Skipulagsnefnd fundur nr. 259 – 26. apríl 2023

Fundargerð skipulagsnefndar UTU fundur skipulagsnefndar UTU haldinn miðvikudaginn 26. apríl 2023 og hófst hann kl. 09:00

Fundinn sátu:

Helgi Kjartansson, Björn Kristinn Pálmarsson, Jón Bjarnason, Walter Fannar Kristjánsson var fjarverandi en í staðinn sat fundinn Árni Eiríksson, Ísleifur Jónasson, Vigfús Þór Hróbjartsson skipulagsfulltrúi, Davíð Sigurðsson byggingarfulltrúi og Elísabet D. Erlingsdóttir aðstoðarmaður skipulagsfulltrúa. Aðal- og varamaður Skeiða- og Gnúpverjahrepps voru fjarverandi.

Fundargerð ritaði:  Vigfús Þór Hróbjartsson, skipulagsfulltrúi

Nefndarmenn tóku þátt í gegnum fjarfundabúnað og fundargerð send til rafrænnar undirritunar.

Dagskrá: 

  Bláskógabyggð:
 1.  Klif L167134; Skilgreining landsvæðis; Aðalskipulagsbreyting – 2201035
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til jarðarinnar Klif í Bláskógabyggð eftir auglýsingu. Í breytingunni felst að hluti skilgreinds frístundasvæðis er breytt í landbúnaðarsvæði.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að samþykkja breytingu á aðalskipulagi eftir auglýsingu. Engar athugasemdir bárust á auglýsingatíma skipulagsbreytingarinnar. Nefndin mælist til þess við sveitarstjórn að óskað verði eftir því við Skipulagsstofnun að aðalskipulagsbreytingin taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
2.   Fellskot 2 (L212996); byggingarleyfi; íbúðarhús mhl 01 breyting á notkun í gistihús – 2304011
Fyrir liggur umsókn Bents L. Fróðasonar fyrir hönd Dalalíf ehf., móttekin 11.04.2023, um byggingarleyfi að breyta notkun á 290 m2 íbúðarhúsi mhl 01, byggingarár 1980 í gistihús á íbúðarhúsalóðinni Fellskot 2 L212996 í Bláskógabyggð.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.
3.  Böðmóðsstaðir 4 L167628; Fimm byggingarreitir A-E; Deiliskipulag – 2304033
Lögð er fram tillaga nýs deiliskipulags vegna bæjartorfunnar að Böðmóðsstöðum 4. Innan deiliskipulagsins er m.a. gert ráð fyrir núverandi húsakosti á jörðinni auk þess sem gert er ráð fyrir byggingarheimildum fyrir geymslu/skemmu, þremur íbúðarhúsum með aukahúsum á lóð, ásamt gróðurhúsi og tengdum byggingum.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að deiliskipulagið verði samþykkt og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að mati skipulagsnefndar liggja fyrir allar meginforsendur fyrir gerð deiliskipulagstillögunnar innan aðalskipulags sveitarfélagsins er varðar markmið er varðar uppbyggingu á landbúnaðarsvæðum og leiðir til að ná fram þeim markmiðum þar sem segir m.a. að landbúnaður, þ.m.t. ylrækt og garðrækt, verði áfram stundaður á bújörðum með eðlilegum þróunarmöguleikum ýmissa atvinnugreina sem henta á slíkum svæðum. Ef aðstæður leyfa er heimilt að byggja stök íbúðarhús, sem ekki tengjast búrekstri á landbúnaðarsvæðum bújarða, án þess að breyta þurfi aðalskipulagi, almennt skuli ný hús reist í tengslum við núverandi byggð til að nýta sem best það grunnkerfi sem fyrir er.
4.  Íshellir í Langjökli; Skilgreining afþreyingar- og ferðamannasvæðis; Skipulagslýsing; Aðalskipulagsbreyting – 2304027
Lögð er fram skipulags- og matslýsing sem tekur til breytingar á aðalskipulagi Bláskógabyggðar auk nýs deiliskipulags. Fyrirhuguð breyting á aðalskipulagi felur í sér að skilgreina afþreyingar- og ferðamannasvæði á Langjökli þar sem fyrirhugað er að gera manngerðan íshelli sem áfangastað fyrir ferðamenn. Þá verður einnig unnin deiliskipulagsáætlun fyrir svæðið þar sem nánari útfærsla íshellisins verður tilgreind.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að samþykkja skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Flóahreppur:
 5. Eystri-Loftsstaðir 1 L227147 og Eystri-Loftsstaðir 3 L227148; Byggingarreitir; Deiliskipulag – 2304031
