Skipulagsnefnd – Fundur nr. 227 – 10. nóvember 2021

Fundargerð skipulagsnefndar UTU – 227. fundur skipulagsnefndar UTU haldinn í Árnesi þ. 10. nóvember 2021 og hófst hann kl. 09:00

Fundinn sátu:

Halldóra Hjörleifsdóttir, Árni Eiríksson, Guðmundur J. Gíslason, Helgi Kjartansson, Ingvar Hjálmarsson, Björn Kristinn Pálmarsson, Vigfús Þór Hróbjartsson, Davíð Sigurðsson og Elísabet D. Erlingsdóttir.

Fundargerð ritaði:  Vigfús Þór Hróbjartsson, skipulagsfulltrúi

Fundargerð verður send til nefndarmanna í tölvupósti til yfirlestrar og svo til rafrænnar undirritunar.

 

Dagskrá:

 

 

1.  

Ásahreppur:

Röðull L198895; Deiliskipulag – 2009049

Lagt er fram uppfært deiliskipulag vegna Röðuls í Ásahreppi. Í deiliskipulaginu felst m.a. skilgreining lóðar og byggingarreitar auk byggingarheimilda innan lóðar. Málið var áður afgreitt á fundi sveitarfélagsins þann 20.10.2020 en stöðvaðist í ferli vegna athugasemda Skipulagsstofnunar er varðar takmarkanir vegna fjarlægðar frá vegi. Undanþága ráðuneytis vegna þessa liggur nú fyrir. Gerð hefur verið breyting á deiliskipulaginu frá fyrra skipulagi þar sem gert er ráð fyrir auknu byggingarmagni á lóð. Innan byggingarreits verði heimilt að byggja allt að 200 fm íbúðarhús auk bílgeymslu/skemmu allt að 450 fm. Mænishæð skal að hámarki vera 6 metrar.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við hreppsnefnd Ásahrepps að deiliskipulagið verði samþykkt og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins.
 

 

 

 

2.  

Bláskógabyggð:

Suðurhlið Langjökuls; Íshellir; Aðalskipulagsbreyting – 2004046

Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar vegna íshellis í suðurhlið Langjökuls eftir auglýsingu. Innan tillögu aðalskipulagsbreytingar er gert ráð fyrir skilgreiningu staks afþreyingar- og ferðamannasvæðis á Langjökli. Innan svæðisins er gert ráð fyrir möguleika á að gera manngerðan íshelli sem viðkomustað fyrir ferðamenn. Íshellirinn geti verið allt að 800 m3 að stærð. Ekki er gert ráð fyrir varanlegum mannvirkjum innan svæðisins. Athugasemdir bárust frá Skipulagsstofnun um gildistöku tillögunnar. Afgreiðsla Skipulagsstofnunar er lögð fram við afgreiðslu málsins.
Innan umsagnar Skipulagsstofnunar er tiltekið að stofnunin telji sig ekki geta tekið aðalskipulagsbreytinguna til staðfestingar fyrr en tekin hafi verið afstaða til umsagnar Veðurstofu Íslands vegna málsins. Vegna fyrri umsagnar Veðurstofu Íslands voru lögð fram svör þar sem athugasemdum Veðurstofunnar eru gerð skil. Skipulagsnefnd telur að brugðist sé við umsögn Veðurstofunnar með fullnægjandi hætti innan gagnanna og með framlögðu svarbréfi vegna athugasemda. Auk þess telur nefndin að athugasemdir Veðurstofunnar snerti að mestu punkta sem að gera þurfi ítarlegar grein fyrir innan deiliskipulags en snerti ekki skilgreiningu afþreyingar- og ferðamannasvæðis með neinum hætti. Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að samþykkja breytingu á aðalskipulagi eftir auglýsingu. Nefndin telur að brugðist hafi verið við umsögnum sem bárust á auglýsingatíma með fullnægjandi hætti. Nefndin mælist til þess við sveitarstjórn að óskað verði eftir því við Skipulagsstofnun að aðalskipulagsbreytingin taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr.123/2010.
 
