundahúsa og fjarskiptamastra.

Staðfang er eitt af því sem huga þarf að við umsókn um stofnun nýrrar landeignar og koma þarf fram á lóðablaði þar sem hún mun fá það „staðfang“ við stofnunina.  Gæta þarf þess að sama staðfang (heiti) sé ekki þegar til á sama póstnúmerasvæði.

Gott er að skoða handbók Þjóðskrár um skráningu staðfanga til að átta sig á hvað átt er við með því og sjá notkunardæmi. Handbókinni er skipt í tvennt: