Skipulagsnefndarfundur nr. 274 – 14. febrúar 2024

 

Fundargerð skipulagsnefndar UTU fundur skipulagsnefndar UTU haldinn að Laugarvatni miðvikudaginn 14. febrúar 2023 og hófst hann kl. 8:30

Fundinn sátu:

Helgi Kjartansson, Björn Kristinn Pálmarsson, Jón Bjarnason, Walter Fannar Kristjánsson, Haraldur Þór Jónsson, Ísleifur Jónasson, Vigfús Þór Hróbjartsson skipulagsfulltrúi, Davíð Sigurðsson byggingarfulltrúi og Elísabet D. Erlingsdóttir aðstoðarmaður skipulagsfulltrúa.

 

Fundargerð ritaði:  Vigfús Þór Hróbjartsson, skipulagsfulltrúi

Dagskrá: 

  Bláskógabyggð
 1.   Heiðarbær lóð L170192; Bátaskýli; Fyrirspurn – 2402008
Lögð er fram fyrirspurn er varðar uppbyggingu á bátaskýli á lóð Heiðarbæjar lóð L170192.
Að mati skipulagsnefndar er ekkert innan heimilda skipulagsreglugerðar sem leyfir uppbyggingu á bátaskýlum nær vatni en 50 metra sbr. gr. 5.3.2.14. Í fyrirspurn er vísað til stefnumörkunar Skorradalshrepps er varðar bátaskýli og aðra bátaaðstöðu við Skorradalsvatn. Í þeim gögnum kemur eftirfarandi fram er varðar breytingu á aðalskipulagi: „Á grundvelli úttektar um bátaskýli er lagt til að uppbygging bátaskýla eigi sér stað innan skilgreindrar frístundabyggðar og að lágmarki 50 m frá grónum bakka Skorradalsvatns sbr. gr. 5.3.2.14 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, annað hvort stök innan frístundalóða þar sem það er leyft skv. deiliskipulagi eða á sérstökum bátaskýlasvæðum“ Sú stefnumörkun er í raun sú sama og Bláskógabyggð hefur sett sér gagnvart bátaskýlum innan sumarhúsasvæða þótt svo að ekki sé fjallað sérstaklega um slíkt eða afmörkuð stefna um uppbyggingu bátaskýla innan aðalskipulags Bláskógabyggðar. Hingað til hefur í afgreiðslum skipulagsnefndar og sveitarstjórnar verið vísað til heimilda skipulagsreglugerðar er varðar uppbyggingu í 50 metra fjarlægð frá ám og vötnum sama hvort um stakar framkvæmdir utan skipulags er að ræða eða vegna stefnumörkunar innan deiliskipulagsáætlana. Þá hefur verið heimilt að halda slíkum byggingum við gegn því að viðbyggingar fari ekki nær ám og vötnum en fyrir er. Í einhverjum tilfellum hefur landeigendum og lóðarhöfum verið bent á þann möguleika að leita undanþágu frá kröfum skipulagsreglugerðar á grundvelli heimilda 45. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 lið 12 þar sem segir: „Þegar sérstaklega stendur á getur ráðherra að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og hlutaðeigandi sveitarstjórnar veitt undanþágu frá einstökum greinum skipulagsreglugerðar.“
2.   Skógarholt; Frístundabyggð í landi Reykjavalla; Endurskoðun deiliskipulags – 2309101
Lögð er fram eftir auglýsingu tillaga er varðar heildarendurskoðun deiliskipulags frístundabyggðarinnar Skógarholts í landi Reykjavalla. Við gildistöku deiliskipulagsins er gert ráð fyrir því að eldri tillaga m.s.br. falli úr gildi. Skipulagið tekur til 37 frístundalóða. Götur og veitur hafa þegar verið lagðar og frístundahús hafa risið á flestum lóðum innan skipulagssvæðisins. Umsagnir og athugasemdir bárust á auglýsingartíma skipulagsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt samantekt viðbragða og andsvara.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að samþykkja framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Nefndin telur að brugðist hafi verið við umsögnum sem bárust vegna málsins með fullnægjandi hætti innan framlagðra gagna og innan samantektar umsagna og andsvara sem bárust vegna málsins. Nefndin mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
3.   Lyngbraut 2, Reykholti; Breyting á deiliskipulagi; Fyrirspurn – 2402025
Lögð er fram beiðni um óverulega breytingu á deiliskipulagi sem tekur til lóðar Lyngbrautar 2 L167172. Í fyrirspurninni felst að lóðin sem er í dag skilgreind sem landbúnaðarland verði skilgreind sem lóð fyrir verslun- og þjónustu. Heimilt verði að byggja gróðurhús, íbúðarhús, verslunar- og skrifstofuhúsnæði ásamt iðnaðarhúsæði á 1-3 hæðum.
