Skipulagsnefndarfundur nr. 275 – 28. febrúar 2024

Fundargerð skipulagsnefndar UTU 275. fundur skipulagsnefndar UTU haldinn miðvikudaginn 28. febrúar 2024 og hófst hann kl. 09:00

Fundinn sátu:

Helgi Kjartansson, Björn Kristinn Pálmarsson, Jón Bjarnason, Walter Fannar Kristjánsson, Haraldur Þór Jónsson, Vigfús Þór Hróbjartsson skipulagsfulltrúi, Davíð Sigurðsson byggingarfulltrúi og Elísabet D. Erlingsdóttir aðstoðarmaður skipulagsfulltrúa.

 

Fundargerð ritaði:  Vigfús Þór Hróbjartsson, skipulagsfulltrúi

Nefndarmenn tóku þátt í gegnum fjarfundabúnað og fundargerð send til rafrænnar undirritunar

Dagskrá:

                 Bláskógabyggð
1.   Eyvindartunga L167632; Langahlíð E19 efnisnáma; Framkvæmdarleyfi – 2312060
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr námu E19, Langahlíð í landi Eyvindartungu. Efnistakan er á grundvelli heimilda aðal- og deiliskipulags svæðisins.
Líkt og fram kemur í umsögnum Skipulagsstofnunar vegna aðalskipulagsbreytingar og deiliskipulags vegna efnistökusvæðis E19 er vinnsla auðlinda í jörðu á grundvelli laga nr. 111/2021, 1. viðauka lið 2.02 tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar sé áætluð efnistaka 50.000 m3 eða meira. Að mati skipulagsnefndar er því ekki forsenda fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis fyrr en niðurstaða Skipulagsstofnunar um matsskyldu verkefnisins liggur fyrir. Mælist nefndin til þess við sveitarstjórn að afgreiðslu málsins verði frestað.
2.  Suðurbraut 6 (L170348); byggingarheimild; sumarbústaður – viðbygging – 2402054
Móttekin er umsókn, þ. 18.02.2024, um byggingarheimild fyrir 65,2 m2 viðbyggingu við sumarbústað á sumarbústaðalandinu Suðurbraut 6 L170348 sem er 3.340 m2 að stærð í Bláskógabyggð. Heildarstærð sumarhúss eftir stækkun verður 115 m2.
Samkvæmt skilmálum aðalskipulags Bláskógabyggðar skal nýtingarhlutfall frístundalóða ekki fara umfram nýtingarhlutfall 0,03 nema á lóðum sem eru minna en 1/3 ha að stærð en þar er leyfilegt byggingarmagn 100 fm. Framlagðir uppdrættir gera ráð fyrir því að nýtingarhlutfall lóðar fari umfram uppgefið hámarksnýtingarhlutfall og húsið verði eftir viðbygginu 115,2 fm að stærð. Að auki bendir nefndin á að samkv. gr. 5.3.2.12 skipulagsreglugerðar skal innan frístundasvæða ekki byggja nær lóðarmörkum en 10 m. Samkvæmt framlögðum gögnum er gert ráð fyrir að viðbygging sé í 7,66 m fjarlægð frá lóðarmörkum. Á grundvelli fyrrgreindra takmarkana aðalskipulags Bláskógabyggðar og skipulagsreglugerðar mælist skipulagsnefnd til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að framlagðri umsókn verði synjað í þeirri mynd sem hún er lögð fram.
