Skipulagsnefnd – Fundur nr. 225 – 13. október 2021

Fundargerð skipulagsnefndar UTU – 225. fundur skipulagsnefndar UTU haldinn í Þingborg þ. 13. október 2021 og hófst hann kl. 09:00

Fundinn sátu:

Halldóra Hjörleifsdóttir, Árni Eiríksson, Ása Valdís Árnadóttir, Guðmundur J. Gíslason, Helgi Kjartansson, Ingvar Hjálmarsson, Vigfús Þór Hróbjartsson og Elísabet D. Erlingsdóttir.

Fundargerð ritaði:  Vigfús Þór Hróbjartsson, skipulagsfulltrúi

Fundargerð verður send til nefndarmanna í tölvupósti til yfirlestrar og svo til rafrænnar undirritunar.

 

Dagskrá:

 

1.  

Ásahreppur:

Framnes; Nes 1 L230551 og Nes 2 L230552; Deiliskipulag – 2109063

Lögð er fram umsókn frá Óla Óskari Herbertssyni er varðar nýtt deiliskipulag fyrir Nes 1 L230551 og Nes 2 L230552 í Ásahreppi. Deiliskipulagið tekur til lóða fyrir íbúðarhús, gestahús og skemmu.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Ásahrepp að samþykkja deiliskipulagstillögu til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
2. Röðull (L198895); umsókn um byggingarleyfi; geymsla með kjallara að hluta – 2110013
Fyrir liggur umsókn Einars Ólafssonar fyrir hönd Hjartar M. Óskarssonar, móttekin 04. október 2021, um byggingarleyfi til að 331 m2 byggja geymslu með kjallara að hluta á íbúðarhúsalóðinni Röðull L198895 í Ásahreppi.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við hreppsnefnd Ásahrepps að deiliskipulag svæðisins sem samþykkt var til auglýsingar á fundi hreppsnefndar þann 21.10.2020 verði klárað í ferli áður en frekari byggingaframkvæmdir verði heimilaðar innan lóðarinnar. Athugasemdir komu fram frá Skipulagsstofnun er varðar fjarlægð frá vegi sem stöðvuðu framgang málsins. Undanþága frá ráðuneyti dags. 4.12.2006 liggur fyrir er varðar fjarlægð frá vegi. Umsótt framkvæmd rúmast ekki innan fyrrgreinds deiliskipulags. Nefndin mælist því til þess að deiliskipulagið verði lagt fram að nýju þar sem tekið verði tillit til aukinna byggingarheimilda á lóðinni. Nefndin mælist til þess að afgreiðslu byggingarleyfis verði frestað.
3.   Endurskoðun aðalskipulags Ásahrepps 2020-2032 – 2002038
Lögð er fram tillaga að heildarendurskoðun aðalskipulags Ásahrepps 2020-2032 til samþykktar fyrir auglýsingu í samræmi við 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Skipulagsnefnd mælist til þess við hreppsnefnd Ásahrepps að framlögð tillaga endurskoðunar aðalskipulags Ásahrepps verði samþykkt til auglýsingar. Tillagan verði send Skipulagsstofnun til athugunar í samræmi við 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefndin mælist til þess að tillagan verði auglýst skv. 31. gr. sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar.
 

 

 

4.  

Bláskógabyggð:

