Skipulagsnefnd fundur nr. 92 – 25. júní 2015

 

 

Skipulagsnefnd – 92. fundur  

haldinn  Laugarvatn, 25. júní 2015

og hófst hann kl. 09:00

 

 

Fundinn sátu:

Árni Eiríksson, Aðalmaður

Björgvin Skafti Bjarnason, Aðalmaður

Helgi Kjartansson, Aðalmaður

Nanna Jónsdóttir, Aðalmaður

Ingibjörg Harðardóttir, Varamaður

Helgi Kjartansson, byggingarfulltrúi

Pétur Ingi Haraldsson, skipulagsfulltrúi

 

 

Fundargerð ritaði: Pétur Ingi Haraldsson, Skipulagsfulltrúi

 

 

 

Dagskrá:

Ásahreppur

1.   Lagning ljósleiðara: Ásahreppur: Framkvæmdaleyfi – 1506061
Lagt fram erindi Guðmundar Daníelssonar dags. 20. júní 2015, f.h. Ásaljóss, þar sem óskað er eftir framkvæmdaleyfi fyrir lagningu ljósleiðara í Ásahreppi og tengja öll heimili, fyrirtæki og sumarhús sveitarfélagsins. Fyrir liggja umsagnir Vegagerðarinnar og Umhverfisstofnunar.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við að veitt verði framkvæmdaleyfi fyrir lagningu ljósleiðara í samræmi við fyrirliggjandi erindi, með fyrirvara um umsögn Minjastofnunar.
 

2.  