Að mati skipulagsnefndar telst viðkomandi breyting ekki til óverulegrar breytingar á deiliskipulagi. Breytt landnotkun lóðarinnar er háð breytingu á skilgreindri landnotkun svæðisins í aðalskipulagi Bláskógabyggðar. Svæðið er í dag skilgreint sem landbúnaðarsvæði inn á þéttbýlisuppdrætti fyrir Reykholt í aðalskipulagi og sem L2 lóð á deiliskipulagi þar sem heimild er fyrir íbúðarhúsi á 1-2 hæðum, bílskúr, starfsmannahúsi, skemmu og gróðurhúsi. Eins og fram kemur í framlagðri fyrirspurn að þá er aðliggjandi lóð til suðvesturs skilgreind sem verslunar- og þjónustusvæði og ætti því breytt landnotknun í samræmi við fyrirspurn að falla ágætlega að núverandi landnotkun á svæðinu að mati skipulagsnefndar. Nefndin mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að ekki verði gerðar athugasemdir við að unnin verði breyting á aðalskipulagi og deiliskipulagi sem gerir ráð fyrir breyttri landnotkun svæðisins í verslunar- og þjónustusvæði.
Flóahreppur:
 4.   Þingdalur land L203007; Þingsæti; Breytt heiti lóðar – 2310062
Lögð fram, að nýju, beiðni um breytt staðfang landeignarinnar Þingdalur land L203007. Óskað er eftir að landið fái heitið Þingsæti.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Flóahrepps að samþykkja breytt staðfang landeignar í samræmi við umsókn.
5.   Efri-Sýrlækur L166327; Breytt afmörkun og stofnun 5 lóða – 2402015
Lögð er fram umsókn um landskipti sem taka til jarðarinnar Efri-Sýrlæk L166327 í Flóahreppi. Í umsókninni felst að jörðinni er skipt í 6 hluta. Fyrir skipti er stærð jarðarinnar 207,5 ha. Efri-Sýrlækur upprunalandið, L166327 verður hólminn út í ánni, svokölluð Sýrlækjarbót og verður 41,8 ha eftir breytingu.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess að afgreiðslu málsins verði frestað. Skipulagsfulltrúa falið að yfirfara tillöguna m.a. m.t.t. heimilda aðalskipulags er varðar landskipti á landi í flokki I og II. Auk þess bendir nefndin á að skipting sumarhúsalóða er í ósamræmi við gildandi deiliskipulag þeirra.
6.   Vestur-Meðalholt L165513; Íbúðarbyggð; Deiliskipulag – 2311079
Lögð er fram, eftir kynningu, tillaga deiliskipulags sem tekur til nýs íbúðarsvæðis landi Vestur-Meðalholts í Flóahreppi. Skipulagssvæðið er staðsett suðaustan við Selfoss, milli Gaulverjabæjarvegar og íbúðarbyggðar í Rima, og er um 20 ha að stærð. Aðkoma er um nýja vegtengingu frá Önundarholtsvegi. Á skipulagssvæðinu eru afmarkaðar 17 lóðir. Stærð lóða er frá 7.499 m2 til 21.938 m2 og er nýtingarhlutfall lóða skilgreind að hámarki 0,05. Byggingarreitir innan skipulagsins eru merktir B1-B2-B3 og gilda mismunandi heimildir innan þeirra. Innan lóða er almennt heimilt að byggja íbúðarhús, bílskúr og gestahús auk þess sem heimildir eru fyrir skemmu og gripahúsi. Athugasemd og umsagnir bárust á kynningartíma málsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Flóahrepps að deiliskipulagið verði samþykkt og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulagsbreytingar sem auglýst verður samhliða.
7.   Vestur-Meðalholt L165513; Ný íbúðarbyggð í dreifbýli; Aðalskipulagsbreyting – 2302029
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar er varðar Vestur-Meðalholt í Flóahreppi eftir kynningu. Í breytingunni felst breytt skilgreining landbúnaðarlands í íbúðarbyggð. Alls er um allt að 20 hektara svæði að ræða fyrir allt að 20 íbúðarlóðir. Lóðirnar geta hver um sig verið 1 til 3 ha og gert verður ráð fyrir rúmum byggingarheimildum. Innan lóða er gert ráð fyrir heimildum til garðræktar, skógræktar, kolefnisbindingar, takmarkaðs búfjárhalds eða minni háttar atvinnustarfsemi, þ.e.a.s. vinnustofur, gallerý eða gisting í samræmi við ákvæði aðalskipulags.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Flóahrepps að framlögð tillaga að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna Vestur-Meðalholts verði samþykkt í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Mælist nefndin til þess að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 31 sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar. Nýtt deiliskipulag fyrir svæðið verði auglýst samhliða.
