Grenndarkynningargögn eingöngu birt í pósthólfi á island.is

Frá og með 1. september mun embættið hætta að senda út hefðbundnar bréfasendingar og birta afgreiðslubréf og grenndarkynningargögn eingöngu í pósthólfum einstaklinga og lögaðila á island.is. Afgreiðslubréfin eru send á pósthólf umsækjenda málanna en grenndarkynningargögn á þá aðila sem taldir eru eiga mögulegra hagsmuna að gæta við óverulegar skipulagsbreytingar eða byggingarframkvæmdir þar sem skipulag liggur ekki fyrir.

Pósthólfið á island.is er miðlæg þjónustugátt stjórnvalda og er um mikið framfaraskref er að ræða í þjónustu embættisins sem eykur hraða og skilvirkni birtinga á afgreiðslubréfum og öðrum gögnum sem embættinu ber að birta samkvæmt lögum.

Allir einstaklingar með íslenska kennitölu og allir lögðilar sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá hafa aðgang að sínu eigin stafræna pósthólfi.

Samkvæmt lögum 105/2021 er opinberum aðilum, þ.e. ríki, sveitarfélögum, stofnunum þeirra og öðrum opinberum aðilum, skylt að birta gögn i stafrænu pósthólfi stjórnvalda eigi síðar en 01.01.2025. Samkvæmt sömu lögum teljast gögn birt viðtakanda þegar gögnin eru aðgengileg í pósthólfi hans og á ábyrgð viðtakanda að fylgjast með hvort þeir eigi skjöl frá hinu opinbera í pósthólfi sínu. Forsvarsmenn fyrirtækja eru sérstaklega hvattir til að fylgjast með pósthólfi fyrirtækja sinna.

Stjórnvöld vinna nú að innleiðingu pósthólfsins samkvæmt sérstakri innleiðingaráætlun og er UTU bs. fyrsta stofnunin á sveitarstjórnarstiginu til að tengjast þessu pósthólfi. Áður hafa þó sveitarfélögin Reykjavík og Akureyri sent launaseðla starfsmanna sinna inn í pósthólf þeirra auk þess sem mörg sveitarfélög hafa birt álagningarseðla fasteignagjalda í pósthólfinu í talsverðan tíma. Þá hafa ríkisstofnanir eins og Skatturinn, Sjúkratryggingar Íslands og Sýslumenn birt skjöl frá sínum embættum í pósthólfi einstaklinga um nokkurt skeið. Á næstu mánuðum munu fleiri og fleiri fyrirtæki og stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga hefja birtingu sinna afgreiðslubréfa í pósthólfinu þar til innleiðingu verður að fullu lokið í lok árs 2024.

Ástæða er til að hvetja alla landsmenn til að kynna sér pósthólfið sem þeir eiga nú þegar á island.is. Einfaldasta og þægilegasta leiðin er að ná sér í island.is – appið til að hafa aðgang að pósthólfinu í símanum sínum og fá þar inn tilkynningar ef ný skjöl berast þeim í pósthólfið. Einnig er hægt að stilla pósthólfið þannig að það sendi hnipp til eiganda pósthólfsins með tölvupósti eða SMS skeyti þegar nýtt skjal hefur komið inn í pósthólf viðkomandi.