Skipulagsnefndar fundur nr. 276 – 13. mars 2024

Fundargerð skipulagsnefndar UTU fundur skipulagsnefndar UTU haldinn að Laugarvatni miðvikudaginn 13. mars 2023 og hófst hann kl. 9:00

Fundinn sátu:

Helgi Kjartansson, Björn Kristinn Pálmarsson, Jón Bjarnason, Walter Fannar Kristjánsson, Haraldur Þór Jónsson, Ísleifur Jónasson, Vigfús Þór Hróbjartsson skipulagsfulltrúi, Davíð Sigurðsson byggingarfulltrúi og Elísabet D. Erlingsdóttir aðstoðarmaður skipulagsfulltrúa.

 

Fundargerð ritaði:  Vigfús Þór Hróbjartsson, skipulagsfulltrúi

Dagskrá: 

  Ásahreppur:
 1.   Ásmundarstaðir 3 (L217812); byggingarheimild; hesthús – 2403034
Móttekin er umsókn 03.03.2024 um byggingarheimild fyrir 154,1 m2 hesthúsi í landi Ásmundarstaða 3 L217812 í Ásahreppi.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við hreppsnefnd Ásahrepps að málið fái málsmeðferð á grundvelli 3. mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010 vegna útgáfu framkvæmda- eða byggingarleyfis þar sem segir að sveitarstjórn sé heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.
2.   Ásmúlasel L224543; Verslunar- og þjónustusvæði; Fyrirspurn – 2403035
Lögð er fram fyrirspurn til skipulagsnefndar er varðar heimild fyrir gerð skipulagslýsingar vegna breytingar á aðalskipulagi Ásahrepps. Í breytingunni felst að landbúnaðarlandi yrði breytt í verslunar- og þjónustusvæði þar sem gert væri ráð fyrir uppbyggingu á gistiþjónustu.
Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemdir við framlagða fyrirspurn og mælist til þess við hreppsnefnd Ásahrepps að unnin verði skipulags- og matslýsing sem tekur til verkefnsins þar sem ítarlegar verði gert grein fyrir umfangi verkefninu. Nefndin vísar málinu til frekari umræðu og afgreiðslu í hreppsnefnd. Nefndin bendir hreppsnefnd á að samkvæmt framlagðri kynningu verkefnisins eru um verulega umfangsmikla uppbyggingu að ræða þar sem horfa þarf til ýmissa mismunandi þátta við endanlega ákvörðun um hvort unnin verði tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til málsins. Við vinnslu skipulags- og matslýsingar mælist nefndin til þess að sérstaklega verði horft til grenndaráhrifa vegna uppbyggingar og aukinnar umferðar, samfélagslegra áhrifa og hugsanlegra umhverfisáhrifa. Mælist nefndin jafnframt til þess við hreppsnefnd Ásahrepps að mörkuð verði stefna um samráð og kynningu skipulagsáætlunar gagnvart íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum.
Bláskógabyggð:
3.   Dalbraut 10-12 Laugarvatni; Breytt lóðarmörk og byggingarreitir; Deiliskipulagsbreyting; – 2403022
Lögð er fram tillaga deiliskipulagsbreytingar er varðar lóðirnar Dalbraut 10 og 12 á Laugarvatni. Í breytingunni felst breytt lega lóða og byggingarreita, skilgreiningar á bílastæðum og nýrri útakstursleið niður Torfholt. Samhliða er heimildum er varðar hæðarfjölda á Dalbraut 12 breytt í 2h og kjallara til samræmis við hús á lóð 10.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að samþykkja framlagða breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi og verði grenndarkynnt eigendum Torfholts 2, 4, 6 og 8 og Lindarbraut 10.
4.   Útey 2 L167648; Mýrarskógur og Eyjavegur; Breyttir landnotkunarflokkar; Aðalskipulagsbreyting – 2212016
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar á aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027 er varðar Útey 2, eftir kynningu. Breytingin nær til þess hluta af frístundasvæði F21 sem er innan Úteyjar 2 L167648 auk nýrra svæða austan Laugarvatnsvegar. Reitur F21 nær yfir nokkrar jarðir en í breytingu þessari er aðeins lagt til að breyta þeirri landnotkun sem er innan Úteyjar 2 og í henni felst tilfærsla á frístundasvæði í landbúnaðarsvæði og öfugt.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að framlögð tillaga að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna Úteyjar 2 verði samþykkt í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Mælist nefndin til þess að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 31 sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar.
