Auglýsing sem birtist 2. október 2014

Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynnt niðurstaða sveitarstjórna vegna eftirfarandi óverulegra breyting á aðalskipulagi:

1.     Breyting á Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 við Ljósafosslaug. Íbúðarsvæði í stað svæðis fyrir þjónustustofnanir.

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti á fundi 7. maí 2014 tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins á svæði sem nær til lóðar Ljósafosslaugar og felst í að landnotkun lóðarinnar breytist í íbúðarsvæði.

2.     Breyting á Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 á spildu úr landi Ormsstaða. Íbúðarsvæði í stað svæðis fyrir frístundabyggð.

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti á fundi 20. ágúst 2014 tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins á spildu úr landi Ormsstaða. Breytingin nær til tvegggja núverandi frístundahúsalóða við Vaðholt og felst í að landnotkun breytist í landbúnaðarsvæði þar sem fyrirhugað er að stofna nýtt lögbýli.

3.     Breyting á Aðalskipulagi Gaulverjabæjarhrepps 2003-2012, Flóahreppi, á spildu úr landi Ragnheiðarstaða. Landbúnaðarsvæði í stað svæðis fyrir frístundabyggð.

Sveitarstjórn Flóahrepps samþykkti á fundi 3. september 2014 tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins á spildu úr landi Ragnheiðarstaða sem felst í að svæði fyrir frístundabyggð merkt F9 og F10, sunnan Villingaholtsvegar, sem ná inn á spilduna breytast í landbúnaðarsvæði. Samtals minnka svæði fyrir frístundabyggð um 19 ha.

Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynntar tillögur að lýsingu eftirfarandi aðalskipulagsverkefna: 

4.     Breyting á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012, Bláskógabyggð, innan þéttbýlisins Reykholt. Nýr vegur að íbúðarsvæði austan grunnskóla (land Eflingar).

Lögð fram til kynningar skipulagslýsing vegna breytingar á aðalskipulagi innan Reykholts sem felst í að gert er ráð fyrir nýrri aðkomu að íbúðarsvæði (svæði Eflingar) upp á holtinu austan við grunnskólann. Fyrirhugað er að leggja nýjan um 220 m langan veg frá Kistuholti sunnan Aratungu, framhjá skólastjórabústað og þaðan upp á holtið.

5.     Breyting á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012, Bláskógabyggð vegna Reykjavegar. Breyting á legu og efnistökusvæði.

Lögð fram til kynningar skipulagslýsing vegna breytingar á aðalskipulagi í tengslum við endurbætur á Reykjavegi. Í gildandi aðalskipulagi var gert ráð fyrir færslu á legu vegarins miðað við núverandi legu, á svæði frá aflegglara að Tjörn og að Biskupstungnabraut. Nú hefur verið hætt við þá færslu og að gert ráð fyrir að hann verði endurbættur í núverandi legu nema að beygju við aðkomuvegi að Tjörn og Syðri-Reykjum verða lagfærðar. Auk breytinga á legu vegarins er bætt við námu í landi Efri-Reykja sem fyrirhugað er að nýta við endurbæturnar.

6.     Breyting á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012, Bláskógabyggð. Norðurtún, efnistökusvæði í landi Syðri-Reykja við Brúará.

Lögð fram til kynningar skipulagslýsing vegna breytingar á aðalskipulagi í tengslum við efnistökusvæði í landi Syðri-Reykja (í Norðurtúni) rétt við Brúará. Samkvæmt lýsingunni er námusvæðið 49.560 fm að flatarmáli og gert ráð fyrir að þar megi taka allt að 149.000 m3 af efni á 15 árum.

 

Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynnt tillaga að eftirfarandi breytingu á aðalskipulagi: 

7.     Breyting á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 í sameignarlandi Úthlíðar, Stekkholts og Hrauntúns í Bláskógabyggð. Nýtt efnistökusvæði við Höfðaflatir.

Breytingin felur í sér að gert er ráð fyrir nýju efnistökusvæði í sameignarlandi Úthlíðar, Stekkholts og Hrauntúns sunnan Högnhöfða, í jaðri Úthliðarhrauns. Svæðið hefur þegar verið raskað að hluta í tengslum við efnistöku til eigin nota innan jarðarinnar en nú er gert ráð fyrir að heimilt verði að taka allt 30 þúsund rúmmetra efnis. Gerð er breyting á hálendisuppdrætti aðalskipulagsins og greinargerð.