Bláskógabyggð

Bjarkarbraut: Laugarvatn: lokun götu – 1506062

Óskað hefur verið eftir áliti skipulagsnefndar á því hvort að ekki megi fjarlægja núverandi lokun neðst í Bjarkarbraut á Laugarvatni. Ekki er gert ráð fyrir lokun götunnar í gildandi deiliskipulagi.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við að Bjarkarbraut verði opnuð í samræmi við fyrirliggjandi deiliskipulag en mælist til þess að áður verði málið kynnt fyrir eigendum húsa við Bjarkarbraut.
3.   Vatnsleysa 1 land 5: Frístundalóðir: Deiliskipulag – 1504043
Lögð fram að lokinni auglýsingu tillaga að deiliskipulagi fjögurra nýrra um 2,4 ha frístundahúsalóða á spildu (lnr. 217915) úr landi Vatnsleysu í Bláskógabyggð. Innan svæðisins er ein eldri 5.000 fm lóð (lnr. 167619). Skilmálar svæðisins gera ráð fyrir að á lóðunum megi byggja eitt sumarhúsa auk 25 fm aukahuss. Nýtingarhlutfall lóðanna er 0.03. Tillagan var auglýst 13. maí 2015 og er athugasemdafrestur til lok þessa dags, 25. júní. Fyrir liggur umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands dags. 10. júní 2015 en umsögn Minjastofnunar liggur ekki fyrir.
Skipulagsnefnd mælir með að deiliskipulagið verði samþykkt með breytingum til að koma til móts við umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurland, með fyrirvara um umsögn Minjastofnunar Íslands og að engin athugasemd berist. Helgi Kjartansson vék af fundi við afgreiðslu málsins.
4.   Kjósarskarðsvegur (48): Framkvæmdaleyfi – 1506004
Lögð fram að nýju umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi fyrir endurbyggingu Kjósaskarðsvegar. Framkvæmdin fellur undir lið 10.10 í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og er því tilkynningarskyld til sveitarfélagsins (framkvæmd í flokki C).
Að mati skipulagsnefndar munu framkvæmdirnar ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skulu því ekki háðar mati á umhverfisáhrifum framkvæmda. Nefndin mælir með að sveitarstjórn samþykki að gefið verði út framkvæmdaleyfi með fyrirvara um að við gatnamót Kjósaskarðsvegar og Þingvallavegar verði gert ráð fyrir að- og fráreinum auk aðgreiningu á akstursstefnu.
5.   Höfðaflatir: Úthlíð, Stekkholt og Hrauntún: Aðalskipulagsbreyting vegna efnistökusvæðis – 1412009
Aðalskipulagsbreyting vegna námu við Höfðaflatir var samþykkt í sveitarstjórn Bláskógabyggðar 16. apríl og var í kjölfarið send Skipulagsstofnun til afgreiðslu. Skipulagsstofnun taldi að óska þyrfti að nýju umsagnar Umhverfisstofnunar og var það gert. Nú er lögð fram ný umsögn Umhverfisstofnunar dags. 16. júní 2015.
Skipulagsnefnd telur ekki að umsögn Umhverfisstofnunar gefi tilefni til þess að hætt verði við að gera ráð fyrir efnistöku í samræmi við aðalskipulagsbreytinguna. Aftur á móti þarf að gera minniháttar breytingar á greinargerð varðandi umfjöllun um matsskyldu efnistökunnnar þar sem fyrirhuguð efnistaka er tilkynningarskyld samkvæmt breytingum á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þá þarf einnig að koma fram að eingöngu verði veitt framkvæmdaleyfi til tveggja ári í senn og að gengið verði frá námunni jafnóðum og efnistaka fer fram.
6.   Efnistökusvæði á Laugarvatnsvöllum: Laugarvatn: framkvæmdaleyfi – 1506059
Lögð fram umsókn um framkvæmdaleyfi til að starfrækja tvær námur á Laugarvatnsvöllum í landi Laugarvatns. Um er að ræða tvær námur sem báðar fengu umfjöllun í mati á umhverfisáhrifum fyrir Gjábakkaveg en voru ekki notaðar í vegaframkvæmdunum. Önnur náman (merkt L í matsskýrslu) er 11 ha að stærð og efnismagn allt að 240.000 m3 og hin (merkt C) er um 3 ha og efnismagn um 20.000 m3. Gert er grein fyrir báðum námum í gildandi aðalskipulagi. Þá er jafnframt lagður frá tölvupóstur frá Skipulagsstofnun þar sem óskað er upplýsinga um sýnileika námanna frá núverandi vegi og vegslóða að Laugarvatnshelli.
Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu málsins þar til gögnum hefur verið skilað til Skipulagsstofnunar og álit hennar liggur fyrir.
7.   Reykjavegur: Aðalskipulagsbreyting – 1412013
Lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 sem felur í sér lítilsháttar færslu á Reykjavegi auk þess sem gert er ráð fyrir námu í landi Syðri-Reykja (Norðurtúnsnáma) og í landi Efri-Reykja (Byrgistangi). Tillagan var auglýst 13. maí 2015 og rennur frestur til að gera athugasemdir út í dag, 25. júní 2015. Borist hafa nýjar umsagnir frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og Umhverfisstofnun.
Að mati skipulagsnefndar gefa nýjar umsagnir ekki tilefni til þess að hætt verði við samþykkt aðalskipulagsbreytingarinnar. Mælt er með að sveitarstjórn samþykki aðalskipulagsbreytinguna með minniháttar breytingum á greinargerð varðandi leyfisskyldu, þ.e. að skýrara komi fram að öll efnistaka úr námunni þurfi að vera í samræmi við gilt framkvæmdaleyfi. Er þetta með fyrirvara um að ekki komi frekari athugasemdir á kynningartíma. Bent er á að ekki er hægt að gefa út framkvæmdaleyfi fyrr en álit Skipulagsstofnunar við tilkynningarskyldu framkvæmdarinnar liggur fyrir. Þá er einnig bent á að áður hefur verið bókað að ekki megi stækka námuna frá því sem nú er fyrr en gengið hefur verið frá eldra efnistökusvæði.
8.   Hakið: Þingvellir: Aðkoma að þjóðgarði í landi Brúsastaða og Svartagils: Deiliskipulagsbreyting – 1503015
Lögð fram tilllaga að breyting á deiliskipulagi við Hakið á Þingvöllum. Í breytingunni felst stækkun á lóð og byggingarreit fræðslumiðstöðvar á Hakinu vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar. Í gildandi skipulagi var gert ráð fyrir 800 fm viðbyggingu á tveimur hæðum en nú er gert ráð fyrir allt að 900 fm viðbyggingu á einni hæð. Deiliskipulagsbreytingin, ásamt umhverfisskýrslu, var auglýst 13. maí 2015 og er athugasemdafrestur til loka þessa dags 25. júní 2015. Borist hefur umsögn frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands þar sem ekki er gerð athugasemd við breytinguna auk umsagnar Skipulagsstofnunar um umhverfisskýrslu.
Skipulagsnefnd mælir með að sveitarstjórn samþykki ofangreinda deiliskipulagsbreytingu óbreytta, með fyrirvara um að ekki berist athugasemdir á kynningartíma.
9.   Hvannalundur 8: Úrskurður UUA – 1505031
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vegna kæru á veitingu byggingarleyfis fyrir stækkun á sumarhúsi á Hvannalundi 8 í Miðfellshverfi. Fyrirspurn hefur borist frá eigendum Hvannalundar 10 um hver viðbrögð sveitarfélagins séu við úrskurði UUA í málinu.
Málið kynnt og byggingarfulltrúa falið að leita álits lögfræðings embættisins um málið. Afgreiðslu frestað.
10.   Borgarhólsstekkur 1: Umsókn um byggingarleyfi: Gestahús – 1501075
Granni 20140996-5657. Sótt er um endurnýjun á byggingarleyfi fyrir gestahús úr timbri 25,8 ferm. Byggingarleyfi hússins var fellt úr gildi með úrskurði UUA, dags. 19/09/2014. Óskað er eftir því að sveitarfélagið hafi forgöngu um að gesthús það sem byggingarleyfi hefur verið fellt úr gildi verði fjarlægt af lóðinni.
Málið kynnt og byggingarfulltrúa falið að leita álits lögfræðings embættisins um kröfu um að húsið verði fjarlægt. Afgreiðslu frestað.
11.   Kaldadalsvegur: Efnistaka: Framkvæmdaleyfi – 1506060
Lögð fram umsókn Vegagerðarinnar dags. 18. júní 2015 um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr námu merktri E2e í aðalskipulagi Bláskógabyggðar, fyrir Þingvallasveit. Er efnistakan í tengslum við lagningu slitlags á þegar uppbyggðan hluta Kaldadalsvegar. Framkvæmdin fellur undir lið 2.02 í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum.
Afgreiðslu frestað þar til álit Skipulagsstofnunar um framkvæmdina liggur fyrir.
12.   Sandskeið C-Gata 4 170679: Umsókn um byggingarleyfi: Viðbygging við sumarhús – 1502025
Granni 20141074-5688. Sótt er um viðbyggingu við sumarhús 22,9 ferm eftir stækkun 72,9 ferm. og geymslu stök 14 ferm.
Grenndarkynningu er lokið og engar athugasemdir bárust. Í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 17. apríl 2015 í máli nr. 71/2011 varðandi byggingarleyfi viðbyggingar á lóðinni Hvannalundur 8 að þá telur skipulagsnefnd að ekki sé hægt að gefa út byggingarleyfi á lóðum innan fyrrum Þingvallasveitar nema á grundvelli deiliskipulags eða þá að ákvæði aðalskipulags um að deiliskipulag þurfi að vera forsenda byggingarleyfa en ekki grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga verði fellt út. Afgreiðslu málsins er því frestað.
13.   Geldingafell: Stöðuleyfi: Endurnýjun og aukahús – 1506063
Sótt er um endurnýjun stöðuleyfis fyrir vélsleðageymslu 250 ferm og gallageymslu 70 ferm að auki er sótt um stöðuleyfi fyrir 98 ferm húsi sem er ætlað fyrir starfsfólk.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við endurnýjun stöðuleyfis fyrir húsum sem þegar eru á staðnum en ekki er samþykkt að veita stöðuleyfi fyrir nýju húsi.
14.   Geldingafell við Bláfellsháls: Stöðuleyfi: Endurnýjun – 1506064
Sótt er um endurnýjun á stöðuleyfi fyrir gallageymslu og aðstöðu fyrir starfsmenn.
Ekki er gerð athugasemd við endurnýjun stöðuleyfis. Vísað í fyrri afgreiðslu varðandi staðsetningu húss.
15.   Skeiða- og Gnúpverjahreppur