Miðhús 167415; Miðhúsaskógur; Vatnstankur; Fyrirspurn – 2109090

Lögð er fram fyrirspurn frá VR til skipulagsnefndar er varðar heimild til að setja niður miðlunartank fyrir hitaveituvatn innan orlofsbyggðar VR í Miðhúsaskógi.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að ekki verði gerð athugasemd við úgáfu byggingarleyfis vegna umsótts miðlunartanks.
5.   Lækjarhvammur; Lóðir 4 og 5; Skipulagsskilmálar; Deiliskipulag – 2106010
Lögð er fram umsókn frá Lindarflötum ehf. er varðar deiliskipulag á lóðum Lækjarhvamms 4 og 5 innan frístundasvæðis F20. Í deiliskipulaginu felst m.a. skilgreining byggingarheimilda innan lóðanna þar sem gert er ráð fyrir uppbyggingu sumarhúss, gestahúss allt að 40 fm og geymslu allt að 15 fm, innan hámarks nýtingarhlutfalls 0,03. Lögð er fram endurnýjun á heimild umhverfisráðuneytisins er varðar fjarlægð frá Grafará.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggaðar að deiliskipulagið verði samþykkt og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags Bláskógabyggðar.
6.  Seljaland 16 (L167953); umsókn um byggingarleyfi; sumarbústaður – viðbygging – 2101047
Fyrir liggur umsókn Ingaþórs Björnssonar fyrir hönd Valgerðar U. Sigurvinsdóttur, móttekin 18.01.2020, um byggingarleyfi til að byggja við 24,9 m2 sumarbústað á sumarbústaðalandinu Seljaland 16 L167953 í Bláskógabyggð. Heildarstærð sumarbústaðar eftir stækkun verður 82,5 m2. Málinu var synjað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 1.9.2021 vegna fjarlægðar hússins frá Grafará. Í ljósi umsagnar Umhverfisráðuneytisins er varðar undanþágu frá fjarlægðarmörkun við Grafará á lóðum Lækjarhvamms 4 og 5 er málið tekið til afgreiðslu skipulagsnefndar.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Nefndin telur að undanþága vegna fjarlægðar við Grafará sem veitt hefur verið vegna Lækjarhvamms sumarhúsalóða skuli gilda um aðrar frístundalóðir við Grafará. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.
7.   Breyting á skilmálum fyrir frístundasvæði; Aðalskipulagsbreyting – 2102013
Lögð er fram tillaga að breyttum skilmálum aðalskipulags Bláskógabyggðar 2015-2027. Tilgangur breytinganna er endurbót á reglum er varðar hámarksbyggingarmagn innan frístundalóða sem falla utan þess að vera á bilinu 5-10.000 fm. að stærð.
Í tillögunni felst að breyting er gerð á kafla 3.2.3 þar sem fyrir breytingu segir:
Á frístundasvæðum skulu lóðir að jafnaði vera á stærðarbilinu ½ – 1 ha og nýtingarhlutfall skal ekki vera hærra en 0,03. Í ákveðnum tilfellum geta frístundalóðir þó verið minni og nýtingarhlutfall allt að 0,05. Þar segir einnig:
Stærð aukahúss/gestahúss getur verið allt að 40 fm og geymslu allt að 15 fm. Þessar byggingar teljast með í heildarbyggingarmagni lóðar.
Eftir breytingu mun ákvæði í kafla 3.2.3, frístundabyggð, sem varðar lóðarstærðir og byggingarmagn vera eftirfarandi:
Lóðarstærðir á frístundahúsasvæðum skulu að jafnaði vera á bilinu ½ – 1 ha (5.000 – 10.000 fm). Í ákveðnum tilfellum, sérstaklega í eldri hverfum sem skipulögð voru fyrir gildistöku núgildandi aðalskipulags, geta frístundalóðir þó verið minni. Nýtingarhlutfall skal ekki vera hærra en 0,03 nema á lóðum sem eru minni en 1/3 ha að stærð en þar er leyfilegt byggingarmagn 100 fm.
Stærð aukahúss/gestahúss getur verið allt að 40 fm og geymslu allt að 15 fm. Þessar byggingar teljast með í heildarbyggingarmagni lóðar.
Tillagan var í kynningu frá 8.9.2021 – 1.10.2021. Engar athugasemdir bárust á kynningartíma breytingartillögu.
Skipulagsnefnd mælist til að sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykki fyrirliggjandi tillögu um breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 31. gr. sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar.
8. Efsti-Dalur 1 lóð (L167737); umsókn um byggingarleyfi; sumarbústaður – viðbygging – 2110006
Fyrir liggur umsókn Helga Hafliðasonar fyrir hönd Þórðar V. Friðgeirssonar, móttekin 01.10.2021, um byggingarleyfi til að byggja 62 m2 viðbyggingu við sumarbústað á sumarbústaðalandinu Efsti-Dalur 1 lóð L167737 í Bláskógabyggð. Heildarstærð sumarbústaðar eftir stækkun verður 118.5 m2.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.
9.   Heiðarbær frístundabyggð; Svínanes F3; Deiliskipulag – 2110017
Lögð er fram lýsing deiliskipulags sem tekur til frístundabyggðar að Heiðarbæ, Svínanes F3. Markmið skipulagsgerðarinnar er að samþætta lóðamörk og götumynd, auka skilvirkni við umsýslu á lóðum ásamt því að ramma inn svæðið og nýtingu þess í heild og einstaka þætti þess s.s. innviði, náttúruvernd og aðgengi. Áhersla verður lögð á að skilgreina lóðarmörk, aðgengi og gönguleiðir. Með gerð deiliskipulags fyrir svæðið er einnig verið að fylgja eftir stefnu Bláskógarbyggðar um að stefna skuli að því að deiliskipuleggja eldri frístundabyggðir.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Bláskógabyggðar að samþykkja skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
 