Lögð er fram tillaga nýs deiliskipulags sem tekur til lóða Eystri-Loftsstaða 1 og 3. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir tveimur lóðum og tveimur byggingarreitum á hvorri þeirra og á þeim verði m.a. heimilt að reisa íbúðarhús, aukahús, hesthús og geymslu/skemmu.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Flóahrepps að deiliskipulagið verði samþykkt og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins þar sem m.a. er tiltekið að heimiluð er uppbygging á landspildum (smábýlum) m.a. til áhugabúskapar ef um fasta búsetu er að ræða, enda styrki það nýtingu núverandi veitukerfa, hamli ekki eðlilegri landbúnaðarstarfsemi né spilli góðu landbúnaðarlandi eða verndarsvæðum.
6.   Fornustaðir L222006; Skilmálabreyting; Óveruleg deiliskipulagsbreyting – 2304034
Lögð er fram umsókn frá Þóri Haraldssyni er varðar breytingu á deiliskipulagi að Fornustöðum. Í breytingunni felst að almennum byggingarskilmálum vegna vélaskemmu á byggingarreit B1 verði breytt þannig heimiluð hámarksstærð vélageymslu verði allt að 300 m2 og mesta vegghæð verði allt að 4.0 m.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Flóahrepps að samþykkja viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins en umsækjandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu.
7.   Rimar 12 L212355; Breyttir byggingaskilmálar; Deiliskipulagsbreyting – 2304021
Lögð er fram umsókn frá Gísla Einari Ragnarssyni er varðar breytingu á skilmálum deiliskipulags fyrir íbúðarsvæðið Rima í landi Súluholts. Í breytingunni felst að hámarksmænishæð innan svæðisins verði hækkuð úr 6,0 m í 7,2 m og hámarksstærð húsa verði aukin úr 300 fm í 350 fm.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Flóahrepps að afgreiðslu málsins verði frestað. Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að tilgreina lágmarks gólfkóta bygginga innan svæðisins samhliða breytingu á skilmálum deiliskipulagsins vegna hugsanlegrar flóðahættu. Skipulagsfulltrúa falið að vinna málið áfram.
8.  Hnaus 2; Mosató 3 L225233; Stækkun hótels; Aðalskipulagsbreyting – 2207020
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til breytinga á aðalskipulagi Flóahrepps 2017-2029 eftir kynningu. Með breytingu á aðalskipulagi er gert ráð fyrir auknu umfangi hótelsins. Heimilt verður að byggja við núverandi hótel og fjölga herbergjum úr 20 í 27. Heildarbyggingarmagn svæðis verður allt að 3.000 m3. Einnig er fellt út vatnsból, VB5, sem sett var inn með aðalskipulagsbreytingu, dags. 21.04.2020 í B-deild, enda er byggð tengd Vatnsveitu Flóahrepps. Samhliða er unnið að breytingu aðalskipulags á Hnausjörðinni, þar sem skilgreind frístundabyggð og skógræktar- og landgræðslusvæði breytist í landbúnaðarland. Gerð er breyting á greinagerð aðalskipulags er varðar verslunar- og þjónustusvæðið VÞ11. Unnin er umhverfismatsskýrsla fyrir aðalskipulagsbreytinguna skv. lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Flóahrepps að framlögð tillaga að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna Hnauss 2, Mósatóar 3, verði samþykkt í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Mælist nefndin til þess að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 31 sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar. Mælist nefndin til þess að tilkynning um auglýsingu breytingarinnar verði send eigendum aðliggjandi landeigna innan svæðisins þ.á.m. þeim sem hafa tengingu að sameiginlegum vegi að svæðinu frá þjóðvegi.
9.   Mosató 3 L225133; Aukið byggingamagn; Deiliskipulagsbreyting – 2111083