Samkvæmt 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér kynntar lýsingar fyrir eftirfarandi deiliskipulagsverkefni: 

8.     Deilskipulag fyrir Geysissvæðið í Haukadal, Bláskógabyggð. Hverasvæði og nánasta umhverfi auk mögulegrar færslu á þjóðvegi.

Lögð fram til kynningar lýsing skipulagsverkefnis fyrir deiliskipulag Geysissvæðisins sem byggir á vinningstillögu í „Hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun Geyssisvæðisins í Haukadal“ sem haldin var 2013-2014. Megin svæði deiliskipulagsins verður hverasvæðið í kringum Geysi en áhrifasvæði tillögunnar mun þó ná yfir stærra svæðis og m.a. verður skoðað möguleikann á færslu þjóðvegar.

9.     Deilskipulag fyrir Ragnheiðarstaði 2 lnr. 222006 í Flóahreppi. Nýtt lögbýli

Lögð fram til kynningar lýsing skipulagsverkefnis fyrir deiliskipulag nýs lögbýlis á landi úr jörðinni Ragnheiðarstaðir í Flóahreppi. Svæðið er í heild 193,7 ha og er 77,7 ha norðan Villingaholtsvegar og 116 ha sunnan vegarins. Gert er ráð fyrir byggingu íbúðarhúss, vélageymslu, hesthúss og annarra landbúnaðarbygginga.

Samkvæmt 1. mgr.  31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynntar eftirfarandi breytingar á aðalskipulagi:

10.  Breyting á Aðalskipulagi Laugardalshrepps 2000-2012 í landi Austureyjar 1. Svæði fyrir verslun- og þjónustu í stað íbúðarsvæðis.

Í breytingunni felst að íbúðarsvæði í landi Austureyjar breytist í svæði fyrir verslun- og þjónustu. Í gildandi deiliskipulagi svæðisins eru afmarkaðar 4 íbúðarhúsalóðir á svæðinu þar sem byggja má allt að 400 fm íbúðarhús. Gert er ráð fyrir að í stað íbúðarhúsalóða verði á svæðinu ein lóð fyrir allt að 1.600 fm gistihús/hótel. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi svæðisins er auglýst samhliða.

11.  Breyting á Aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2004-2016. Stækkun Búrfellsvirkjunar.

Í breytingunni felst að gert er ráð fyrir stækkun Búrfellsvirkjunar um allt að 140 MW með nýju stöðvarhúsi í Sámstaðaklifi ásamt tilheyrandi framkvæmdum. Fyrirhugað virkjanasvæði er að mestu leyti milli Búrfells og Sámstaðamúla og hefur því þegar verið raskað að stærstum hluta í tengslum við fyrri framkvæmdir við Búrfellsvirkjun. Afmarkað er nýtt iðnaðarsvæði, merk Í1a, sem er innan svæðis sem í dag er skilgreint sem svæði blandaðrar landnotkunar iðnaðarsvæðis- og opins svæðis til sérstakra nota, merkt Í1. Þá er gert ráð fyrir tveimur nýjum efnistökusvæðum, E8 sem er grjótnáma á iðnaðarsvæði í Sámstaðamúla og E9 sem er náma við ísakot.

12.  Breyting á Aðalskipulagi Laugardalshrepps 2000-2012 í landi Lækjarhvamms. Smávirkjun.

Í breytingunni felst að gert er ráð fyrir allt að 480 kW rennslisvirkjun í Heiðará og Þverá í landi Lækjarhvamms. Stífla í Heiðará verður í 115 m.y.s., 50 m breið og 4 m há og lónið um 0,2 ha að stærð. Stífla í Þverá verður í 114 m.y.s., 100 m breið og 5 m há og lónið um 0,5 ha. Frá stíflu við Þverá verður 950 m aðveitulögn að stöðvarhúsi við Grafará. Tillaga að deiliskipulagi er auglýst samhliða.

 

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér kynntar tillögur að eftirfarandi deiliskipulagsáætlunum: 

13.  Deiliskipulag fyrir frístundabyggðina Lambhagi úr landi Ölfusvatns við Þingvallavatn,  Grímsnes- og Grafningshreppi.

Skipulagið nær til svæðis úr landi Ölfusvatns sem kallast Lambhagi. Innan svæðisins eru sex 6,4 ha frístundahúsalóðir auk þriggja minni lóða þar sem reist hafa verið bátaskýli. Á fjórum af 6 frístundahúsalóðum hafa verið reist hús en tvær eru óbyggðar. Samkvæmt skilmálum verður heimilt að reisa allt að 200 fm frístundahús á hverri lóð auk aukahúss sem má vera allt að 40 fm.