5.   Stórafljót lóð (Sólbraut 4) 176483, Reykholti; Fyrirspurn; Breyting vegna heimilda til útleigu – 2403019
Lögð er fram fyrirspurn er varðar breytingu á deiliskipulagi er varðar Sólbraut 4, Reykholti. Í fyrirspurninni felst að óskað er eftir breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar þar sem heimilt verði að stunda rekstrarleyfisskylda starfsemi á lóðum skilgreindum sem L3 enda slíkt í samræmi við fyrirliggjandi aðalskipulag. Ljóst er að ekki eru margar lóðir skilgreindar sem L3 og ljóst að slíkt myndi ekki brjóta gegn þeirri þróun að heimila ekki rekstrarleyfisskyldu á íbúðarhúsalóðum.
Innan deiliskipulags að Reykholti er sett fram ákveðin stefnumörkun um uppbygging á atvinnustarfsemi innan þorpsins á íbúðarsvæðum og er þeim heimildum skipt eftir gerð, staðsetningu og stærð lóða. Í stefnumörkum um uppbyggingu á E2 lóð er tilgreint sérstaklega að á hverri lóð sem er stærri en 3.500 fm sé heimilt að stunda rekstrarleyfisskylda gistingu fyrir allt að 10 manns. Settir eru upp ýmsir fyrirvarar fyrir slíkum rekstri. Þessar heimildir eiga ekki við aðrar skilgreiningar vegna íbúðarlóða. Landbúnaðarlóðum er skipt upp í 3 mismunandi flokka eftir stærð og umfangi heimilda, er þar L1 eini flokkurinn þar sem gert er ráð fyrir sambærilegri heimild og á E2 auk þess sem heimildir eru tilgreindar fyrir starfsmannahúsum, skemmum og gróðurhúsum. Af skilgreindum stærðum lóða má sjá að meðalstærð L3 lóða er í kringum 2.200 fm en meðalstærð L1 lóða er í kringum 10.200 fm. Að mati skipulagsnefndar er því ljóst að stefnumörkun deiliskipulags var ætlað að beina slíkum rekstri inn á skilgreindar verslunar- og þjónustulóðir og stærri íbúðar- og/eða landbúnaðarlóðir. Að mati skipulagsnefndar er nauðsynlegt að skilgreina með einhverjum hætti takmarkanir á heimildum til rekstrarleyfisskyldrar útleigu íbúðarhúsa innan þéttbýlis óháð því hvort lóðin er skilgreind sem íbúðar- eða landbúnaðarlóð, eins og gert er nú þegar í deiliskipulagi fyrir Reykholt. Að mati nefndarinnar myndi breyting á heimildum L3 þar sem heimiluð væri rekstrarleyfisskyld útleiga skapa fordæmi fyrir rekstri á mun fleiri lóðum innan þéttbýlisins í Reykholti með ófyrirséðum afleiðingum fyrir eðlilega þróun íbúðarbyggðar og fasteignaverðs á svæðinu. Mælist skipulagsnefnd því til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að framlagðri fyrirspurn verði synjað.
6.   Efsti-Dalur 3 L228717; Efnistaka úr námu; Gámur; Framkvæmdarleyfi – 2402058
Lögð er fram beiðni um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr skilgreindu efnistökusvæði E41 í landi Efsta-Dals 3 Völlur L228717. Efnistakan er fyrirhuguð til þess að gera veg frá þjóðvegi og inn á landið, skv. samþykktum uppdráttum. Heildarefnistaka verði um 30.000 m3. Samhliða er óskað heimildar til þess að setja tvo gáma á svæðið til þess að nýta sem kaffi- og verkfærageymsluaðstöðu meðan á vegagerð og hugsanlegum borunarframkvæmdum fyrir heitu vatni stendur. Sótt verður sérstaklega um framkvæmdaleyfi fyrir borun eftir heitu vatni.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að útgáfa framkvæmdaleyfis verði samþykkt á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um grenndarkynningu til landeigenda L167631 og L199008 og að leitað verði umsagnar skógræktarinnar vegna efnistöku innan skilgreinds hverfisverndarsvæðis sem tekur til birkikjarrs og birkiskógar. Ekki eru gerðar athugasemdir við að í tengslum við framkvæmdina verði komið upp aðstöðu í tveimur gámum innan svæðisins. Nefndin vísar því til umsækjanda að samhliða verði sótt um stöðuleyfi hjá byggingarfulltrúa vegna viðkomandi gáma, stöðuleyfi er gefið út til árs í senn.
7.   Laugarvatn L167638; Krikinn 2 L236093; Tenging lóðar, færsla vatnsrásar; Framkvæmdarleyfi – 2403030