8.   Hjálmholt lóð L211050; Hjálmholtsnáma í Merkurhrauni; Deiliskipulag – 2402021
Lögð er fram tillaga nýs deiliskipulags sem tekur til efnistökusvæðis E6. Tillagan tekur til Hjálmholtsnámu sem er staðsett í Merkurhrauni á lóð úr landi Hjálmholts (L211050) við Skeiða- og Hrunamannaveg, um tvo km ofan þjóðvegar 1. Efni hefur verið unnið í Hjálmholtsnámu frá því um 1980 og er núverandi stærð námunnar um 12 ha. Efni úr námunni er aðallega nýtt í húsgrunna og vegaframkvæmdir á Suðurlandsundirlendinu. Til stendur að vinna allt að 150.000 m3 á allt að 25 ha svæði í samræmi við gildandi aðalskipulag Flóahrepps.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Flóahrepps að deiliskipulagið verði samþykkt og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins.
  9.   Hraungerði L166237; Þinghús; Skilgreining lóðar og byggingarheimilda; Deiliskipulag – 2308032
Lögð er fram tillaga nýs deiliskipulags sem tekur til landskika úr landi Hraungerðis L166237 eftir auglýsingu. Deiliskipulag þetta tekur til nýrrar lóðar sem stofnuð verður úr jörðinni. Nýja lóðin kemur til með að bera heitið Þinghús eftir gamalli þinghúsatóft sem er innan skipulagssvæðisins. Á svæðinu verður heimild til að byggja íbúðarhús, gestahús, bílskúr og/eða skemmu eða önnur útihús. Núverandi metangasstöð sem staðsett er í Hraungerði verður flutt vestur yfir Oddgeirshólaveg og verður starfrækt innan nýrrar lóðar Þinghúsa. Umsagnir og athugasemdir bárust við auglýsingu tillögunnar og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt viðbrögðum og andsvörum.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Flóahrepps að samþykkja framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Nefndin telur að brugðist hafi verið við umsögnum sem bárust vegna málsins með fullnægjandi hætti innan gagnanna. Nefndin mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Walter Fannar vék af fundi við afgreiðslu málsins.
10.   Brennuhóll (L235139); byggingarheimild; geymsla – 2401068
Móttekin er umsókn þ. 29.01.2024 um byggingarheimild fyrir 37,6 m2 geymslu á sumarbústaðalandinu Brennuhóll L235139 í Flóahreppi.
Skipulagsnefnd UTU bendir á að samkvæmt kröfum 5.3.2.5. gr. skipulagsreglugerðar í lið d skal ekki utan þéttbýlis staðsetja íbúðar- eða frístundahús nær stofn- og tengivegum en 100 m og ekki nær öðrum þjóðvegum eða almennum vegum en 50 m eins og þeir eru skilgreindir í aðalskipulagi. Aðrar byggingar skal ekki staðsetja nær stofn- og tengivegum og öðrum þjóðvegum og almennum vegum en 50 m eins og þeir eru skilgreindir í aðalskipulagi. Heimilt er að víkja frá þessum ákvæðum þegar um er að ræða verslunar- og þjónustubyggingar. Að mati nefndarinnar telst umsótt bygging til annarra bygginga í skilgreiningu reglugerðarinnar en þó ekki til verslunar- og þjónustubygginga og ætti því að vera staðsett í það minnsta í 50 metra fjarlægð frá skilgreindum héraðsvegi. Nefndin bendir þó á að fyrir liggur undanþága vegna fjarlægðar frá Arnarhólsvegi vegna tveggja íbúðarlóða í landi Syðri-Gegnishóla þar sem byggingarreitir eru skilgreindir í 30 metra fjarlægð frá vegi. Auk þess eru öll hús að Syðri-Gegnishólum töluvert nær vegi nú þegar. Að mati nefndarinnar er eðlilegt að horfa til þess við útgáfu byggingarheimildar vegna umsóttrar geymslu að nú þegar hefur verið veitt heimild fyrir uppbyggingu nær vegi fyrir íbúðarhús á grundvelli undanþágu innviðaráðuneytisins frá 1. september 2022. Mælist nefndin til þess að á þeim grunni verði veitt byggingarheimild með fyrirvara um að húsið verði staðsett a.m.k. í 30 metra fjarlægð frá vegi.
11.   Bitra land L200842; Landbúnaðarlóðir; Hótel og smáhýsi; Deiliskipulag – 2307047