Lögð er fram tillaga deiliskipulagsbreytingar er varðar Mosató 3 L225133. Í breytingunni felst aukið byggingarmagn á lóð hótelsins. Heimilt verði að hafa hótelið á 2 hæðum. Samtals er gert ráð fyrir um 3.000 m² byggingarmagni á lóðinni. Stækkun hótels og tæknirýmis eru þar innifalin ásamt jarðhýsi með böðum og sauna sem búið er að byggja. Gert er ráð fyrir allt að 27 hótelherbergjum, veitingasal, eldhúsi, móttöku, skrifstofu fyrir starfsmenn, herbergi starfsmanna, salerni, skolherbergi, inntaksrými og fl. Stök lítil (65m²) starfsmannahús eru einnig heimiluð á lóðinni enda tengjast þau beint starfsemi hótelsins. Hámarkshæð frá gólfi í mæni er 8 m. Heimild er að setja lyftu í hótelið og á þeim stað má heildarhæð vera í samræmi við þann búnað sem lyftuhús krefst. Samhliða er unnið að breytingu á aðalskipulagi sem tekur til aukinna heimilda á lóðinni.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Flóahrepps að viðkomandi breyting á deiliskipulagi svæðisins verði samþykkt. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar breytingar á deiliskipulagi og verði auglýst samhliða breytingu á aðalskipulagi. Mælist nefndin til þess að tilkynning um auglýsingu breytingarinnar verði send eigendum aðliggjandi landeigna innan svæðisins auk þeirra sem hafa tengingu að sameiginlegum vegi að svæðinu frá þjóðvegi og þeim gefinn kostur á að koma á framfæri umsögnum eða athugasemdum vegna málsins.
10.   Loftsstaðir-Vestri; Verslunar- og þjónustusvæði; Deiliskipulag – 2204020
Fyrir liggur tillaga er varðar nýtt deiliskipulag innan jarðarinnar Loftsstaðir-Vestri eftir yfirferð Skipulagsstofnunar. Innan deiliskipulagsins er gert ráð fyrir heimildum er varðar uppbyggingu á allt að 11 gistihúsum, 40-75 fm að stærð hvert, auk þess sem gert er ráð fyrir heimild fyrir uppbyggingu þjónustuhúss allt að 120 fm að stærð. Auk þess er gert ráð fyrir heimild fyrir uppsetningu tjalda til útleigu fyrir gistingu, annars vegar 22 fm að stærð og hins vegar 48 fm að stærð. Umsagnir bárust á auglýsingatíma tillögunnar og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt uppfærðum gögnum. Breytingar hafa verið gerðar á deiliskipulagstillögunni eftir auglýsingu. Skipulagssvæðið er stækkað töluvert frá fyrri tillögu m.a. með það að markmiði að færa uppbyggingarsvæðið fjær Loftstöðum-Eystri og til að taka tillit til fornleifa innan skipulagssvæðisins. Byggingarreitum fjölgar en byggingarmagn og fjöldi bygginga er óbreyttur. Athugasemdir voru gerðar við gildistöku deiliskipulagsins af hálfu Skipulagsstofnunar.
Skipulagsnefnd tekur undir athugasemdir Skipulagsstofnunar og mælist til þess að afgreiðslu málsins verði frestað þar til brugðist hefur verið við athugasemdum Skipulagsstofnunar vegna málsins með fullnægjandi hætti þar sem við á.
11.   Laugardælur L166253; Nýr hringvegur um Ölfusá; Framkvæmdarleyfi – 2302007
Fyrir liggur umsókn frá Vegagerðinni er varðar útgáfu framkvæmdaleyfis. Um er að ræða leyfi vegna nýs hringvegar um Ölfusá frá hringtorgi við Biskupstungnabraut að núverandi hringvegi austan Gaulverjabæjarvegar í takt við framlagða umsókn. Markmið framkvæmdarinnar er aukið umferðaröryggi með aðskilnaði akstursstefna, fækkun tenginga og færslu þjóðvegaumferðar út fyrir þéttbýlið á Selfossi. Þá er verið að styrkja vegakerfið með nýrri brú á Ölfusá sem mun beina þungaumferð af núverandi brú á Ölfusá sem hefur takmarkaða burðargetu. Lögð er fram greinargerð vegna útgáfu framkvæmdaleyfis í samræmi við 10. og 12. gr. reglugerðar 772/2012 um framkvæmdaleyfi og 3. mgr. 27. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021, þar sem tiltekið er að leyfisveitandi skuli taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þar sem gerð er rökstudd grein fyrir samræmi við niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Flóahrepps að útgáfa framkvæmdaleyfis verði samþykkt á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Framkvæmdaleyfi skal bundið eftirfarandi skilyrðum í takt við framlagða greinargerð:
– Framkvæmdin skal unnin í samræmi við fyrirliggjandi gögn. Leyfishafa er skylt að óska samþykkis leyfisveitenda fyrir breytingum á framkvæmdinni.
– Leyfishafi skal fylgja gildandi skipulagi við framkvæmdirnar.
– Leyfishafi skal fylgja nauðsynlegum mótvægisaðgerðum og áætlunum um vöktun til að draga úr áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfið og til að tryggja öryggi. Sjá samantekt mótvægisaðgerða, vöktunar og frágangs innan framlagðrar greinargerðar.