 

 

10.  

Flóahreppur:

Egilsstaðir 1 L211449; Suðurgaffall og Skógarlundur; Ný staðföng og stofnun lóða – 2109087

Lögð er fram umsókn Guðbjargar Guðmundsdóttur um ný staðföng vegna umsóknar landeigenda um stofnun frístundahúsalóða skv. skipulagi úr landi Egilsstaða 1 L211449. Á skipulaginu koma ekki fram staðföng lóðanna en skv. umsókn og lóðablöðum er óskað eftir að nýju lóðirnar fái staðföngin Suðurgaffall 1 og 2, Egilsstaðir 1 L211449 verði Suðurgaffall 3 og að Egilsstaðir lóð L166413 fái staðfangið Skógarlundur.
Nefndin mælist til þess að skráning staðfanga innan svæðisins í heild verði í takt við reglugerð um skráningu staðfanga. Varðandi umsótt staðföng og vegna aðkomu að L166413 skv. skipulagi þá mælist nefndin til þess að lóðirnar fái staðföngin Suðurgaffall 1-4 eða Skógarlundur 1-4 og breyta númeraröðinni til samræmis við aðkomu að þeim.
11.   Stekkholt land 3 (Smalaskáli) L214866; Breytt heiti lóðar – 2109089
Lögð er fram umsókn Hjalta Guðmundssonar, dags. 23. september 2021, um breytingu á staðfangi landeignar. Óskað er eftir því að landið Stekkholt land 3 L214866 fái staðfangið Smalaskáli. Skv. umsókn þá liggur landið meðfram Smalaskálaskurði og vestari endi landsins er að smalaskálarétti.
Landið er innan skipulagssvæðis fyrir 3 spildur nefndar Stekkholt land 1-3 úr landi Langholts 1. Stekkholt land 2 hefur lögbýlis- og nafntökuleyfi og heitir í dag Hvítholt.
Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við framlagt staðfang og mælist til þess við sveitarstjórn að málið verði samþykkt. Nefndin mælist til þess að skipulagsfulltrúi hafi samráð við landeiganda Stekkholt land 1 um breytt staðfang þeirrar lóðar þar sem hún er sú eina sem eftir stendur innan skipulagssvæðisins sem ekki hefur hlotið nýtt staðfang.
12.   Syðri-Gegnishólar L165499; Deiliskipulag – 2109091
Lögð er fram umsókn frá Olil Amble er varðar nýtt deiliskipulag að Syðri-Gegnishólum. Í skipulaginu felst að heimilt verði að byggja tvö allt að 300 fm íbúðarhús og bílskúr, sambyggt eða aðskilið. Óskað er eftir undanþágu vegna fjarlægðar frá vegi úr 50 m í 15 m. Helstu rök fyrir beiðni um undanþágu er að lóðir eru litlar og 50 m frá miðlínu frá vegi tekur yfir nær alla lóðina. Auk þess er um að ræða heimreið að einum bæ, þar sem umferð er ekki hröð og ætti því ekki að hafa umtalsverð áhrif á hljóðvist við íbúðarhús.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Flóahrepps að afgreiðslu málsins verði frestað. Umsækjanda verði falið að óska eftir undanþágu vegna fjarlægðar frá vegi til Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem lögð verði fram samhliða við afgreiðslu málsins verði hún samþykkt.
13.   Vatnsholt 2 L166398 Hrútholt Deiliskipulag – 1806063
Lagt er fram deiliskipulag að Vatnsholti 2 L166398, Hrútholt, eftir auglýsingu. Í deiliskipulaginu felst að skilgreindar eru lóðir og byggingarheimildir fyrir uppbyggingu allt að 15 íbúðarhúsalóða sem hver um sig er 10.000 fm. að stærð. Nýtingarhlutafall lóðar er skilgreint allt að 0,05. Svæðið er skilgreint sem íbúðarsvæði ÍB9 í aðalskipulagi Flóahrepps. Umsagnir og athugasemdir bárust vegna málsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Flóahrepps að samþykkja framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Brugðist hefur verið við athugasemdum og umsögnum sem bárust vegna málsins. Nefndin mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
14.   Sölvaflatir L221040; Endurheimt votlendis; Framkvæmdarleyfi – 2110016
Lögð er fram umsókn frá Votlendissjóði um framkvæmdaleyfi vegna endurheimt votlendis í landi Sölvaflata L221040 í Flóahreppi. Innan umsóknar kemur fram að með endurheimt á votlendi í landinu sé ekki verið að rýra verðmætt landbúnaðarland í sveitarfélaginu, t.d. hæfni lands til akuryrkju í nánustu framtíð. Fyrirhugaðar framkvæmdir hafa ekki nein áhrif á tún nágrannajarða eða önnur mannvirki. Sýnileiki framkvæmdanna verði mjög lítill eftir að skurðbakkarnir gróa upp. Umhverfisáhrif framkvæmdanna verða jákvæð m.t.t. umhverfissjónarmiða enda sé verið að binda kolefni. Framkvæmdin er í samræmi við yfirlýst markmið stjórnvalda um kolefnisbindingu. Lagður er fram samstarfssamningur á milli landeigenda og Votlendissjóðs.
Skipulagsnefnd UTU frestar afgreiðslu málsins og óskar eftir ítarlegri gögnum við afgreiðslu málsins. Skipulagsfulltrúa falið að hafa samráð við umsækjanda.
 