3.  Skálabrekka Eystri L224848; Grjótnes- og Hellunesgata, landbúnaðarlóðir; Deiliskipulag – 2210051
Lögð er fram tillaga er varðar nýtt deiliskipulag sem tekur til landbúnaðarlóða í landi Skálabrekku-Eystri eftir auglýsingu og yfirferð Skipulagsstofnunar. Í deiliskipulaginu er gert er ráð fyrir 17 landbúnaðarlóðum á um 75 ha svæði. Stærðir lóða eru frá 30.488 fm til 45.733 fm. Innan lóða er gert ráð fyrir heimild til að reisa eitt íbúðarhús ásamt aukahúsi á lóð innan nýtingarhlutfalls 0,03. Athugasemdir bárust við gildistöku málsins að hálfu Skipulagsstofnunar og eru þær athugasemdir ásamt andsvörum lögð fram við afgreiðslu málsins.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að samþykkja framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Nefndin telur að brugðist hafi verið við umsögnum sem bárust vegna málsins með fullnægjandi hætti innan gagnanna og í framlagðri samantekt athugasemda og viðbragða. Nefndin mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda en mælist þó til þess að Skipulagsstofnun fái málið aftur til yfirferðar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
4.   Heiðarbær við Þingvallavatn; Frístundabyggð; Deiliskipulag – 2206013
Lögð er fram tillaga er varðar nýtt deiliskipulag frístundabyggðar Heiðarbæjar við Þingvallavatn eftir auglýsingu. Markmið deiliskipulagsins er að hafa til staðar deiliskipulag sem gefur heildarmynd af svæðinu þar sem lóðarmörk, aðgengi og gönguleiðir eru skýrar. Jafnframt að fylgja eftir stefnu Bláskógabyggðar um að til skuli vera deiliskipulag fyrir eldri frístundasvæði. Með deiliskipulagsgerðinni er unnið að því að samþætta lóðamörk, auka skilvirkni við umsýslu á lóðum ásamt því að ramma inn svæðið og nýtingu þess í heild og einstaka þætti þess s.s. innviði, náttúruvernd og aðgengi. Athugasemdir og umsagnir bárust á auglýsingatíma skipulagsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt samantekt viðbragða og andsvara.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að samþykkja framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Nefndin telur að brugðist hafi verið við umsögnum sem bárust vegna málsins með fullnægjandi hætti innan gagnanna og innan samantektar málsaðila þar sem við á. Nefndin mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þeim sem athugasemdir gerðu við málið verði tilkynnt um niðurstöðu sveitarstjórnar.
5.   Hrosshagi 4 L228432; Klettaholt, Breytt heiti lóðar – 2401025
Lögð er fram að nýju umsókn er varðar breytt staðfang íbúðarhúsalóðarinnar Hrosshaga 4 L228432. Óskað er eftir að lóðin fái heitið Klettaholt. Með umsókninni er lagður fram ítarlegri rökstuðningur fyrir staðfangi landsins.
Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við umsótt staðfang lóðarinnar á grundvelli framlagðs rökstuðnings og mælist til þess við sveitarstjórn að samþykkja erindið.
6.    Lóustekkur 3 L170590; Bygging bátaskýlis; Fyrirspurn – 2402029
Lögð er fram fyrirspurn til skipulagsnefndar er varðar byggingu bátaskýlis á lóð Lóustekks 3 L170590.
Að mati skipulagsnefndar telst ekki heimild fyrir uppbyggingu á stöku bátaskýli á lóð Lóustekks 3 samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Á hverri lóð er gert ráð fyrir uppbyggingu frístundahúss auk aukahúss auk þess sem ekki er skilgreindur byggingarreitur á viðkomandi lóð. Að óbreyttu telur nefndin að ekki sé heimild fyrir þeirri uppbyggingu sem tiltekin er innan framlagðrar fyrirspurnar. Skipulagsnefnd mælist til þess við umsækjanda að sækja um breytingu á deiliskipulagi þar sem skilgreind verði heimild fyrir uppbyggingu á bátaskýli á lóð Lóustekks 3.
7.   Efsti-Dalur 3 Völlur; Fyrirspurn; Aðalskipulagsbreyting – 2402057
Lögð er fram fyrirspurn sem tekur til heimildar til að hefja vinnu við breytingu á aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027 sem tekur til lands Efsta-Dals 3 Völlur. Í breytingunni felst að innan landsins verði skilgreint frístundasvæði, verslunar- og þjónustusvæði fyrir gistingu og iðnaðarsvæði þar sem ætlunin er að bora eftir heitu vatni.