Fyrir liggur tillaga nýs deiliskipulags sem tekur til svæðis Bitru lands L200842. Í deiliskipulaginu felst skilgreining á fjórum landbúnaðarlóðum og fjórum verslunar- og þjónustulóðum. Á landbúnaðarlóðunum er gert ráð fyrir heimild fyrir íbúðarhúsi og aukahúsi s.s. gestahúsi, gróðurhúsi, hesthúsi og/eða geymslu/skemmu. Á verslunar- og þjónustulóðunum er gerð ráð fyrir heimild fyrir allt að 100 herbergja hóteli með gistirými fyrir allt að 200 gesti. Enn fremur er gert ráð fyrir um 30 smáhýsaeiningum að 70 fm þar sem geti gist allt að 120 gestir. Nýtingarhlutfall lóða á svæðinu má ekki fara umfram 0,05. Samhliða er unnið að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins þar sem svæðið er skilgreint sem landbúnaðarsvæði og verslunar- og þjónustusvæði.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Flóahrepps að deiliskipulagið verði samþykkt og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan breytingar á aðalskipulagi sem samþykkt er til auglýsingar samhliða.
12.   Bitra land L200842; Breytt landnotkun; Aðalskipulagsbreyting – 2302064
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til Bitru lands L200842 í Flóahreppi eftir kynningu. Alls er um að ræða um 43 ha land sem nú er skilgreint sem landbúnaðarsvæði og um 21 ha lands frístundabyggð (F21). Í breytingunni felst að 30 ha af svæðinu verði skilgreindir sem landbúnaðarsvæði og um 13 ha verslunar- og þjónustusvæði. Markmiðið er að fjölga íbúum sveitarfélagsins og þar með nýta betur þá þjónustu og innviði sem fyrir eru s.s. vegakerfi og veitur. Einnig að koma til móts við vaxandi eftirspurn þeirra sem vilja búa í dreifbýli á stórum lóðum með möguleika á aðstöðu fyrir t.d. hesta, trjárækt o.þ.h. Þá sé markmiðið með verslunar- og þjónustulóðum að auka kosti í þjónustu og ferðaþjónustu í sveitarfélaginu. Á staðnum verði miðað að því að þar verði hægt að taka á móti stærri hópum í einu en skortur sé á slíkri aðstöðu í sveitarfélaginu. Samhliða er lagt fram deiliskipulag sem tekur til svæðisins.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Flóahrepps að framlögð tillaga að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna Bitru lands L200842 verði samþykkt í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Mælist nefndin til þess að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 31 sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar.
Grímsnes- og Grafningsvegur:
 13.   Neðan-Sogsvegar 4 L169505; Vegalagning; Framkvæmdarleyfi – 2402017
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi sem tekur til lagningu vegar að lóð Neðan-Sogsvegar 4. Aðkoman er skilgreind á milli um Neðan-Sogsvegar 4a og Neðan-Sogsvegar 2.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að útgáfa framkvæmdaleyfis verði samþykkt á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Framkvæmdin verði grenndarkynnt aðliggjandi lóðarhöfum Neðan-Sogsvegar 2 og 4A, mælist nefndin til þess að framkvæmdin verði unnin í nánu samráði við eigendur framangreindra lóða þar sem vegurinn liggur á mörkum þessara tveggja lóða.
14.   Kiðjaberg lóð 107 L201721; Stækkun lóðar; Deliskipulagsbreyting – 2402007
Lögð er fram umsókn um óverulega breytingu á deiliskipulagi sem tekur til lóðar Kiðjabergs lóð 107. Í breytingunni felst m.a. að lóðin stækkar úr 9.100 fm í 14.100 fm.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að samþykkja framlagða breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi og verði grenndarkynnt aðliggjandi lóðarhöfum 105, 106 og 108. Mælist nefndin til þess að málið verði jafnframt sent sumarhúsafélagi svæðisins til kynningar þar sem sameiginlegt leiksvæði hverfisins er fært með breytingunni.
15.   Öndverðarnes 2 lóð L170121; Selvíkurvegur 12 og 13; Skilmálar og skipting lóðar; Deiliskipulag – 2310041