– Leyfishafi skal afla annarra nauðsynlegra leyfa fyrir framkvæmdinni.
o Leyfi Fiskistofu til framkvæmda sem geta haft áhrif á fiskgengd, samanber 33. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 61/2006. Með umsókn framkvæmdaraðila um leyfi til framkvæmda við ár og vötn skulu fylgja álit viðkomandi veiðifélags þegar það á við og umsögn sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmdar á lífríki veiðivatns. Fyrir liggur leyfi Fiskistofu í bréfi dags. 2. febrúar 2023, umsögn Hafrannsóknastofnunar dags. 26. október 2022 og umsögn veiðifélags Árnesinga dags. 30. október 2022.
o Leyfi Minjastofnunar Íslands ef hreyfa þarf við fornleifum, samanber 21. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012.
o Umsögn Samgöngustofu vegna hæðar mannvirkja og áhrifa á lendingu og flugtak flugvéla við Selfoss og hvort nauðsynlegt sé að merkja nýja brú yfir Ölfusá sérstaklega sem hindrun vegna flugs, sbr. ákvörðun Samgöngustofu nr. 1/2019 um lýsingu og merkingu hindrana. Umsögn Samgöngustofu liggur fyrir í bréfi dags. 2. desember 2022 og hefur stofnunin staðfest að mannvirkið falli ekki undir 7 gr. ákvörðunar Samgöngustofu nr. 1/2019 en að meta þurfi þörf á að birta upplýsingar um brúna á flugkortum.
o Starfsleyfi Heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna fyrir tímabundinni vinnuaðstöðu sbr. lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð nr. 550/2018 um losun
frá atvinnurekstri og mengunarvarnareftirlit (viðauki X).
– Öll gjöld og kostnaður skulu greidd.
Allar breytingar á framkvæmd skal tilkynna til sveitarfélaganna og Skipulagsstofnunar. Framkvæmdaleyfi þetta tekur gildi þegar gjöld hafa verið greidd, sbr. 13. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Framkvæmdaraðila ber að hafa framkvæmdaleyfi aðgengilegt á verkstað á framkvæmdatíma. Afrit af framkvæmdaleyfi verður sent til Umhverfisstofnunar sbr. 6. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn að hlutaðeigandi jarðareigendum verði grenndarkynnt framkvæmdaleyfið fyrir útgáfu þess og þeim gefinn kostur á að koma á framfæri ábendingum eða athugasemdum við útgáfu leyfisins og framsetningu þess.
Grímsnes- og Grafningshreppur:
12.   Hallkelshólar lóð (L168514); byggingarleyfi; dæluhús mhl 9, 10 og 11 – 2304023
Fyrir liggur umsókn Ingiþórs Björnssonar fyrir hönd Ísþór ehf., móttekin 31.03.2023, um byggingarleyfi fyrir þremur dæluhúsum, mhl 09 52,2 m2, mhl 10 40 m2 og mhl 11 40 m2 á jörðinni Hallkelshólar lóð L168514 í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.
13.   Torfastaðir 1 L170828; Bakkahverfi; Stofnun lóðar – 2304028
Lögð er fram umsókn f.h. Torfu ehf er varðar stofnun landeignar úr landi Torfastaða 1 L170828. Um er að ræða 25,7 ha land sem nær utan um þegar deiliskipulagðar frístundalóðir, sem eru óstofnaðar, ásamt opnu svæði, göngustígum og aðkomuvegum. Óskað er eftir að landið fái staðvísinn Bakkahverfi og gert er ráð fyrir að göturnar tvær innan skipulagsins fái staðvísana Njálsgata og Eiríksgata.
Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við stofnun landeignarinnar skv. fyrirliggjandi umsókn eða framlagðar tillögur að staðvísum innan svæðisins. Skipulagsnefnd mælist til þess að sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykki erindið.
14.   Ferjubakki 1 og 3; Aðkoma Ferjubakka 1 færð yfir á Mánabakka; Óveruleg breyting á deiliskipulagi – 2304039
Lögð er fram tillaga að óverulegri breytingu á deiliskipulagi Ferjubakka 1 og 3 í landi Ásgarðs sem tekur til Ferjubakka 1. Í breytingunni felst að aðkomu að lóðinni er breytt þannig að hún verði um Mánabakka.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að samþykkja framlagða breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi og verði grenndarkynnt lóðarhafa Suðurbakka 2.
15.   Ytriá lóð 2 L201359; Bygging 7 smáhýsa; Fyrirspurn – 2304025