Skipulagsnefnd UTU vísar framlagðri fyrirspurn áfram til úrvinnslu og umræðu í sveitarstjórn Bláskógabyggðar. Nefndin bendir á að svæðið sem um ræðir er skilgreint sem hverfisverndarsvæði í aðalskipulagi Bláskógabyggðar þar sem eftirfarandi er tilgreint um svæðið: Samfelld svæði þar sem er birkikjarr og/eða birkiskógur eru auðkennd á skipulagsuppdrætti. Svæðin eru afmörkuð skv. kortlagningu Skógræktar ríkisins. Heildarstærð birkiskóga er um 10.000 ha. Einungis er heimilt að gróðursetja íslenskar trjátegundir í birkiskóga og birkikjarr. Samkvæmt stefnumörkun aðalskipulags um hverfisvernd kemur m.a. fram að halda skuli byggingarframkvæmdum í lágmarki og þess gætt að þær leiði til eins lítillar röskunar og kostur er. Skipulagsnefnd telur að unnt sé að ná fram framangreindum markmiðum þrátt fyrir hugsanlega uppbyggingu innan svæðisins og breytta landnotkun . Nefndin bendir jafnframt á að Brúará og 200 metra svæði beggja vegna árbakka er flokkuð sem svæði á náttúruminjaskrá, allar framkvæmdir innan slíkra svæða eru tilkynningarskyldar vegna mats á umhverfisáhrifum. Nefndin bendir jafnframt á að borun eftir heitu vatni er ekki í öllum tilfellum háð skilgreiningu á iðnaðarsvæði nema gert sé ráð fyrir orkuvinnslu eða virkjun borholunnar. Að öðru leyti gerir nefndin ekki athugasemdir við framlagða fyrirspurn.
8.  Miðhús L167415; Miðlunartankur og fjarskiptamastur; Deiliskipulagsbreyting – 2402067
Lögð er fram tillaga deiliskipulagsbreytingar sem tekur til deiliskipulags orlofshúsasvæðis VR í Miðhúsaskógi. Í breytingunni felst ný staðsetning byggingarreitar fyrir miðlunartank auk þess sem skilgreindur er byggingareitur fyrir fjarskiptamastur.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að samþykkja framlagða breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi og verði grenndarkynnt eigendum aðliggjandi lóða.
Flóahreppur
9.   Skálmholt land L186111; Lóð fyrir spennistöð; Deiliskipulagsbreyting – 2402046
Lögð er fram beiðni um óverulega breytingu á deiliskipulagi Skálmholts. Í breytingunni felst skilgreining á lóð fyrir spennistöð innan skipulagsins.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Flóahrepps að samþykkja viðkomandi breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins en umsækjandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu.
Grímsnes- og Grafningshreppur
 10.   Minna-Mosfell L168262; Skógrækt; Framkvæmdarleyfi – 2307044
Lögð er fram umsókn frá IceWild ehf. er varðar framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt í landi Minna-Mosfells eftir grenndarkynningu. Um er að ræða alls 91,5 ha svæði, flatarmál gróðursetningar tekur til 62 ha. Athugasemdir og umsagnir bárust á grenndarkynningartíma og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt samantekt andsvara.
Að mati skipulagsnefndar er nauðsynlegt að leggja fram ítarlegri rökstuðning fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis vegna skógræktar á grundvelli umsagna sem bárust frá Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Minjastofnun Íslands. Innan umsagna Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar kemur m.a. fram að stór hluti svæðisins falli undir vistgerðir sem hafa hátt og mjög hátt verndargildi og njóta verndar samkvæmt Bernarsamningnum í samræmi við vistgerðarkort NÍ. Jafnframt er bent á að stórfelld skógrækt, geta verið skaðlegar fyrir líffræðilega fjölbreytni, sérstaklega ef notaðar eru framandi tegundir sem reynast ágengar, líkt og getur verið tilfellið með stafafuru hérlendis. Skipulagsnefnd bendir þó á að nákvæmni vistgerðarkorts er gróf og mælist nefndin til þess að fyrrgreindar mat Umhverfisstofnunar verði skoðaðar nánar að hálfu umsækjanda. Innan umsagnar Minjastofnunar Íslands er farið fram á að skógræktarsvæðið verði skráð m.t.t. fornleifa. Á grundvelli framlagðra umsagna mælist nefndin til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að afgreiðslu framkvæmdaleyfis verði frestað.
11.   Skagamýri 10 (L230105); byggingarheimild; þrjú gestahús – 2402034
Móttekin er umsókn, þ. 26.01.2024, um byggingarheimild fyrir þremur 35 m2 gistihúsum á landinu Skagamýri 10 L230105 í Grímsnes-og Grafningshreppi. Ekki er tiltekið um heimildir fyrir uppbyggingu gestahúsa innan gildandi deiliskipulags svæðisins.