 

 

15.  

Grímsnes- og Grafningshreppur:

Öndverðarnes 2 lóð L170103; Staðfesting á afmörkun lóðar – 2109078

Lögð er fram umsókn Snorra M. Egilssonar, dags. 20. september 2021, þar sem óskað er eftir samþykki á afmörkun lóðarinnar Öndverðarnes 2 lóð L170103 skv. meðfylgjandi uppdrætti. Lóðamörkin byggja á þinglýstum skjölum, girðingum og merkjum sem eru í kringum lóðina. Fyrir liggur samþykki eigenda aðliggjandi lóðarhafa. Lóðin er skráð 12.500 fm og mælist 12.589 fm skv. hnitsetningu sem ekki hefur legið fyrir áður.
Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við afmörkun lóðarinnar skv. fyrirliggjandi umsókn. Skipulagsnefnd mælist til að sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykki erindið með fyrirvara um lagfærð gögn.
16.   Eyvík 3 L231154; Eyvík II L168241; Stækkun lóðar – 2110003
Lögð er fram umsókn Sigurðar U. Sigurðssonar f.h. landeigenda um stækkun lóðar. Óskað er eftir að lóðin Eyvík 3 L231154 stækki úr 5.688 fm í 6.628 fm skv. lóðablaði. Stækkunin kemur úr landi Eyvíkur II L168241 og kemur til vegna fyrirhugaðrar færslu á staðsetningu íbúðarhúss upp á brekkubrún sem er frávik frá því sem áður liggur fyrir samþykkt. Fyrir liggur samþykki eigenda upprunalands sem og eigenda aðliggjandi landeigna á breyttri afmörkun sem og nýrri staðsetningu íbúðarhússins.
Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við stækkun lóðarinnar skv. fyrirliggjandi umsókn. Skipulagsnefnd mælist til að sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykki erindið.
17.   Öndverðarnes 2 lóð (L170129); Umsókn um leyfi fyrir garðskála – 2109101
Fyrir liggur umsókn Magnúsar Sveinssonar og Katrínar S. Sigurbjörnsdóttur, móttekin 27.09.2021, um leyfi til að byggja 24,5 m2 garðskála við sumarbústað á sumarbústaðalandinu Öndverðarnes 2 lóð L170129 í Grímsnes- og Grafningshreppi. Heildarstærð sumarbústaðar eftir stækkun verður 71,4 m2.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.
18. Sogsbakki 7 (L202465); umsókn um byggingarleyfi; sumarbústaður og gestahús-geymsla – 2109102
Fyrir liggur umsókn Jóns Þ. Þorvaldssonar fyrir hönd F7172, móttekin 30.09.2021, um byggingarleyfi til að byggja 137,9 m2 sumarbústað og 25 m2 gestahús/geymslu á sumarbústaðalandinu Sogsbakki 7 L202465 í Grímsnes- og Grafningshreppi. Húsið er innan deiliskipulags en utan heimilda er varðar þakhalla innan svæðisins. Lögð er fram samantekt vegna þakhalla húsa innan svæðisins.