Lögð er fram fyrirspurn frá Jóhanni Vigni Gunnarssyni er varðar áform um að byggja 7 smáhýsi á lóðinni Ytriá 2 ætlað til útleigu til ferðamanna. 6 smáhýsi yrðu um 36 m2 hvert, ætlað 1-4 einstaklingum hvert, og 1 hýsi um 65 m2 með 5 einstaklings herbergjum. Allt í allt um 281 m2. Ytriá 2 er horn lóð, 11.900 m2, með lóðarmörk að Ytriá 4 að vestanverðu og Hvammsvegi 2 að norðanverðu. Að sunnanverðu er áin Ytriá og liggur Stóri Háls að henni sunnanverðri. Lóðin er með sér innkeyrslu frá stofnvegi (Stóri hálsavegur). Meðfylgjandi er áætluð uppstilling á lóðinni ásamt nýlegum loftmyndum af svæðinu.
Viðkomandi svæði er skilgreint sem frístundasvæði í aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps. Jafnframt er í gildi deiliskipulag fyrir svæðið sem gerir ráð fyrir uppbyggingu frístundahúss allt að 200 fm ásamt geymslu, svefnhúsi eða gróðurhúsi að 25 fm. Skipulagsnefnd telur að sú uppbygging sem tilgreind er innan fyrirspurnar samræmist ekki aðalskipulagi sveitarfélagsins eða deiliskipulagi. Slík uppbygging væri í öllum tilfellum háð því að viðkomandi svæði yrði skilgreint sem verslunar- og þjónustussvæði og unnið væri nýtt deiliskipulag sem tæki sérstaklega á slíkri uppbyggingu.
16.   Vaðnes; Frístundabyggð; 4. áfangi; Deiliskipulag – 2204055
Lögð er fram tillaga deiliskipulags er varðar stækkun frístundabyggðar í landi Vaðness eftir auglýsingu. Breytingar hafa verið gerðar á tillögunni vegna athugasemda sem bárust á auglýsingatíma tillögunnar og hefur umfang tillögunnar minnkað umtalsvert. Í tillögunni felst að gert er nýtt deiliskipulag sem tekur til hluta frístundasvæðis F26 skv. aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps. Innan deiliskipulagsins er gert ráð fyrir 31 sumarhúsalóð á 24,7 hektara svæði. Athugasemdir og umsagnir bárust við auglýsingu málsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu þess ásamt andsvörum umsækjanda, uppfærðum gögnum og samantekt UTU á athugasemdum og viðbrögðum.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að samþykkja framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu með fyrirvara um að uppfærð umsögn Minjastofnunar liggi fyrir við afgreiðslu málsins í sveitarstjórn. Nefndin telur að brugðist hafi verið við umsögnum sem bárust vegna málsins með fullnægjandi hætti innan gagnanna og samantektar á athugsemdum og andsvörum. Umfang svæðisins hefur verið minnkað umtalsvert í takt við athugasemdir hagsmunaaðila á aðliggjandi svæði. Nefndin mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þeim sem athugasemdir gerðu verði tilkynnt um niðurstöðu sveitarfélagsins.
Skeiða- og Gnúpverjahreppur:
 17.   Brautarholt Leikskóli L189662; Framkvæmdarleyfi – 2304036
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi vegna borunar á nýrri vinnsluholu í grennd við eldri holu við Brautarholt, Skeiðum. Nýja vinnsluholan er staðsett við norðausturenda núverandi dæluhúss og skýlis. Er áætlað að nýja holan nái niður á að minnsta kosti 120 m dýpi.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að ekki verði gerð athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins sem framkvæmdin tekur til en umsækjandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu.
18.   Vallarbraut 11A-11C L; Framkvæmdarleyfi – 2304035
Lögð er fram umsókn frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi vegna framkvæmdaleyfis vegna gatnagerðar við nýja götu, Vallarbraut í Brautarholti. Um er að ræða nýja götu í hverfinu Brautarholt fyrir 19 íbúðahús. Í framkvæmdinni felst lagning nýrrar götu, auk tilheyrandi lagna, s.s. fyrir hita, vatn, rafmagn, síma og ljósleiðara.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að ekki verði gerð athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli gildandi deiliskipulags fyrir Brautarholt.
19.   Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 23-183 – 2303004F
Lögð er fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 23-183.

 

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:00