Ný eyðublöð á Þjónustugátt UTU

Umsækjendur um skipulags- og lóðamál geta nú sótt um allt sem slíkt varðar í gegnum rafræna Þjónustugátt UTU hér á heimasíðunni. Um er að ræða viðbót við Þjónustugáttina þar sem viðskiptavinir okkar hafa frá því í nóvember 2019 getað sótt um byggingarleyfi og sent inn viðeigandi gögn varðandi slíkar umsóknir í gegnum þessa sömu Þjónustugátt.

Eyðublöðin eiga að vera það vel uppsett að þau skýri sig sjálf og t.d. hafa í leiðbeiningarskyni allir nauðsynlegir útfyllingarreitir verið stjörnumerktir, sem þýðir að umsækjandi getur ekki sent frá sér umsóknina nema fylla út í viðkomandi reit.

Ný eyðublöð á Þjónustugáttinni varðandi skipulags- og lóðamál eru:

  • Fyrirspurn til skipulagsnefndar
  • Umsókn um skipulagsmál
  • Umsókn um framkvæmdaleyfi
  • Umsókn um stofnun lóðar
  • Umsókn um breytingu á skráningu lóðar

Til viðbótar hafa einnig bæst við þrjú ný eyðublöð á Þjónustugáttina sem varðar byggingarmál:

  • Umsókn um niðurrif
  • Umsókn um stöðuleyfi
  • Umsókn um yfirferð á eignarskiptayfirlýsingu

Umsækjandi fer einfaldlega inn á heimasíðu embættisins, www.utu.is, velur þar „Þjónustugátt UTU“ og skráir sig þar inn með rafrænum skilríkjum eða Íslykli. Þegar inn í Þjónustugáttina kemur er valið „Umsóknir“ efst í hægra horni og fær umsækjandi þá aðgang að 7 flokkum umsóknareyðublaða þar sem valið er það rafræna eyðublað sem við á. Þegar eyðublaðið hefur verið fyllt út og sett inn þau viðhengi sem við á hverju sinni er umsóknin send til embættisins með því að ýta á hnappinn „Senda umsókn“ neðst á blaðinu. Í kjölfarið ætti að koma sjálfvirkur tölvupóstur frá embættinu sem staðfestir að umsóknin hafi verið móttekin. Þegar starfsmaður UTU hefur farið yfir umsóknina, kannað réttmæti hennar og samþykkt inn í málakerfi embættisins berst síðan annar tölvupóstur til umsækjanda sem staðfestir að umsóknin hafi verið skráð í málakerfið og þar með að vinnsla umsóknarinnar sé hafin.

Við höfum miklar væntingar um að þessi nýja umsóknarleið hjálpi okkur starfsmönnum að halda utan um allar umsóknir sem berast auk þess sem það ættu að vera ákveðinn þægindi fyrir umsækjendur að nýta sér þessa einföldu umsóknarleið.

Þeir sem ekki hafa rafræn skilríki geta eftir sem áður sótt hefðbundin umsóknareyðublað undir „Eyðublöð“ á heimasíðunni og fyllt þau út með gamla laginu.