3. Suðurhlið Langjökuls; Íshellir; Fyrirhuguð framkvæmd og skilmálar; Deiliskipulag – 2004047
Lögð er fram deiliskipulagstillaga vegna íshellis í sunnanverðum Langjökli eftir auglýsingu. Í deiliskipulaginu felst afmörkun lóðar fyrir íshelli auk þess sem gert er grein fyrir heimiluðum framkvæmdum innan svæðisins, aðkomu og viðhaldi hellisins, frágangi svæðisins og umhverfisáhrifum. Samhliða er unnið að breytingu á aðalskipulagi Bláskógabyggðar þar sem skilgreint er afþreyingar- og ferðamannasvæði á því svæði sem deiliskipulagið tekur til. Athugasemdir bárust frá Skipulagsstofnun um gildistöku tillögunnar. Afgreiðsla Skipulagsstofnunar er lögð fram við afgreiðslu málsins.
Skipulagsnefnd tekur undir athugasemdir Skipulagsstofnunar að hluta og mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að málinu verði frestað og deiliskipulagsgögnin verði uppfærð í samræmi við umsögn Skipulagsstofnunar.
 
4.   Bringur; Drumboddstaðir; Frístundasvæði; Deiliskipulag – 2110092
Lögð er fram umsókn frá Bringum, félagi í frístundabyggð sem tekur til nýs deiliskipulags frístundabyggðarinnar að Bringum í landi Drumboddsstaða. Um er að ræða deiliskipulagningu svæðis sem er þegar uppbyggt að hluta. Markmiðið með deiliskipulaginu er að skýra byggingarheimildir innan reitsins þar sem búast má við umsóknum um viðbyggingar, endurbætur, aukahús/gestahús ofl. á þegar byggðum lóðum. Nýju deiliskipulagi er auk þess ætlað að festa lóðarmörk og stærðir lóða innan svæðisins.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að deiliskipulagið verði samþykkt og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um að skilmálar er varðar aukahús á lóð verði lagfærðir. Innan deiliskipulags er tiltekið að innan lóðar sé heimilt að byggja eitt frístundahús og eitt eða fleiri aukahús (geymslur og gestahús). Hámarksstærð hvers aukahúss verði 40 fm. Skilmálar vegna aukahúsa á frístundasvæðum eru bundir í aðalskipulag Bláskógabyggðar þar sem fram kemur að stærð aukahúss/gestahúss getur verið allt að 40 m2 og geymslu allt að 15 m2. Þessar byggingar teljist með í heildar byggingarmagni lóðar. Nefndin mælist jafnframt til þess að skipulagið verði kynnt sérstaklega sumarhúsfélagi svæðisins sé það til staðar að lagfæringu lokinni.
 
5.   Vatnsleysa L167184; Deiliskipulag – 2110094
Lögð er fram umsókn frá Málningu hf. er varðar nýtt deiliskipulag í landi Vatnsleysu L167184. Í deiliskipulaginu felst skilgreining á byggingarreit þar sem gert er ráð fyrir nýju fjósi allt að 2000 fm.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógbyggðar að deiliskipulagið verði samþykkt og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins.
Helgi Kjartansson vék af fundi við afgreiðslu málsins.
 
6.   Laugarás; Aðalskipulagsbreyting – 2110095
Lögð er fram til afgreiðslu skipulagslýsing sem tekur til breytingu á aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015 – 2027 og nýs deiliskipulags vegna þéttbýlisins að Laugarási.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að samþykkja skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við 30. og 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
 
7. Úthlíð 2 L167181; Úr frístundasvæði í verslunar- og þjónustusvæði; Aðalskipulagsbreyting – 2103021
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til frístundasvæðis í landi Úthlíðar eftir kynningu. Í breytingunni felst að landnotkun lóða nr. 5, 7 og 9 við Vörðuás er breytt úr frístundabyggð í verslun- og þjónustu. Engar athugasemdir bárust á kynningartíma aðalskipulagsbreytingarinnar.
Skipulagsnefnd mælist til að sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykki fyrirliggjandi tillögu um breytingu á aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027 vegna breyttrar landnotkunar frístundasvæðis að Úthlíð í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 31 sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar. Samhliða er unnið að nýju deiliskipulagi sem tekur til viðkomandi svæðis.
 