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi vegna tengingar lóðarinnar Krikinn 2 L236093 við Lindarskóg og færslu á vatnsrás sem liggur um lóðina út fyrir lóðarmörk á svæði meðfram Lindarskógi, svo sem sýnt er á lóðarblaði.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að ekki verði gerð athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins sem framkvæmdin tekur til en umsækjandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu.
8.   Laugarás L167138; Uppsetning 250 PE hreinsistöðvar; Framkvæmdarleyfi – 2403029
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi sem tekur til uppsetningar á 250 PE hreinsistöðvar fráveitu í Laugarási fyrir Vesturbyggð, Holtagötu, Skyrklettagötu og Skálholtsveg 1. Staðsett við reit 9a innan deiliskipulags að Laugarási.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að útgáfa framkvæmdaleyfis verði samþykkt á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og heimilda gildandi deiliskipulags svæðisins.
9.   Brautarhóll L190000; Uppsetning á 900 PE hreinsistöð; Framkvæmdarleyfi – 2403028
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi sem tekur til uppsetningar á 900 PE hreinsistöð í Reykholti á lóð við enda Tungurima í takt við deiliskipulag svæðisins.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að útgáfa framkvæmdaleyfis verði samþykkt á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og heimilda gildandi deiliskipulags svæðisins.
10.  Brautarhóll L190000; Borgarrimi 16 og 18-22; Gatnagerð; Framkvæmdarleyfi – 2403026
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi er varðar gatnagerð við Borgarrima 16 og 18 – 22.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að útgáfa framkvæmdaleyfis verði samþykkt á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og heimilda gildandi deiliskipulags svæðisins.
11.   Lindarbraut, Reykjabraut og Bjarkarbraut; Endurnýjun fráveitu; Framkvæmdarleyfi – 2403025
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi sem tekur til endurnýjun fráveitu í Reykjabraut og Lindarbraut, að Lindarbraut 6 (grunnskóli) og hús við Bjarkarbraut að bílastæðum Fontana.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að útgáfa framkvæmdaleyfis verði samþykkt á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og heimilda gildandi deiliskipulags svæðisins.
Flóahreppur:
12.   Flóahreppur og Árborg; Selfosslína 1; Breytt lega loftlínu SE1; Aðalskipulagsbreyting – 2311074
Lögð er fram tillaga að breyttu aðalskipulagi Flóahrepps er varðar breytta legu raflínu innan aðalskipulags Flóahrepps og Árborgar. Landsnet ráðgerir að Selfosslína 1 (66 kV) verði tekin niður á kaflanum frá núverandi tengivirki á Selfossi að mastri nr. 99 sem er norðan við Hellisskóg, norðan Ölfusár. Í staðinn verði lagður 132 kV jarðstrengur. Nýr jarðstrengur mun í megindráttum liggja um Larsenstræti og fylgja nýrri legu Suðurlandsvegar norðaustan við Selfoss og fara um nýja brú yfir Ölfusá, fylgir þaðan Ölfusá til norðurs. Áætluð lengd jarðstrengs frá tengivirki á Selfossi að mastri nr. 99 er um 3 km. Framkvæmdinni verður áfangaskipt. Í fyrsta áfanga verður línan tekin niður frá tengivirki að mastri nr. 114. Síðari áfangar byggja á tilkomu nýrrar brúar yfir Ölfusá en línan verður hengd í brúna. Núverandi háspennulína og fyrirhugaður jarðstrengur liggja um Sveitarfélagið Árborg og Flóahrepp. Breytingin tekur því til dreifbýlis í Flóahreppi þar sem gert er ráð fyrir því að línan verði sett í jörð auk þess sem gerð er breyting á aðalskipulagi Árborgar sem nær til þéttbýlis á Selfossi og dreifbýlis beggja vegna Ölfusár, norðan og austan við Selfoss. Samhliða eru sveitarfélagsmörk innan aðalskipulags Flóahrepps leiðrétt í takt við skilgreind mörk sveitarfélaganna innan aðalskipulags Árborgar. Að öðru leyti en því sem hér er greint frá gilda skilmálar gildandi aðalskipulags. Framkvæmdin er tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar sem ákvarðar um matsskyldu, sbr. tl. 13.02 í viðauka 1 í lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Samhliða aðalskipulagsbreytingu verður unnin matstilkynning og send til Skipulagsstofnunar.
Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við framlögð gögn og samþykkir að tillagan verði kynnt í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan verður kynnt með auglýsingu sem birtist þann 14.3.24.
Grímsnes- og Grafningshreppur:
13.   Álftavatn 19 L218004 og Álftavík L169078; Sameining lóða; Fyrirspurn – 2401066
Lögð er fram fyrirspurn sem tekur til breyttrar skráningar lóðar Álftavatns 19 L218004 og Álftavík L169078. Í fyrirspurninni felst hvort athugasemd verði gerð við sameiningu lóðanna.
Skipulagsnefnd UTU bendir á að landnotkun viðkomandi lóða sem fyrirspurnin tekur til er mismunandi samkv. gildandi deiliskipulagi svæðisins. Nefndin bendir þó að að við heildar endurskoðun aðalskipulags hefur láðst að gæta að því að landnotkun viðkomandi lóða 17 og 17a væri í takt við stefnumörkun gildandi deiliskipulags og aðalskipulagsbreytingu sem unnin var samhliða þeirri breytingu. Mælist nefndin til þess að unnin verði óverulega breyting á aðalskipulagi þar sem landnotkun lóðanna verði leiðrétt innan aðalskipulags í takt við heimildir deiliskipulags. Almennt er óheimilt að skipta upp eða sameina frístundalóðir í þegar byggðum frístundahverfum, nema í tengslum við heildarendurskoðun eða gerð nýs deiliskipulags samkvæmt almennum skilmálum aðalskipulags um frístundasvæði. Að mati nefndarinnar er því ekki forsenda fyrir sameiningu lóðanna.
14.   Hestvíkurvegur 18 (L170895); byggingarheimild; sumarbústaður – viðbygging – 2402035
Móttekin er umsókn þ. 11.12.2023 um byggingarheimild fyrir 69,4 m2 viðbyggingu við sumarbústað á sumarbústaðalandinu Hestvíkurvegur 18 L170895 í Grímsnes- og Grafningshreppi. Heildarstærð á sumarbústað eftir stækkun verður 147,2 m2.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Málið verði grenndarkynnt lóðarhöfum Hestvíkurvegar 14, 16 og 20 auk Nesja lóð 4. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.
15.   Öndverðarnes 2 lóð L170117; Selvíkurvegur 1; Breytt heiti lóðar – 2401014
Lögð er fram umsókn um breytt staðfang lóðar Öndverðarness 2 lóð L170117. Eftir breytingu fái lóðin staðfangið Selvíkurvegur 3. Samhliða verði unnið að endurskoðun staðfanga aðliggjandi lóða innan svæðisins.
Skipulagsnefnd mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að ekki verði gerðar athugasemdir við endurskoðað staðfang lóðarinnar og að sambærilegar breytingar verði gerðar á staðvísum og staðföngum lóða á svæðinu við sömu götu.
Hrunamannahreppur:
16.   Sunnuhlíð spilda (Sunnuhlíðartangi) L211195; Sunnuhlíð spilda (Sunnuhlíðartangi) 2; Stofnun lóðar – 2402056
Lögð er fram umsókn um stofnun lóðar úr landi Sunnuhlíðar spilda L211195. Stærð landsins er 19.192,2 fm. Síðar er gert ráð fyrir að lóðin sameinist landi Efra-Sels golfvöllur L203094. Jafnframt er óskað eftir að staðfang L211195 breytist úr Sunnuhlíð spilda í Sunnuhlíðartangi.
Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við stofnun lóðarinnar skv. fyrirliggjandi umsókn. Ekki er gerð athugasemd við staðfangið Sunnuhlíðartangi. Skipulagsnefnd mælist til að sveitarstjórn Hrunamannahrepps samþykki erindið.
17.   Kópsvatn 2 166793; Fyrirspurn; Stækkun á efnistökusvæði E28 – 2403020
Lögð er fram fyrirspurn er varðar breytta skilgreiningu á námu E28 innan aðalskipulags Hrunamannahrepps. Í breytingunni fælist að afmörkun og efnismagn efnistökusvæðisins myndi aukast úr 50.000 m3 í u.þ.b. 150.000 m3 auk þess sem hugmyndir eru uppi um jarðvegtipp á svæðinu.
Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við framlagða fyrirspurn. Mælist nefndin til þess við sveitarstjórn Hrunamannahrepps að unnin verði skipulags- og matslýsing fyrir verkefnið. Nefndin bendir á að efnistaka umfram 50.000 m3 telst tilkynningarskyld samkvæmt 1. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda- og áætlana. Málinu vísað til umræðu og afgreiðslu innan sveitarstjórnar Hrunamannahrepps.
18.   Langholtskot L166796; Landbúnaðarland í frístundabyggð; Aðalskipulagsbreyting – 2403008