Brjánsstaðir 166456: Umsókn um byggingarleyfi: Einbýlishús og bílgeymsla – 1506054

Sótt er um leyfi til að byggja einbýlishús 108,4 ferm með áfastri bílgeymslu 40,3 úr timbri. Heildarstærð er 148,7 ferm og 500,7 rúmm.
Samþykkt að grenndarkynna umsóknina skv. 44. gr. skipulagslaga þegar afstöðumynd hefur verið lagfærð.
16.   Búrfellsvirkjun: Stöðvarhús í Sámsstaðaklifi: Deiliskipulag – 1502079
Lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir Búrfellsvirkjun í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, ásamt umhverfisskýrslu. Í tillögunni er gert ráð fyrir framkvæmdum við stækkun virkjunarinnar auk þess sem verið er að setja ramma utan um þau mannvirki sem þegar eru til staðar á svæðinu. Lýsing deiliskipulagsins hefur verið send til umsagnaraðila og er í kynningu til 7. ágúst 2015.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi en frestar afgreiðslu þar til umsagnir liggja fyrir.
17.   Búrfellsvirkjun 166701: Umsókn um byggingarleyfi: Eiríksbúð-geymsla – 1506008
Sótt er um leyfi til að byggja geymslu 22,1 ferm og 61,6 rúmm úr timbri
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við umsóknina og telur ekki þörf á grenndarkynningu. Málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.
 

18.  