8.  Bergsstaðir L167202; Stækkun frístundareits F84; Aðalskipulagsbreyting – 2108051
Lögð er fram skipulags- og matslýsing vegna breytinga á aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015 – 2027. Fyrirhugað er að frístundabyggðin F84 taki breytingum og stækki til norðurs á landi Bergsstaða L167202 en minnki til suðurs á landi Bergsstaða L167201. Landbúnaðarsvæði tekur breytingum samhliða.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að samþykkja skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
 
9. Bergsstaðir L167201; Úr frístundasvæði í landbúnaðarsvæði; Aðalskipulagsbreyting – 2108054
Lögð er fram skipulags- og matslýsing vegna breytinga á aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015 – 2027. Fyrirhugað er að frístundabyggðin F84 taki breytingum og stækki til norðurs á landi Bergsstaða L167202 en minnki til suðurs á landi Bergsstaða L167201. Landbúnaðarsvæði tekur breytingum samhliða.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að samþykkja skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
 
10. Útey 1 lóð (L168171); umsókn um byggingarleyfi; sumarbústaður – viðbygging – 2110025
Fyrir liggur umsókn Hjörleifs Sigurþórssonar fyrir hönd Gunnars Þ. Gunnarssonar og Bryndísar B. Guðjónsdóttur, móttekin 08.10.2021 um byggingarleyfi til að byggja 64,5 m2 við sumarbústaðinn á sumarbústaðalandinu Útey 1 lóð L168171 í Bláskógabyggð. Heildarstærð á sumarbústaði eftir stækkun verður 104,5 m2.
Skipulagsnefnd UTU bendir á að samkvæmt 5.3.2.13. gr. skipulagsreglugerðar skal ekki reisa mannvirki nær vötum, ám eða sjó en sem nemur 50 metrum. Umsótt stækkun er í um 42 metra fjarlægð frá Djúpunum samkvæmt afstöðumynd. Skipulagsnefndin mælist því til þess við sveitarstjórn að umsókn um byggingaleyfi verði hafnað á grundvelli fyrrgreindra takmarkanna.
Nefndin beinir því til umsækjanda að hægt er að óska eftir heimild umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir undanþágu á grundvelli 45. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 lið 12. vegna takmarkanna skipulagsreglugerðar.
 
11.

  

Melur (L224158); umsókn um byggingarleyfi; bílskúr mhl 12 – viðbygging geymsla – 2110052
Fyrir liggur umsókn Bent L. Fróðasonar fyrir hönd Geysisholt ehf., móttekin 19.10.2021 um byggingarleyfi til að byggja 26,6 m2 kalda geymslu við bílskúr mhl 12 á viðskipta- og þjónustulóðina Melur L224158 í Bláskógabyggð. Heildarstærð á mhl 12 eftir stækkun verður 106,4 m2.
Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins er gert ráð fyrir að á reitnum megi byggja samtals 450 fm þjónustuhús og 80 fm þjónustuhús fyrir rafbíla. Samanlögð byggingarheimild innan reitsins nemur því 530 fm. Fyrir á reitnum er 400 fm aðstöðuhús og 80 fm bílskúr. Heildarbyggingarmagn í samræmi við umsókn er 400 + 106 eða 506 fm. Að mati nefndarinnar er eðlilegt að horfa til heildar byggingarmagns á lóð fremur en stakra heimilda er varðar stærðir sérstakra byggingarhluta innan byggingarreits þótt svo að umrædd bygging sé viðbygging við þjónustuhús fyrir rafbíla en ekki við þjónustuhús. Að mati nefndarinnar er viðkomandi frávik svo óverulegt að ekki sé þörf á að fara fram á breytingu á deiliskipulagi í samræmi við 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 enda skerðist hagsmunir nágranna hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn ekki við útgáfu byggingarleyfis. Byggingin er að sama skapi lægri en núverandi byggingar og innan hámarks byggingarmagns innan reits. Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskágabyggðar að byggingarleyfi verði samþykkt og byggingarfulltrúa verði falið að afgreiða málið.
 

 

 

 

12.  