Lögð er fram umsókn um breytingu á aðalskipulagi Hrunamannahrepps. Með umsókninni er lögð fram skipulagslýsing sem tekur til breytingar á aðalskipulagi og nýs deiliskipulags. Tillagan tekur til um 24 ha spildu innan jarðar Langholtskots L166796. Fyrirhuguð breyting á aðalskipulagi felur í sér breytingu á landnotkunarflokki svæðisins úr landbúnaðarlandi yfir í frístundabyggð. Samkvæmt skipulagslýsingu hefur landeigandi uppi áform um að útbúa lóðir fyrir allt að 15-20 frístundahús. Yrði þetta gert í 2-3 áföngum. Aðkoma yrði um núverandi veg að námu frá þjóðvegi 341, Langholtsvegi.
Samkvæmt stefnumörkun aðalskipulags eru byggingar, samfelld skógrækt o.fl. sem hamlar ræktunarmöguleikum er að jafnaði ekki heimil á góðu landbúnaðarlandi (flokki I og II) eða verndarsvæðum, en getur eftir atvikum verið í jaðri svæðanna eða þar sem sýnt er fram á að flokkun lands er önnur en gengið er út frá í aðalskipulagi. Svæðið sem breytingin tekur til er í jaðri úrvals landbúnaðarlands og á landi í flokki IV m.v. kort sem tekur til flokkunar landbúnaðarlands. Að mati skipulagsnefndar telst svæðið uppfylla þau skilyrði sem sett eru fram í stefnumörkun aðalskipulags. Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Hrunamannahrepps að samþykkja skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nánar verði gert ráð fyrir svæðinu í tillögu aðalskipulagsbreytingar og hvernig skilyrði aðalskipulags er varðar flokkun landbúnaðarlands eru uppfyllt. Að mati skipulagsnefndar getur komið til þess að umsögn ráðunautar vegna ræktunarhæfni landsins þurfi að liggja fyrir við ákvörðun sveitarstjórnar um breytta landnotkun svæðisins.
Skeiða- og Gnúpverjahreppur:
19.   Skeiða- og Gnúpverjahreppur; Áhrifasvæði Búrfellslundar og nýtt afþreyingar og ferðamannasvæði; Aðlskipulagsbreyting – 2403001
Sett er fram skipulagslýsing fyrir breytingu á Aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029. Með breytingunni verður mörkuð stefna um áhrifasvæði fyrirhugaðs Búrfellslundar innan Skeiða- og Gnúpverjahrepps og sett inn nýtt afþreyingar- og ferðamannasvæði austan við Sultartangastöð og skammt vestan Þjórsár. Sveitarfélagið metur stefnu gildandi aðalskipulags þannig að hún komi ekki í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif innan sveitarfélagsins sem verða vegna framkvæmda eða landnotkunar í nágrannasveitarfélögum. Því sé þörf á breyttri stefnu. Stefna vegna áhrifasvæðis Búfellslundar verður á þá leið að öll neikvæð umhverfisáhrif sem kunna að verða vegna fyrirhugaðs Búrfellslundar og geta skert möguleika til landnýtingar innan Skeiða- og Gnúpverjahrepps eru óheimil innan marka sveitarfélagsins. Til dæmis á þetta við um skuggavarp frá vindmyllum, ískast vegna ísingar á spöðum, skerðingu á víðernum, sýnileika og ásýnd vindmylla ásamt hljóðvist. Á afþreyingar- og ferðamannasvæði verður heimilt að vera með skálasvæði, áningarstað, gistingu og veitingar í tengslum við útivist. Gert er ráð fyrir að starfsemi verði rekin allt árið. Stærð svæðis er um 2 ha. Gerð verður breyting á stefnu í greinargerð og sett inn nýtt afþreyingar- og ferðamannasvæði á sveitarfélagsuppdrætti fyrir afrétt.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að samþykkja framlagða skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Öll sveitarfélög:
20.   Stefnumótun vegna nýtingarhlutfall frístundalóða innan aðildarfélaga UTU – 2403024
Lagt er fram til umræðu innan skipulagsnefndar UTU hugleiðingar skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa er varðar stefnumörkun er varðar nýtingarhlutfall frístundalóða innan aðildarsveitarfélaga UTU.
Lagt fram til umræðu.
21.   Stefnumótun vegna skógræktar innan aðildarsveitarfélaga UTU – 2403023
Lagt er fram til umræðu innan skipulagsnefndar UTU hugleiðingar skipulagsfulltrúa er varðar stefnumörkun um skógrækt innan aðildarsveitarfélaga UTU.
Lagt fram til umræðu.
22.   Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 24-200 – 2402005F
Lögð er fram til kynningar fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 24-200

 

 

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:35