Lögð er fram, eftir auglýsingu, tillaga nýs deiliskipulags sem tekur til Öndverðarness 2 lóðar L170121. Lóðin er staðsett á frístundasvæðinu F30 í Öndverðarnesi. Í deiliskipulaginu felst m.a. skilgreining byggingarheimilda fyrir frístundahús, aukahús og geymslu. Einnig er gert ráð fyrir að heimilt verði að skipta lóðinni upp í tvær lóðir, Selvíkurveg 12 og 13. Athugasemdir og umsagnir bárust á kynningartíma skipulagsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt samantekt viðbragða og andsvara.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að samþykkja framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu með fyrirvara um lagfærð gögn þar sem núverandi hús innan lóðanna verði staðsett á uppdrætti. Nefndin telur að brugðist hafi verið við umsögnum og athugasemdum sem bárust vegna málsins með fullnægjandi hætti innan skipulagsgagna og framlagðrar samantektar athugasemda, umsagnar og viðbragða. Nefndin mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Hrunamannahreppur:
 16.   Ás L166710; Náttúrulaugin Hrunalaug; Deiliskipulag – 2303064
Lögð er fram, eftir auglýsingu, tillaga nýs deiliskipulags sem tekur til Hrunalaugar. Í skipulaginu felst m.a. að skilgreindir eru tveir byggingarreitir innan svæðisins, byggingarreit A og B. Á byggingarreit A er heimilt er að byggja tvö þjónustu- og salernishús. Stærð hvorra húsa má vera allt að 150 m2 og hámarks mænishæð 3 m frá gólfplötu. Á byggingarreit B er gert ráð fyrir skiptiaðstöðu fyrir laugina að hámarki 50 m2. Umsagnir bárust á kynningartíma skipulagsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Hrunamannahrepps að samþykkja framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Nefndin telur að brugðist hafi verið við umsögnum sem bárust vegna málsins með fullnægjandi hætti innan gagnanna og með framlögðu sameiginlegu bréfi landeigenda vegna skiptingar á hlunnindum jarðanna. Nefndin mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Skeiða- og Gnúpverjahreppur:
 17.   Brautarholt (L166445); byggingarleyfi; sundlaug – viðbygging – 2402004
Móttekin er umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum og 434,4 m2 viðbyggingu við mhl 09 sundlaug á viðskipta- og þjónustulóðinni Brautarholt L166445 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Heildarstærð eftir stækkun verður 806 m2.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa. Málið verði grenndarkynnt lóðarhöfum aðliggjandi lóða að Holtabraut 14-20.
 18.    Hagi 2 L166551; Náma og aðkoma; Aðalskipulagsbreyting – 2306043
Lögð er fram, eftir auglýsingu, tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til skilgreiningar á námusvæði í landi Haga 2 L166551. Með breytingunni verður sett inn 1,5 ha efnistökusvæði þar sem heimilt er að vinna allt að 45 þús. m3 af efni. Markmið með breytingunni er að heimila meiri efnistöku en getur fallið undir að vera til eigin nota og er því skilgreint sem efnistökusvæði.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að samþykkja breytingu á aðalskipulagi eftir auglýsingu. Engar athugasemdir bárust á auglýsingatíma skipulagsbreytingarinnar. Nefndin mælist til þess við sveitarstjórn að óskað verði eftir því við Skipulagsstofnun að aðalskipulagsbreytingin taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
19.   Búrfells- og Skeljafellsland L223324; Þjóðveldisbær 1 og 2; Stofnun lóða – 2402022
Lögð er fram umsókn um stofnun tveggja landeigna úr þjóðlendunni Búrfells og Skeljafellsland L223324. Um er að ræða annars vegar 10.000 fm landeign, Þjóðveldisbær 1, undir núverandi sýningarsal og kirkju og hins vegar 10.000 fm landeign, Þjóðveldisbær 2, sem er áætluð fyrir starfsemi og rekstur Þjóðveldisbæjarins.
Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við stofnun lóðanna skv. fyrirliggjandi umsókn. Skipulagsnefnd mælist til að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykki erindið.
 

20.  

Öll sveitarfélög:

Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 24-198 – 2402001F

Lögð er fram fundargerð byggingarfulltrúa nr. 24-198.

 

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:00