Samkvæmt aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps er umrætt svæði skilgreint sem L3, landbúnaðarland með rúmum byggingarheimildum. Skilmálar deiliskipulags svæðisins eru ekki í samræmi við stefnumörkun aðalskipulags og þyrfti að mati skipulagsnefndar að vinna breytingu á skipulagi til samræmingar við stefnumörkun aðalskipulags. Samkvæmt aðalskipulagi er gert ráð fyrir að meginlandnýting svæðisins verði áfram landbúnaður sem atvinnustarfsemi og/eða áhugabúskapur. Að mati nefndarinnar felst í því að meginstarfsemi sé til staðar í því formi sem ætlast er til innan lóðanna m.a. með uppbyggingu á íbúðarhúsi til fastrar búsetu á svæðinu. Að mati skipulagsnefndar er uppbygging 3ja gistihúsa á lóðinni ekki í takt við meginnotkun svæðisins á meðan ekkert annað hefur verið byggt á lóðinni. Nefndin mælist til þess að umsókn um byggingarheimild verði synjað.
12.    Nesjavellir L170925; Nesjavallavirkjun; Deiliskipulag – 2310056
Lögð er fram tillaga sem tekur til heildarendurskoðunar á deiliskipulagi Nesjavallavirkjunar í Grímsnes- og Grafningshreppi. Endurskoðunin er m.a. til komin vegna væntanlegrar fjölgunar á borholum og staðarvali fyrir niðurdælingu þar sem í gildandi deiliskipulagi er takmarkað svigrúm fyrir frekari viðhaldsboranir. Í tengslum við þessar breytingar er afmörkun skipulagssvæðisins endurskoðuð í samræmi við breytta afmörkun iðnaðarsvæðis og hverfisverndar í aðalskipulagi. Þá verða færð inn í deiliskipulagið þau mannvirki og lagnir sem byggð hafa verið á síðustu 10 árum ásamt þeim breytingum sem gerðar hafa verið á tímabilinu.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að deiliskipulagið verði samþykkt og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins.
13. Klausturhólar gjallnámur L168965; Efnistaka Seyðishólum, náma E24; Framkvæmdarleyfi – 2302043
Framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr námu E24, Seyðishólum sem samþykkt var í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps þann 29.6.2023 var fellt úr gildi með úrskurði Úrskurðarnefndar Umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 98/2023. Á grundvelli þess úrskurðar er málið lagt fram að nýju til afgreiðslu. Lögð er fram uppfærð greinargerð framkvæmdaleyfis þar sem framkvæmdin er m.a. rökstudd með ítarlegri hætti en áður. Fyrirhugað er að taka 500.000 m3 af efni úr námunni á næstu 15 árum eða um 33.000 m3 á ári. Stærð námusvæðisins er 3,5 ha í dag og er áætlað að raskað svæði verði við áframhaldandi efnistöku í heild 4,4 ha. Með umsókninni er lagt fram álit Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum ásamt umhverfismatsskýrslu. Gert er ráð fyrir að leyfið gildi til 31. desember 2039.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að ekki verði gerð athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi og laga um umhverfismat framkvæmda- og áætlana nr. 111/2021. Leyfið verði gefið út með gildistíma til 31. desember 2039. Að mati skipulagsnefndar koma allar helstu forsendur fyrir útgáfu leyfisins fram innan framlagðrar greinargerðar framkvæmdaleyfisins. Lagður er fram ítarlegri rökstuðningu fyrir útgáfu rekstrarleyfis vegna efnistöku innan greinargerðar framkvæmdaleyfis þar sem eftirfarandi atriði koma m.a. fram:
Um þegar raskað svæði er að ræða. Líkt og kemur fram í umhverfismatsskýrslu og áliti Skipulagsstofnunar er svæðið þegar raskað af fyrri efnistöku. Það réttlætir þó ekki sjálfkrafa áframhaldandi rask en vegur óneitanlega þungt að mati sveitarfélags um ákvörðun fyrir áframhaldandi efnistöku. Ljóst er að afla verður jarðefna fyrir framkvæmdir í sveitarfélaginu og er það mat sveitarfélagsins að umhverfisáhrif séu minni ef nýtt er náma sem nú þegar er opin og allir innviðir til staðar. Efnisþörfin hverfur ekki þó viðkomandi námuvinnslu væri hætt og myndi ásókn í aðrar námur aukast, eða þá að opna þyrfti nýjar námur með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Um er að ræða sérstakt efni í samfélaginu. Rauðleita jarðefnið sem fæst úr Seyðishólum og hefur verið notað í stóran hluta malar- og