14.  Deiliskipulag 7 íbúðarhúsalóða úr landi Króks í Ásahreppi. Svæði sem kallast Miðmundarholt. Endurauglýsing.

Auglýst að nýju tillaga að deiliskipulagi 7 íbúðarhúsalóða úr landi Króks lnr. 165302, svæði sem kallast Miðundarholt. Skipulagssvæðið er um 7 ha að stærð liggur vestan Króksvegar nr. 2930. Á svæðinu er í gildi deiliskipulag frá 1994 með fimm frístundahúsalóðum og einni einbýlishúsalóð og fellur það úr gildi við gildistöku nýs deiliskipulags

15.  Breyting á deiliskipulagi frístundabyggðarinnar Vaðholt úr landi Ormsstaða. Frístundalóðir breytast í lögbýli.

Í breytingunni felst að lóðirnar Vaðholt 2 og 2a eru sameinaðar í eina 36.900 fm spildu auk þess sem landinu verði breytt í lögbýli þar sem reisa má allt að 300 fm íbúðarhús og allt að 400 fm útihús. Er breytingin í samræmi við breytingu á aðalskipulagi sem sveitarstjórn samþykkti 20. ágúst 2014.

16.  Breyting á deiliskipulagi frístundabyggðarinnar Illagil í landi Nesja í Grímsnes- og Grafningshreppi. Skilmálabreyting.

Samkvæmt gildandi byggingarskilmálum frístundabyggðar við Illagil má byggja allt að 150 fm frístundahús og 25 fm geymslu á hverri lóð, með þakhalla á bilinu 14-45 og hámarks vegghæð upp á 3 metra. Í breytingunni felst að byggingarmagn lóða miðist við hámarksnýtingarhlutfall upp á 0.03 (3% atarmáli lóðar), þar af megi aukahús vera allt að 40 fm og að vegghæð geti verið allt að 3,8 m.

17.  Deiliskipulag smávirkjunar í landi Lækjarhvamms í Bláskógabyggð. (uppdr. 1) (uppdr. 2)

Í deiliskipulaginu felst að gert er ráð fyrir 480 kW smávirkjun í með virkjun Heiðarár og Þverár syðst í landi Lækjarhvamms. Gerð verður 50 m breið og 4 m há stífla í Heiðará og 100 m breiða og 5 m há stífla í Þverá. Til verða tvö lón sem verða 0,2 ha og 0,5 ha að stærð. Þá er gert ráð fyrir allt að 50 fm stöðvarhúsi við Grafará rétt við aðkomuvegi að frístundabyggð í landi Lækjarhvamms.

18.  Breyting á deiliskipulagi Austureyjar I og III í Bláskógabyggð. Lóð fyrir hótel/gistihús í stað íbúðarlóða.

Í breytingunni felst að á svæði þar sem í gildandi skipulagi er gert ráð fyrir fjórum íbúðarhúsalóðum fyrir allt að 400 fm íbúðarhús verði í staðinn gert ráð fyrir einni 13.424 fm verslunar- og þjónustulóð þar sem heimilt verður að byggja allt að 1.600 fm gistihús. Þá er einnig gert ráð fyrir að hluti Hálshúsvegar og Austurvegar verði breytt í göngustíg. Breytingin er í samræmi við breytingu á aðalskipulagi sem auglýst er samhliða.

 

Ofangreindar skipulagstillögur liggja frammi til kynningar á skrifstofu skipulagsfulltrúa, Dalbraut 12, Laugarvatni á skrifstofutíma frá 9-16. Að auki er hægt að nálgast nánari lýsingu á tillögunum og  tillögurnar sjálfar á vefslóðinnihttp://www.granni.is/uppsveitirogfloahr/auglysingar.htm.

Skipulagstillögur nr. 4 – 9 eru í kynningu frá 2. til 23. október 2014 en tillögur nr. 10 – 18 frá 2. október til 14. nóvember 2014. Athugasemdir og ábendingar við tillögur nr. 4 – 9 þurfa að berast skipulagsfulltrúa í síðasta lagi 23. október 2014 en 14. nóvember fyrir tillögur nr. 10 – 18.  Athugasemdir og ábendingar skulu vera skriflegar.

 

Pétur Ingi Haraldsson

Skipulagsfulltrúi

petur@sudurland.is