Auglýsing um framkvæmdaleyfi Brúarvirkjunar

Framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkti á fundi sínum þann 1. febrúar sl. umsókn HS Orku, dags. 17. janúar 2018, um framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun. Um er að ræða allt að 9,9 MW vatnsaflsvirkjun í efri hluta Tungufljóts í Biskupstungum, nánar tiltekið á svæðinu frá frístundabyggð ofan þjóðvegar austan við Geysi í Haukadal og upp að landamörkum Brúar og Hóla. Ráðgerð efnistaka nemur alls um 215.000 m3 og haugsetning er áætluð um 150.000 m3. Leyfið er veitt með vísan í 13. og 14. grein skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 6. og 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

Umrædd framkvæmd er matsskyld samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og er fyrirliggjandi álit Skipulagsstofnunar varðandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, dags. 20. september 2016, ásamt matsskýrslu framkvæmdaraðila, dags. 16. júní 2016. Framkvæmdin er að mati sveitarstjórnar í samræmi við aðalskipulag Biskupstungnahrepps 2000-2012 og deiliskipulag Brúarvirkjunar í Tungufljóti og álit Skipulagsstofnunar.

Niðurstaða álits Skipulagsstofnunar er eftirfarandi:

„Í samræmi við 11. gr. laga og 24. gr.reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hefur Skipulagsstofnun farið yfir matsskýrslu HS Orku sem lögð var fram samkvæmt 10. gr. sömu laga. Skipulagsstofnun telur að matsskýrsla HS Orku uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hvað varðar þau atriði sem getið er í 20. grein reglugerðar nr. 660/2015. Skipulagsstofnun telur að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar felist í breyttri ásýnd fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis og landslagi þess miðað við núverandi aðstæður. Svæðið er að mestu leyti ósnortið og einkennist að Tungufljóti og vel grónum bökkum þess enda um lindá að ræða en slíkar ár eru ekki algengar á Íslandi og sjaldgæfar á heimsvísu. Að framkvæmdum loknum mun svæðið einkennast að misumfangsmiklum mannvirkjum og verulega skertu rennsli í Tungufljóti á um þriggja km löngum kafla. Fyrirhugað framkvæmdasvæði er þó í nokkurri fjarlægð frá fjölförnum vegum og ferðamannastöðum og neikvæð sjónræn áhrif verða mest frá frístundabyggð í nágrenninu auk þess sem sjónræn áhrif á þá ferðamenn sem leggja leið sína upp með Tungufljóti frá núverandi þjóðvegi munu verða mjög neikvæð. Í ljósi þess sem er rakið hér að framan er það mat Skipulagsstofnunar að áhrif á ásýnd og landslag fyrirhugaðra framkvæmda verða talsvert neikvæð.

Fyrirhugað framkvæmdasvæði einkennist af gróskumiklu votlendi og skóglendi sem nýtur sérstakrar verndar skv. lögum um náttúruvernd og sem forðast skal að raska nema brýna nauðsyn beri til en nær allt framkvæmdassvæðið er mjög vel gróið. Áhrif á gróður verða því staðbundið talsvert neikvæð. Skipulagsstofnun telur mikilvægt að ráðist verði í fyrirhugaða endurheimt votlendis og birkikjarrs og telur að setja verði eftirfarandi skilyrði:

1. framkvæmdaleyfi þarf að koma fram á hvaða svæðum eigi að ráðast í endurheimt votlendis og birkikjarrs í samráði við Umhverfisstofnun, Skógræktina, sveitarfélag og landeigendur.

Fyrir liggur það álit í gögnum málsins að samkvæmt niðurstöðum fuglarannsókna muni fyrirhugaðar framkvæmdir ekki koma til með að hafa mikil neikvæð áhrif á fugla. Stofnunin setur fyrirvara við þessa niðurstöðu þar sem ljóst er að ekki fóru fram fuglarannsóknir í lónstæðinu en þar er líklegt að sé auðugt fuglalíf og meðal annars hugsanlegt að þar finnist straumandavarp samkvæmt framlögðum gögnum. Skipulagsstofnun bendir á að straumönd er tegund á válista auk þess að vera ábyrgðartegund þar sem Ísland er eina landið í Evrópu sem tegundin verpir. Stofnunin telur því ljóst að óvissa er um áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á fugla og þá einkum á straumendur þar sem rannsóknir hafa ekki farið fram á lónstæðinu. Í ljósi ofangreinds þarf að setja eftirfarandi skilyrði:

2. Í framkvæmdaleyfi þarf að koma fram að rannsakað verði hvort straumönd verpi í eða við lónstæði fyrirhugaðrar Brúarvirkjunar og svæði sem fer undir stíflumannvirki. Rannsóknin þarf að fara fram áður en framkvæmdir hefjast við stíflu eða lónstæðið. Ef rannsóknin staðfestir varp á svæðinu þarf, með vísan til 74. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013, að bera það undir Náttúrufræðistofnun Íslands hvort nauðsynlegt sé að vakta afdrif straumandar að loknum framkvæmdum

Áhrif á aðra umhverfisþætti s.s. landnotkun, hljóðstig og ónæði, jarðmyndanir og vatnalíf verða minni, eða nokkuð neikvæð til óveruleg. Ekki á að vera hætta á að fornleifum verði raskað að því gefnu að farið verði eftir tilmælum Minjastofnunar Íslands“

Vakin er athygli á því að ákvörðun sveitarstjórn um veitingu framkvæmdaleyfis er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála, Skúlagötu 21, 101 Reykjavík, sbr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Kærufrestur er einn mánuður frá birtingu þessarar auglýsingar um leyfið, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

 

Gögn framkvæmdaleyfis

Framkvæmdaleyfisumsókn

Greinargerð með framkvæmdaleyfisumsókn

Álit Skipulagsstofnunar

 

Framkvæmdaleyfi

Greinargerð með framkvæmdaleyfi

 

 

Pétur Ingi Haraldsson

Skipulagsfulltrúi

petur@utu.is