Flóahreppur:

Sviðugarðar land L210074; Deiliskipulag – 2105076

Lögð er fram tillaga nýs deiliskipulags í landi Sviðugarða land L210074 eftir auglýsingu. Í deiliskipulaginu felst skilgreining á byggingarreit innan landsins þar sem gert er ráð fyrir allt að 100 fm sumarhúsi, 40 fm gestahúsi og 25 fm geymslu. Umsagnir bárust vegna málsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu þess.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Flóahrepps að samþykkja framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Brugðist hefur verið við athugasemdum og umsögnum sem bárust vegna málsins. Nefndin mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsnefnd mælist til þess að staðfang landsins verði tekið til endurskoðunnar í takt við reglugerð um skráningu staðfanga.
13.   Lækjarholt 1 L231163 og 2 L231164; Deiliskipulag – 2106068
Lögð er fram tillaga nýs deiliskipulags í landi Lækjarholts 1 og Lækjarholts 2 í Flóahreppi eftir kynningu. Innan skipulagsins er gert ráð fyrir byggingarheimildum fyrir þremur íbúðarhúsum með bílskúr allt að 300 fm á 1-2 tveimur hæðum auk gestahúsa og skemma. Lækjarholt 1 er um 9 ha að stærð og Lækjaholt 2 um 2 ha. Samkvæmt deiliskipulaginu er gert ráð fyrir því að Lækjarholt 2 verði óbreytt en Lækjarholt 1 skiptist upp í 3 spildur á bilinu 2,19 – 3,60 ha að stærð. Umsagnir bárust á kynningartíma deiliskipulagsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu þess.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Flóahrepps að deiliskipulagið verði samþykkt og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags Flóahrepps. Nefnin mælist til þess að brugðist verði við umsögn Minjastofnunar með lagfæringu á framlögðum gögnum. Nefndin mælist jafnframt til þess að skilgreindir verði skilmálar er varðar lágmarkshæðir bygginga m.t.t. flóðahættu á svæðinu.
 

 

 

 

14. 

Grímnes- og Grafningshreppur:

Neðan-Sogsvegar 40 L169358 og 4b L194759; Sameining lóða; Deiliskipulagsbreyting – 2110096

Lögð er fram umsókn frá HH eignum ehf. er varðar breytingu á deiliskipulagi Neðan-Sogsvegar 40 og 40b. Í breytingunni felst sameining lóða.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að samþykkja viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Mælst er til þess að samhliða verði skilgreindur byggingarreitur á sameinaðri lóð. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi og verði grenndarkynnt næstu nágrönnum.
 
15.   Torfastaðir 1 L170828; Breytt landnotkun; Aðalskipulagsbreyting – 2003014
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar vegna Torfastaða 1 L170828 í Grafningi eftir auglýsingu. Í tillögunni felst að landnotkun á um 25 ha svæði innan jarðar Torfastaða er breytt úr landbúnaðarlandi í frístundabyggð. Samhliða er lögð fram fornleifaúttekt innan svæðisins til kynningar. Umsagnir bárust vegna málsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu þess.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að samþykkja breytingu á aðalskipulagi eftir auglýsingu. Engar athugasemdir bárust á auglýsingatíma skipulagsbreytingarinnar og telur nefndin að brugðist hafi verið við umsögnum með fullnægjandi hætti innan tillögunnar. Nefndin mælist til þess við sveitarstjórn að óskað verði eftir því við Skipulagsstofnun að aðalskipulagsbreytingin taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr.123/2010.
 
16.   Írafoss L170986; Haugsetning jarðvegs; Framkvæmdarleyfi – 2111008
Lögð er fram beiðni frá Landsvirkjun um framkvæmdaleyfi vegna haugsetningar á jarðvegi við Írafossvirkjun. Kominn er gróður í jarðveginn inni í tengivirkinu fyrir utan stöðvarhúsið við Írafossvirkjun. Þess vegna þarf að taka 10 cm lag ofan af jarðveginum og setja nýja möl í staðinn. Þetta er um 4.200 fermetra svæði. Verkefnið verður unnið í samráði við Landsnet þar sem eignarhaldið á tengivirkinu er á forræði Landsvirkjunar sem og Landsnets. Jarðvegurinn sem verður tekinn úr tengivirkinu verður svo haugsettur á jafnstórt svæði í dæld fyrir utan tengivirkið skv. meðfylgjandi kort. Umsækjandi vill frekar nota umframefni á staðnum til að minnka losun og rask vegna flutninga með efnið annað. Passað verður upp á að gengið verði vel frá öllu svæðinu, því lokað og haugsetning verði aðlöguð að landslagi. Einnig verður passað upp á alla olíunotkun sem og hugsanlegan leka frá tækjum.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að ekki verði gerð athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins sem framkvæmdin tekur til en umsækjandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu.
 