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að ekki verði gerð athugasemd við útgáfu byggingarleyfis á grundvelli heimilda 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um að vikið sé frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Umsótt byggingaráform eru í takt við deiliskipulag svæðisins að öðru leyti og minnkaður þakhalli mun frekar leiða til minni grenndaráhrifa vegna byggingaframkvæmda. Nefndin mælist þó til þess að unnin verði óveruleg breyting á deiliskipulagi samhliða útgáfu byggingarleyfis þar sem heimildir vegna þakhalla innan svæðisins verði uppfærðar í takt við byggðarmynstur innan þess.
19. Bjarnastaðir I L189338; Básar L168231; Bjarnastaðir lóð (Heiðarbrún 12) L190658; Heiðarbrún 10 L200051; Stækkun lands og breytt skráning lóða – 2110014
Lögð er fram umsókn Ólafs Einarssonar um stofnun 22 ha lands úr jörðinni Bjarnastaðir I L189338 í þeim tilgangi að sameina við landið Bása L168231 sem verður 24 ha eftir sameiningu. Stærð Bjarnastaða I verður 82 ha eftir stofnun og er hluti ástæðunnar sú að samtímis er verið að leiðrétta hnitsetta skörun jarðarinnar við Stangarlæk 2 L208879. Samhliða er óskað eftir staðfestingu á afmörkun og breyttri stærð lóðarinnar Bjarnastaðir lóð L190658 sem er skráð 6.000 fm í fasteignaskrá en mælist 6.017,1 fm ásamt því að breyta staðfangi lóðarinnar í Heiðarbrún 12. Jafnframt er óskað eftir staðfestingu á breyttri afmörkun og stærð lóðarinnar Heiðarbrún 10 sem er aðliggjandi lóð. Með breytingunni á afmörkun lóðarinnar er verið að horfa til legu vegar, girðinga og aðliggjandi landspilda. Lóðin er skráð 5,4 ha en verður 5,1 ha eftir breytingu. Fyrir liggur umsókn eiganda lóðar 10 um breytingu á skráningunni.
Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við stofnun lands og breytta skráningu viðkomandi lóða skv. fyrirliggjandi umsókn. Skipulagsnefnd mælist til að sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykki erindið. Þar sem fyrir liggur umsókn um breytingu á staðfangi Heiðarbrúnar 10 í fyrirhugaðri skipulagsbreytingu leggur nefndin til að staðfang lóðar L190658 verði endurskoðað.
20.  Syðri-Brú; Lyngbrekka 6 L207390 og 8 L207035; Breyting byggingarreita og lóðamarka; Deiliskipulagsbreyting – 2110019
Lögð er fram umsókn frá Herði Karlssyni er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi Syðri-Brú. í breytingunni felst breyting á lóðarmörkum milli lóðar Lyngbrekku 6 og 8.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að samþykkja viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins en hlutaðeigandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu.
 