sumarbúastaðavega á svæðinu er fyrir löngu orðið einkennandi fyrir svæðið og hluti af ímynd þess og sögu. Vilji er hjá sveitarfélaginu að halda í þetta einkenni. Áframhaldandi nýting sé skynsamleg út frá kolefnisspori. Mikil uppbygging í Grímsnesi kallar á mikla notkun jarðefna og er flutningur á efninu veigamikill þáttur í kolefnisspori framkvæmda. Það minnkar því kolefnissporið umtalsvert að hafa aðgang að opinni námu í nærumhverfinu. Álag á vegi og umferð er jafnframt minna sem og slit á ökutækjum, allt þetta stuðlar að minni umhverfisáhrifum heldur en ef sækja þyrfti efni um langan veg. Engin önnur náma af sambærilegri stærð er nær stóru sumarbústaðabyggðunum í Grímsnesi meðfram Soginu og Hvítá. Áframhaldandi nýting sé skynsamleg út frá lægri byggingarkostnaður. Jarðefni er nauðsynlegur þáttur í innviða- og mannvirkjagerð og flutningskostnaður hefur mikil áhrif á kostnaðarlið jarðefna í framkvæmdum. Að hafa aðgang að opinni námu í nærumhverfinu minnkar byggingarkostnað og eykur hagkvæmni uppbyggingar í sveitarfélaginu. Áframhaldandi rekstur efnistökusvæðisins hefur áhrif á atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu. Efnistakan í Seyðishólum er af þeirri stærðargráðu að hún hefur teljandi áhrif á atvinnulíf í sveitarfélaginu og stöðvun hennar myndi skilja eftir sig skarð sem eftir væri tekið.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess að útgáfa leyfisins verði grenndarkynnt í 1 km radíus umhverfis efnistökusvæðið.
14. Hraunkot; Hraunborgir; Frístundasvæði; Endurskoðað deiliskipulag – 2205021
Lögð er fram uppfærð tillaga deiliskipulags frá Sjómannadagsráði er varðar deiliskipulag frístundasvæðis í Hraunkoti eftir auglýsingu. Málið var kynnt sem breyting á deiliskipulagi. Eftir kynningu var tekin ákvörðun um að leggja fram tillögu sem tekur til heildarendurskoðunar á deiliskipulagi svæðisins. Við gildistöku nýs deiliskipulags fellur núverandi skipulag svæðisins úr gildi. Í breytingunni felst meðal annars fjölgun lóða. Stærðum aðalhúss og geymslu- og gestahúsa er breytt og þau stækkuð. Skipulagssvæðin eru tvö í dag, A og B, en verða sameinuð í eitt skipulagssvæði. Þjónustuhús og golfvöllur svæðisins hafa verið tekin inn í skipulagið eftir auglýsingu.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að deiliskipulagið verði samþykkt og að það verði auglýst að nýju á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem töluverðar breytingar hafa verið unnar á gögnum málsins frá fyrri auglýsingu.
15.   Borgarhólsbraut 7 L169737; Heimreið; Framkvæmdarleyfi – 2402068
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi sem tekur til beiðni um gerð innkeyrslu inn á lóð Borgarhólsbrautar 7.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes -og Grafningshrepps að útgáfa framkvæmdaleyfis verði samþykkt á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og verði grenndarkynnt lóðarhöfum Borgarhólsbrautar 5 og 9.
Hrunamannahreppur
16.   Svanabyggð 23 L166893; Stækkun lóðar; Deiliskipulagsbreyting – 2402065
Lögð er fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi lóðar Svanbyggðar 23 L166893. Í breytingunni felst stækkun lóðar og byggingarreits.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Hrunamannahrepps að samþykkja framlagða breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi og verði grenndarkynnt lóðarhöfum Sléttuvegar 2 og 3 og Svanabyggðar 24, 25 og 8 auk þess sem málið verði kynnt sumarhúsafélagi svæðisins sé það til staðar.
17.   Hverabakki 2 L166774; Stækkun gróðurhúss; Fyrirspurn – 2402043
Lögð er fram fyrirspurn vegna hugsanlegrar stækkunar gróðurhúss á landi Hverabakka 2 L166774.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við framlagða fyrirspurn. Að mati nefndarinnar væri æskilegt að unnið væri deiliskipulag sem tekur til uppbyggingar á viðkomandi lóð.
Öll sveitarfélög
18.   Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 24-199 – 2402003F
Lögð er fram fundargerð fundar byggingarfulltrúa nr. 24-199 til kynningar.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:35