17. Freyjustígur 5-7; Breytt lóðamörk; Göngustígur færður; Deiliskipulagsbreyting – 2111009
Lögð er fram umsókn frá Landhönnun slf. um breytingu á deiliskipulagi að Freyjustíg 5-7 í landi Ásgarðs sem tekur til breyttra lóðarmarka og færslu á göngustíg.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að samþykkja viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi.
 
18.   Borgarhóll L168437; Yndisskógur; Bílastæði; Framkvæmdarleyfi – 2109004
Lögð er fram beiðni um framkvæmdaleyfi sem tekur til bílastæðis við Yndisskóg að Borgarhól L168437 við þéttbýlið í Borg í Grímsnesi eftir grenndarkynningu. Ein athugasemd barst vegna málsins og er hún lögð fram við afgreiðslu þess.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að brugðist verði við athugasemdum sem bárust vegna útgáfu framkvæmdaleyfis með fullnægjandi hætti þar sem við á.
 

 

 

19.   Borg í Grímsnesi; Íbúðabyggð; Deiliskipulag – 2108030
Lögð er fram tillaga að heildarendurskoðun deiliskipulags sem tekur til þéttbýlisins að Borg í Grímsnesi eftir auglýsingu. Á síðustu árum hefur atvinnutækifærum fjölgað í Grímsnes- og Grafningshreppi og er það forsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingu þéttbýlisins á Borg. Mikil ásókn hefur verið í nýjar lóðir og með nýju deiliskipulagi áformar sveitarfélagið að mæta vaxandi eftirspurn eftir íbúðarlóðum með áherslu á fjölbreytni í íbúðastærðum og húsagerðum. Einnig verða unnar ýmsar lagfæringar á lóðamörkum, stígakerfi, byggingaskilmálum og fleiru vegna breyttra aðstæðna og nýrri og nákvæmari kortagagna. Umsagnir bárust á auglýsingatíma skipulagsins og eru þær lagaðar fram við afgreiðslu þess.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að samþykkja framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Helstu athugasemdir sem bárust vegna málsins eru gerðar innan umsagnar Minjastofnunar Íslands er varðar skráningu fornleifa innan skipulagssvæðisins. Skipulagsnefnd bendir á að viðkomandi svæði hafi verið skilgreint sem íbúðarsvæði um margra ára skeið innan aðalskipulags og gildandi deiliskipulags. Á árunum 1999-2001 fór fram fornleifaskráning á svæðinu sem Minjastofnun telur ekki fullnægjandi. Nefndin telur að sökum þess að á svæðinu er nú þegar í gildi deiliskipulag sem tekur til framkvæmda á nákvæmlega sama svæði og nýtt deiliskipulag tekur til og sökum þess að áður hefur farið fram skoðun á svæðinu við gerð aðalskipulags og deiliskipulags innan þess að þá sé ekki ástæða til að hindra gildistöku skipulagsáætlunarinnar á grundvelli umsagnar Minjastofnunar Íslands. Nefndin vísar að auki til 2. mgr. 24. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 þar sem m.a. fram kemur: „Ef fornminjar sem áður voru ókunnugar finnast við framkvæmdir verks skal sá sem fyrir því stendur stöðva framkvæmdir án tafar. Skal Minjastofnun Íslands láta framkvæma vettvangskönnun umsvifalaust svo skera megi úr um eðli og umfang fundarins.“ Þessi skilyrði eiga við jafnt nú sem og eftir gildistöku nýs skipulags þar sem fyrir eru framkvæmdaheimildir innan svæðisins eins og fyrr segir. Nefndin mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
 
20.   Endurskoðun aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps – 1506033
Lögð er fram tillaga heildarendurskoðunar aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps ásamt fylgigögnum til samþykktar fyrir auglýsingu í samræmi við 30. og 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Skipulagsnefnd mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að framlögð tillaga endurskoðunar aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps verði samþykkt til auglýsingar. Tillagan verði send Skipulagsstofnun til athugunar í samræmi við 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefndin mælist til þess að tillagan verði auglýst skv. 31. gr. sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar.
 