 

 

21.  

Hrunamannahreppur:

Hrunamannaafréttur L223267; Kerlingafjöll; Landvarðaskáli, Deiliskipulagsbreyting – 2110001

Lögð er fram skipulagslýsing er varðar breytingu á deiliskipulagi fyrir Kerlingafjöll. Í breytingunni felst að fyrirhugað er að stofna nýja lóð og reisa landvarðarskála skammt norðan Kerlingafjallavegar.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Hrunamannahrepps að samþykkja skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
22.   Reykjabakki L166812; Reykjalaut; Lögbýli; Deiliskipulag – 2105039
Lagt er fram nýtt deiliskipulag í landi Reykjabakka L166812 eftir auglýsingu. Í deiliskipulaginu felst m.a. skilgreining byggingarheimilda fyrir íbúðarhúsi, gestahúsi og landbúnaðarhúsnæði. Athugasemdir bárust á auglýsingatíma skipulagsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu þess.
Í framlögðum athugasemdum vegna málsins felst að gerð er athugasemd við að ný aðkoma að svæðinu verði lögð um land Grafarbakka II spilda 1. Á þeim grunni hafnar landeigandi aðliggjandi jarðar skipulagstillögunni alfarið. Vegagerðin hafði áður gert athugasemd við að núverandi tenging að skipulagssvæðinu væri ekki fullnægjandi með tilliti til umferðaröryggis. Skipulagsnefnd mælist til þess við sveitarstjórn Hrunamannahrepps að afgreiðslu málsins verði frestað.
Nefndin vísar því til málsaðila að semja við landeiganda aðliggjandi lands Grafarbakki II spilda 1 um það landsvæði sem fyrirhugað er að þurfi að fara undir veg til að tengja lóð Reykjalautar við Hrunaveg með fullnægjandi hætti. Nefndin tekur ekki undir athugasemdir landeiganda Laufskálabyggðar er varðar að notagildi og verðmæti landsins sé rýrt verulega með umræddri veglagningu. Um er að ræða um 80 metra heimreið sem gæti þá tekið til um 480 fm svæðis á túni sem er um 20.000 fm að stærð. Að mati nefndarinnar er notagildi landsins rýrt með óverulegum hætti en umferðaröyggi allra þeirra sem fara um Skeiða- og Hrunamannaveg og Hrunaveg stórbætt með samnýtingu tenginga. Sé horft til heildarhagsmuna íbúa sveitarfélagsins ítrekar skipulagsnefnd þá ósk að hlutaðeigandi umsækjandi og Laufskálar ehf. semji um málið sín á milli um áður en deiliskipulag svæðisins tekur gildi.
 

 

 

23.

Skeiða- og Gnúpverjahreppur:

Þjórsárholt (Brattakot) L166703; Staðfesting á afmörkun og breytt stærð og heiti lóðar – 2110015

Lögð er fram umsókn Sigurðar U. Sigurðssonar f.h. lóðarhafa um staðfestingu á afmörkun og breytingu á stærð sumarbústaðalóðarinnar Þjórsárholt L166703. Lóðin er skráð 10.000 fm en skv. hnitsetningu þá mælist lóðin 5.005 fm og er sú stærð og afmörkun sambærileg við lóðaleigusamning frá 1983 sem þarf að endurnýja. Einnig er miðað við fyrirliggjandi hnit fyrir aðliggjandi lóð, Jarphagi 3. Samhliða er óskað er eftir að lóðin Þjórsárholt fái staðfangið Brattakot sem er heiti sem lóðin hefur gengið undir frá stofnun hennar. Staðfangið Þjórsárholt er þegar til á L166616 sem er upprunajörð lóðarinnar.
Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við afmörkun lóðarinnar og breytt staðfang skv. fyrirliggjandi umsókn. Skipulagsnefnd mælist til að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykki erindið.
 

 

 

24.  

Öll sveitarfélög:

Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 21-150 – 2110001F

Lögð er fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 21-150.

 

 

 

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 11:00