Flóahreppur

Skálmholt land 193160: Aðalskipulagsbreyting – 1412001

Lögð tillaga að breytingu á aðalskipulagi sem felst í að breyta hluta af svæði fyrir frístundabyggð úr landi Skálmholts, merkt F15, í landbúnaðarsvæði. Um er að ræða 8 ha svæði og er breytingin gerð þar sem fyrirhugað er að stofna lögbýli á spildunni. Tillagan var kynnt skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga með auglýsingu sem birtist 13. maí 2015 og var tillaga að deiliskipulagi svæðisins kynnt samhliða. Engar athugasemdir eða ábendingar hafa borist.
Skipulagsnefnd mælir með að sveitarstjórn samþykki að auglýsa aðalskipulagsbreytinguna skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samhliða tillögu að deiliskipulagi svæðisins. Björgvin Skafti vék af fundi við afgreiðslu málsins.
19.   Urðarlaut 193160: Skálmholt: 8,22 ha lögbýli: Deiliskipulag – 1503023
Lögð fram að nýju tillaga Landforms að deiliskipulagi um 8 ha lögbýlis á spildu úr landi Skálmholts í Flóahreppi sem kallast mun Urðarlaut. Er tillagan í samræmi við tillögu að breytingu aðalskipulags sama svæðis sem er í vinnslu. Svæðið liggur við aðkomuveg að Skálmholtshrauni og samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að þar verði heimilt að reisa allt að 360 fm íbúðarhús og bílageymslu og allt að 600 fm fjölnota skemmu. Á landinu stendur tæplega 37 fm sumarhús og 22 fm gestahús og verður heimilt að stækka þessar byggingar í 170 fm.
Skipulagsnefnd mælir með að sveitarstjórn samþykki að auglýsa deiliskipulagið skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samhliða tillögu að breytingu á aðalskipulagi svæðisins. Björgvin Skafti vék af fundi við afgreiðslu málsins.
20.   Urðarlaut 193160: Umsókn um byggingarleyfi: Nýtt sumarhús – 1506068
Sótt er um að byggja sumarhús úr timbri á einni hæð, stærð 278 ferm.
Nefndin samþykkir að grenndarkynna umsóknina skv. 44. gr. skipulagslaga. Afgreiðslu vísað til byggingarfulltrúa berist ekki athugasemdir.
 

21.  

Grímsnes- og Grafningshreppur

Lambhagi: Ölfusvatn: Deiliskipulag – 1502099

Lagt fram bréf Skipulagsstofnunar dags. 18. júní 2015 varðandi deiliskipulag frístundabyggðarinnar Lambhagi í landi Ölfusvatns. Er m.a. bent á að lóð nr. 9 er utan við svæði sem í aðalskipulagi er skilgreint sem svæði fyrir frístundabyggð auk þess sem fram kemur að byggingarreitur á lóð nr. 8 þurfi að vera í a.m.k. 15 m fjarlægð frá afmörkuðum garði. Þá er lagður fram endurskoðaður uppdráttur þar sem komið hefur verið til móts við athugasemdir Skipulagsstofnunar auk þess sem fyrir liggur ný umsögn Minjastofnunar vegna fyrirhugaðra framkvæmda á lóð nr. 8.
Skipulagsnefnd mælir með að sveitarstjórn samþykki deiliskipulagið með lagfæringum til að koma til móts við athugasemdir Skipulagsstofnunar, þ.á.m. að fella út lóð nr. 9.
22.   Neðra-Apavatn lóð 169317: Umsókn um byggingarleyfi: Fyrirspurn um sumarhús og gestahús – 1506041
Fyrirspurn; um leyfi til að byggja sumarhús 120,3 ferm og gestahús 23,6 ferm úr timbri.
Samþykkt að grenndarkynna umsóknina fyrir aðliggjandi lóðarhöfum. Ef engar athugasemdir berast er málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.
23.   Stóra-Borg 168281: Fyrirspurn um byggingaráform: Ný vélaskemma – 1506051
Lögð fram umsókn um að byggja nýja vélaskemmu í staðinn fyrir núverandi vélaskemmur sem standa samtengt við norðurhlið fjárhúss. Nýtt hús verður samtengt fjárhúsinu.
Nefndin samþykkir að grenndarkynna umsókn um byggingarleyfi þegar hún kemur fram.
 

24.  

Hrunamannahreppur

Reykjaból lóð 13 167011: Umsókn um byggingarleyfi: Sumarhús – 1506020

Sótt er um að byggja sumarhús úr timbri stærð 81,6 ferm og 275,3 rúmm og rífa niður það sem fyrir er, byggt árið 1975 47,4 ferm.
Samþykkt að grenndarkynna umsóknina fyrir aðliggjandi lóðarhöfum. Ef engar athugasemdir berast er málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.
25.   Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 15-09 – 1506003F
Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 16. júní 2015.

 

 

 

 

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 12:00

 

 

___________________________                       ___________________________

 

 

 

 

___________________________                       ___________________________

 

 

 

___________________________                       ___________________________

 

 

 

 

___________________________                       ___________________________