 

 

 

21.  

Hrunamannahreppur:

Skollagróf L166828; Efnistaka; Aðalskipulagsbreyting – 2106085

Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar vegna skilgreiningar á efnistökusvæði í landi Skollagrófar L166828 eftir kynningu. Innan tillögu er gert ráð fyrir 2 ha efnistökusvæði með heimild til að vinna allt að 40.000 m3 af efni og haugsetja samsvarandi magn af jarðvegi. Engar athugasemdir bárust á kynningartíma aðalskipulagsbreytingarinnar.
Skipulagsnefnd mælist til að sveitarstjórn Hrunamannahrepps samþykki fyrirliggjandi tillögu um breytingu á aðalskipulagi Hrunamannahrepps 2016-2032 vegna efnistökusvæðis í landi Skollagrófar í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 31 sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar.
 

 

 

 

22.  

Skeiða- og Gnúpverjahreppur:

Hagi L166550; Hagi spennistöð; Stofnun lóðar – 2110063

Lögð er fram umsókn Sigrúnar Guðlaugsdóttur um stofnun lóðar úr jörðinni Hagi L166550. Óskað er eftir að stofna 56 fm lóð undir spennistöð við Melhagaveg (3346-01) skv. meðfylgjandi lóðablaði. Fyrir liggur jákvæð umsögn Vegagerðarinnar á staðsetningu lóðarinnar.
Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við stofnun lóðarinnar skv. fyrirliggjandi umsókn. Skipulagsnefnd mælist til að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykki erindið.
 
23. Selhöfðar í Þjórsárdal; Skipulagslýsing aðal- og deiliskipulags; Deiliskipulag – 2110091
Lögð er fram skipulagslýsing er varðar breytingu á aðalskipulagi og nýtt deiliskipulag ferðamannasvæðis Sandártungu í Þjórsárdal. Skipulagssvæðið afmarkast af tjaldsvæði við Sandártungu til suðvesturs, Sandá til norðvesturs, Selhöfðum til norðausturs og Þjórsárdalsvegi til suðausturs. Skógi vaxnar hlíðar Skriðufells mynda sterka umgjörð handan Sandár ásamt Selhöfðum, en þar er vinsælt útivistarsvæði. Svæðið hefur verið í umsjón Skógræktarinnar síðan 1938.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að samþykkja skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við 30. og 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
 
24. Stekkjartún, Stóru-Mástungu 2 L166604; Breytt landnotkun; Aðalskipulagsbreyting – 2110081
Lögð er fram skipulagslýsing sem tekur til aðalskipulagsbreytingar í landi Stóru-Mástungu II. Breytingin varðar breytingu á landnotkun aðalskipulags á um 3,8 ha lands (mynd 1) austan við núverandi bæjarhús að Stóru Mástungu II úr landbúnaðarsvæði í frístundabyggð. Samhliða aðalskipulagsbreytingu áforma landeigendur að deiliskipuleggja svæðið sem um ræðir fyrir þrjár lóðir ásamt þremur byggingarreitum fyrir frístundahús.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að samþykkja skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
 
25.   Breiðanes L201727; Háanes; Breytt heiti lóðar – 2111003
Lögð er fram umsókn Orra Eiríkssonar f.h. Eignarhaldsfélagsins Vöðla ehf, dags. 31. október 2021, um breytingu á staðfangi landsins Breiðanes L201727 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Óskað er eftir því að landið fái staðfangið Háanes sem er örnefni innan landsins. Ástæða umsóknar er að jörð með heitinu Breiðanes er þegar til í sveitarfélaginu.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að ekki verði gerð athugasemd við nýtt staðfang landsins.
 

 

 

 

 

26.  

 

Öll sveitarfélög:

Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 21-152 – 2110007F

Lögð er fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 21-152.
 

 

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:45